Maðurinn sem ætlar að vera stærri en lífið

Alveg síðan ég var heimspekistúdent við HÍ og sat kúrs hjá Arnóri Hannibalssyni um rússenska heimspeki hef ég haft sérstakt dálæti á Fjodor Dostojevskí og þeirri angistarfullu en vonarríku tilivstarheimspeki sem hann reisir veraldir úr í verkum sínum.  Það er eitthvað angurblítt og fagurt í verkum Dostejevskís og aðferð hans við að rannasaka veröldina – að skoða dýpstu hugmyndir og svara knýjandi spurningum um lífið sjálft með því að fabúlera sögur af fólki sem lifir.

Í öllu sínu höfundarverki er Dostjevskí að velta frelsishugtakinu fyrir sér – hvernig lífi lifir sá sem er frjáls og heill? Og í tilraun til að svara því sagði Dostjevskí sögur af fólki – skáldaðar og sannar í bland. Ég ætla nú ekki að skrifa heimspekilega hugleiðingu um tilvistarspeki Dostjevskís hér og nú en læt duga að benda á að hann taldi að fullkomið frelsi væri aðeins mögulegt að öðlast í gegnum stórkostlega þjáningu og fjötra. Að þjást, og það mikið, að vera fjötraður og það kyrfilega, er forsenda þess að skilja og öðlast frelsi og hamingju. Þið sem hafið lesið verk Dostojevskís kannist við þetta stef – saga Raskolnikovs í Glæp og refsingu lýsir einmitt þessu ferli frá þjáningu til hamingju, frá fjötrum til frelsis.

Þetta kann að hljóma einsog bull og þvættingur, kannski sniðugt plott í skáldsögu einsog Glæp og refsingu en ólíklegt eða ómögulegt í lífinu sjálfu. Hvernig getur þjáning verið forsenda hamingju? Hvernig geta fjötrar verið forsenda frelsis?

Svarið við þeirri spurningu gekk inn í vitalsherbergi til mín á fimmtudaginn í kollinum á manni, köllum hann Yousif, sem hafði óskað eftir aðstoð við að leysa úr ákveðnu verkefni. Ég er ekki viss um að leiðsögn mín dugi til þess að leysa málið fyri hann – en það er öruggt mál að Yosif hafði djúp áhrif á mig. Svo djúp að ég sökk á bólakaf í gamlar vangaveltur heimspekistúdentsins um hugmyndir Dostejevskís um frelsið og þjáninguna. Þegar leið á samtalið fannst mér stundum einsog  þarna væri Raskolnikov lifandi kominn.

Sumar manneskjur – raunverulegar manneskjur af holdi og blóði – eru einfaldlega stærri en lífið. Þið skiljið hvað ég á við ef þið lesið aðeins lengra.

Saga sem ég varð að heyra

Yousif er hælisleitandi frá Íran og hefur verið flóttamaður næstum hálfa ævi sína. Ungur að árum tók hann þátt í aktívisma og mótmælum gegn klerkastjórninni í Íran sem varð á endanum til þess að hann varð að flýja land árið 1999. Af ástæðum sem eru flóknar og langt mál að rekja, auk þess sem ég hef ekki leitað heimildar Yousifs til að segja sögu hans, er hann enn á hrakhólum og kom til Íslands um mitt sumar. Hann vonast auðvitað til þess að fá skjól og hæli á Íslandi en hann veit að líkurnar til þess eru afar litlar.

Heimspekilegi parturinn af samtali okkar Yousif hófst á því að hann bauð mér aðstoð sína ef ég þyrfti á túlki að halda í störfum mínum fyrir Rauða krossinn og óskaði jafnframt eftir starfi sem sjálfboðaliði  við eitthvað sem gæti hentað manni einsog honum – manni sem talar sex tungumál en sér mjög illa. „Það er langtum meira gagn af munninum á mér en augunum,“ sagði Yousif og skellti upp úr.

Tungumálin sem Yousif talar eru farsí, arabíska, þýska, enska, norska og ítalska. Í miðju samtali reyndi einmitt á arabískuna hans þegar arabísk kona bankaði á glugann hjá okkur með smávægilegt erindi sem Yousif hjálpaði mér að leysa úr. Mér fannst þetta áhugaverð samblanda og þegar ég fór að spyrja hann út í hvernig hann hefði lært þessi tungumál spurði hann varfærnislega hvort ég hefði tíma – því þetta væri löng saga? Jú, ég skyldi gefa mér tíma, því einsog þið vitið sum hver hef ég ákafan, næstum sjúklegan, áhuga á fólki og ég vissi að sagan hans Yousif myndi ásækja mig gæfi ég mér ekki tíma til að hlusta. Þess vegna sótti ég kaffi og súkkulaðikex handa okkur og svo settumst við niður og Yousif sagði frá.

Stærsta gjöfin

Það sem snart mig fyrst og fremst við sögu Yousif er afstaða hans sjálfs til sögu sinnar, tilverunnar og þeirrar manneskju sem í honum býr. Hann sagði að það væri óhjákvæmilegt að fjalla svolítið um erfiðleika og manneskjur sem hann hefur átt samskipti við sem voru kannski minni manneskjur en þær gætu verið til að setja sögu sína í samhengi. En annars reyndi hann að læra af fólki sem gerir honum til miska og gleyma því svo fljótt en muna ævinlega  eftir þeim sem gera gott og láta kærleiksverkin og vinarþel alltaf yfirskyggja vondu samskiptin.

Til útskýringar sagði hann mér sögu af Juliu vinkonu sinni á Ítalíu. Þau hittust fyrir tilviljun á lestarstöð þegar Yousif bjó á götunni í  Torrino. Þeim varð vel til vina og Julia bauð honum að búa í ofurlitlu gestahúsi sem stóð á lóðinni hennar á meðan hann kæmi undir sig fótunum.

„Ég gleymi því aldrei“, sagði Yousif, „þegar hún kom gangandi niður stíginn að gestahúsinu daginn sem ég kom og leiddi fjögurra ára dóttur sína, hana Fransesku. Þegar ég kom út á pallinn framan við húsið ýtti Julia telpunni í átt til mín og sagði – hlauptu nú og heilsaðu Yousif vini okkar.“

Hérna þagnaði Yousif lengi, en hélt svo fram

„Þetta var stærsta gjöf sem ég hef nokkurntíma fengið – að hún skyldi treysta mér nóg til þess að ýta barninu sínu til mín er eitthvað sem ég gleymi aldrei..”

Aftur þagnaði Yousif og dreypti á kaffinu sem hafði kólnaði í bollanum.

“Sjáðu til, þegar maður hefur einu sinni upplifað svona takmarkalaust traust gleymist það aldrei heldur heldur áfram að gleðja mann alla tíð. Þetta er einhverskonar þversögn um eilíft augnablik . Gjöf sem endist út lífið. Og það eru fleiri svona augnablik sem ég hef átt – þökk sé lífinu. Augnablik sem ég hef upplifað innilegt og nærandi traust. Við erum að lifa slíka stund núna. Ég treysti þér fyrir sögunni minni og mér líður vel með að segja þér hana – þú ert að gefa mér augnablik sem ég mun muna“.

Svo hélt hann áfram og sagði mér að hann hefði búið í smáhýsinu í garði Juli í nokkrar vikur þangað til að endingu hann ákvað að fara – þó hann ætti ekki í önnur hús að venda – því maður má ekki misnota traust fólks og verður alltaf að kunna sinn vitjunartíma.

„Það er kúnst að taka við gjöfum lífsins, einsog trausti og gestrisninni sem Jula og Franseska sýndu mér. Maður verður að taka við þeim – en jafnframt gæta þess að taka hvorki of mikið né of lítið. Þess vegna fór ég.“

Það sem við skiljum eftir í heiminum

Hann sagði mér frá fleiri átburðum úr lífi sínu, góðum og slæmum, og sagði mér að það væru augnablik og andrár einsog við vorum að lifa einmitt þá, augnablik einsog þegar Franseska kom hlaupandi niður stíginn í sólinni,  sem  hann safnar saman og geymir sem einskonar lífselexír –  til að bergja á þegar lífið er erfitt til að koma í veg fyrir að og vonleysi og erfiðleikarnir taki af honum völdin og ákveði hvernig maður hann er eða verður. Þangað sækir hann kraft þegar hann aftur og aftur þarf að hefja nýja  vegferð á nýjum stað frá grunni, einsog á Íslandi í sumar.

„Auðvitað er hlutskipti flóttamannsins oft erfitt, helst vegna þess að því fylgir svo mikill vanmáttur og stjórnleysi, maður ræður svo litlu um líf sitt. En ég hef hugsað mjög mikið um lífið og hvernig maður ég vil vera og hef ákveðið að hvað sem gerist ætla ég alltaf að vera stærri en lífið. Ég ætla að vera glaður og frjáls og ég hef einsett mér að láta aðstæður eða gang lífsins ekki þröngva mér til að gera eða vera eitthvað sem ég vil ekki vera eða gera. Ég hef því miður ekki alltaf skilið hvernig ég get gert þetta eða hvers vegna það er mikilvægt – en ég skil það núna. Þess vegna safna ég þessum góðu augnablikum og læt þau minna mig á og halda mér á réttri braut þegar á reynir.”

Já, Yousif minnti mig á persónu í lokakaflanum í  bók eftir Dostojevskí og innsiglaði þau likindi þegar hann sagði:

“Sjáðu til, ég hef nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að það skiptir minna máli en maður heldur hverjar aðstæður manns eru í lífinu, það sem skiptir mestu er hvernig maður vinnur úr þeim og horfir á þær. Hvort sem maður er flóttamaður eða fjárfestir, ríkur eða fátækur. Á endanum er það svo að þegar við yfirgefum þennan heim skiljum við öllu það sama eftir okkur – hvað sem líður lífi okkar á meðan það varir. Eftir stendur aðeins mannorð okkar og orðspor sem mun lifa í heiminum löngu eftir að við erum dáin. Og ég hef heitið sálfum mér því að bera ábyrgð á því mannorði sem ég skil eftir mig. Þannig ætla ég mér að vera stærri en lífið .“

Mikið sem ég er fegin að ég gaf mér tíma til að hlusta á sögu Yousifs – deila með honum þessum augnablikum. Og svei mér þá, ég ætla að fara að dæmi hans og þessi stund sem við eyddum saman á fimmtudaginn verður perla í minningapokanum mínum. Væri ekki til mikils að vinna ef við myndum öll einsetja okkur að vera stærri en lífið – í skilningi Yousifs?

 

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Eitthvað dýrmætt um lífið ….

Í vikunni var ég í kaffiboði hjá fólk sem kom til Íslands fyrir innan við ári síðan sem flóttafólk og er hægt og bítandi að byggja sér nýja tilveru í nýju landi. Þau nýta tækifærið sem þau fengu vel – eru einbeitt í því að læra sem mest en eru um leið svo flink að nýta grunninn úr sínu gamla lífi sem undirstöðu fyrir nýja og innihaldsríka tilveru á Íslandi. Þau hafa aldrei leitt hugann að fræðum sem fjalla um gagnkvæma aðlögun og undirbúningurinn, sem þau fengu fyrir kúvendinguna sem varð þegar þau stóðu uppi sem flóttafólk vegna stríðsátaka í landinu sem þau höfðu aldrei ímyndað sér að þau myndu nokkruntíma yfirgefa, var eðli málsins samkvæmt ekki mikill eða ítarlegur.  En þau kunna svo sannarlega listina að lifa saman.

Viðhorf þeirra og afstaða til tilverunnar gerir það að verkum að þau hafa búið sér forsendur til þess að nýta það besta úr nútíðinni á Íslandi, fortíðinni í Sýrlandi, lífinu  sem í þeim býr og mótast af menningu, hefðum og sögu þjóðar í fjarlægum heimshluta, þeirri sáru reynslu sem þau hafa gengið í gegnum og treganum og sorginn sem óhjákvæmilega er hlutskipti þeirra sem glata öllu og neyðast til að leggja á flótta.

Úr þessu vefa þau listilega tilveru úr gömlum og nýjum þráðum sem er þrátt fyrir allt full af hlýju, trausti, þakklæti–  já og gleði og fegurð sem er einhvern vegin svo djúp. Þetta er fólk sem hefur reynt svo mikið, misst svo mikið, grátið svo mikið að gleðin verður stór og einlæg loksins þegar hún gefst.  Ekki spennt og æpandi – eru ekki allir í stuði? – einsog stundum vill vera hjá fólki einsog mér  sem hef varla upplifað sárlega andstæðu gleðinnar, þið vitið stöðuga lífshættu, öllu sem þér er kærast er ógnað, botnlausa sorg og missi – heldur mjúk og heilandi gleði þess sem hefur lært að meta hæglátan gang sjálfs lífsins og tilverunnar.

Lífið er auðvitað ekki einber dans á rósum fyrir þessa fjölskyldu þó hún hafi fengið skjól á Íslandi– en það er líf fullt af möguleikum, sem er ekki sjálfgefið. Þið fyrirgefið mér þessar hástemmdu lýsingar –þetta fók snerti mig bara svo djúpt að ég get ekki lýst því án þess að grípa til skrúðmælgis. Fyrir mig var þetta ekki bara heimsókn – þetta var upplifun og kennslustund í mennsku, um hvernig manneskjur geta afborið hið óbærilega með reisn.

Eins undarlega og það nú hljómar þá var það nefnilega beinlínis upplífgandi – hugljómandi, heilandi – að setjast niður með þessu góða fólki og tala um erfiðleikana sem þau hafa lagt að baki (einsog hægt er miðað við aðstæður, ástandið í Sýrlandi versnar frá degi til dags þó séu komin í skjól sem veldur þeim auðvitað sársauka og sorg sem ég get varla gert mér í hugarlund), tækifærin framundan og hvernig þau takast á við sitt nýja líf. Myrkur í skammdeginu? Ekkert mál – hér er stöðgut og ódýrt rafmagn og við kveikjum bara ljósin. Kuldi og rok? Ekkert mál, við bíðum það af okkur inni við og njótum þess að vera lifandi og örugg á meðan. Framandi tungumál og menning? Ekkert mál – bros og vingjarnlegheit eru án tungumáls og landamæra og fólk á Íslandi brosir mikið og er mjög vingjarnlegt. Við munum læra málið með tíð og tíma, hér höfum við tækifæri til að læra sem við höfðum ekki í flóttamannabúðunum og við viljum læra. Auðvitað er margt öðruvísi hér en heima í Sýrlandi – en margt af því er skemmtilega öðruvísi og mjög áhugavert. Við getum til dæmis ekki beðið eftir því að fara út á svalir að horfa á noðurljósin í kvöld, þau sáum við aldrei heima í Sýrlandi.

Þar sem ég sat undir súð í huggulegri en fábrotinni stofunni þeirra og spjallaði um lífið, sjálft lífið bar fjölskyldufarðinn í mig alskonar dýrindis krásir sem hann hafði framreitt í litla eldhúsinu þeirra. Ef ég hef einhverntíma borðað mat sem var eldaður með hjartanu var það þetta síðdegi í vikunni. Hann sýndi mér stoltur hvernig hann hafði fundið hráefni á Íslandi og spunnið áfram uppskriftir af uppáhalds matnum sínum frá Sýrlandi svo úr varð dásamlegur bræðingur íslenska og sýrlenska eldhússins. Þvílík veisla fyrir bragðlaukana mína. Jógúrt, heimagerður ostur, einhverskonar samblanda kotasælu og rjóma, flatbrauð, smákökur sem minntu á vanilluhringina sem mamma bakar fyrir jólin nema þessar voru fylltar með pistasíum og döðlum, rjúkandi te og ilmandi kardimommukaffi.

Það var bjart og sólríkt í stofunni og svipur og bros – það var mikið brosað –  allra sem tóku þátt í þessari dásamlegu samveru voru líka björt og hlý. Þessi andartök fannst mér ég læra eitthvað svo óendanlega dýrmætt um lífið. Eitthvað sem er ekki hægt að koma í orð í stuttum pistli – þetta var upplifun, tilfinning sem umbreytir og kenndi mér að þrátt fyrir allt og allt er alltaf von um betri tíð með blóma í haga.

Það er dýrmætur lærdómur!

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Strákurinn sem óttast að lífið pressi úr honum manneskjuna

Um daginn hitti ég ofsalega viðkunnalegan ungan mann í strætóskýli. Það var pakkað í skýlið og ausandi rigning og viðkynni okkar hófust á því að hann bauð mér plássið sitt í skýlinu en ætlaði sjálfur að standa fyrir utan í rigningunni. Rétt í því kom vagninn sem flestir voru að bíða eftir svo ekki kom til þess en við settumst niður og fórum að spalla saman um lífið og tilveruna á meðan við biðum. Við reyndumst svo eiga samleið og spjallið hélt áfram eftir að strætóinn brunaði af stað út í rigninguna, áleiðs heim með okkur bæði.

Þessi strákur, köllum hann Mohammed sem er ekki hans rétta nafn, er frá Sómalíu og ein af þessum manneskjum sem hafa svo notalega áru og nærveru að manni finnst einhvern vegin að maður hljóti að haf þekkt hana lengi, þó maður komi henni ekki fyrir sig. Og það er útilokað að fólk einsog ég – sem er alltaf að drepast úr forvitni um náungann, ekki rætinni eða illgjarnri forvitni heldur bara einlægum áhuga á fólki og lífi þess – sé í samskiptum við náunga einsog Mohammed án þess að vera fljótt komin á bólakaf í spurningar um hluti sem koma mér auðvitað strangt til tekið ekki við. Þið vitið – hvaða manna ert þú væni minn? Hvernig bar það til að þú komst til Íslands? Hvað finnst þér um heiminn og tilveruna? Hver er saga lífs þíns?  Umbúðalaus hraðferð að kjarna málsins.

Og af því að Mohammed er einlægur og indæll strákur sem hefur svikalausan áhuga á fólki alveg einsog ég myndaðist strax traust á milli okkar sem gerði það að verkum að við, sem um það bil átta mínútum áður vorum bláókunnugt fólk, vorum farin að tala saman einsog gamlir vinir svona um það leyti sem strætóinn kom.

Ég hef hitt Mohammed vin minn nokkrum sinnum síðan við hittumst fyrst og við höfum rætt um heima og geima. En í umræðunni síðustu daga hefur mér æði oft verið hugsað til samtalsins okkar þennan rigningardag sem við hittumst fyrst. Mohammed er nefnilega hælisleitandi á Íslandi – einn af þessu fólki sem margir virðast óttast þessa dagana. Þegar við hittumst fyrst hafði hann fengið synjun um hæli en áfrýjað niðurstöðunni og fær líklega lokasvarið á allra næstu dögum. Við vitum bæði hver niðurstaðan verður – þar sem hann hefur áður dvalið í Evrópulandi er næsta víst að hann fær synjun. Þannig eru reglurnar og framkvæmd laganna á Íslandi. En Mohammed leyfir sér samt að bíða  milli vonar og ótta – af því að vonin er það eina sem hann hefur. Merkilegt annars hversu lengi fólk getur haldið í von – þegar engin von er til þess að það beri árangur. Svon er mannsskeppnan nú merkileg.

Þegar vonin deyr – deyr sá maður sem Mohammed hefur að geyma

Það eru sumsé engir möguleikar í stöðunni fyrir Mohammed aðrir en að vona þangað til vonin að endingu deyr. Og þeim degi kvíðir hann því hann er viss um að þann dag deyi ekki bara vonin – heldur líka sá maður sem hann hefur að geyma.

Sjáið þið til – þennan rigningardag í strætó ræddum við nefnilega almennt um stöðu hælisleitenda  sem þvælast frá einu landi til annars í Evrópu í von um tækifæri til að hefja líf sitt eftir miklar hrakningar og erfiðleika. Jafnvel árum saman. Og trúið mér, þrátt fyrir ungan aldur þekkir Mohammed þessi mál mun betur en hann hefði kosið.

„Ég er nú bara strákur frá Sómalíu sem veit ekki margt,“ sagði Mohammed mér. „En ég hef samt áttað mig á einu sem ráðamenn í Evrópu virðast ekki hafa gert. Þegar þeir tala um fólk einsog mig eru þeir alltaf að tala um öryggi og ógnir. En það er miklum mun hættulegra og meiri ógn fyrir Evrópu að synja fólki alstaðar um hæli en gefa því tækifæri til að setjast að og lifa lífi sínu einsog manneskju sæmir. Þessi útilokunarstefna mun hafa skelfilegar afleiðingar fyrir okkur öll, er ég hræddur um.“

Svo hélt hann áfram:

„Tökum mig sem dæmi: Ég er nýkominn úr starfsþjálfun og ef vel gengur fæ ég vinnu og get sótt um tímabundið atvinnuleyfi á meðan ég er að bíða eftir niðurstöðu í mín mál – fjarlægur draumur er að halda svo bara áram að vinna og lifa á Íslandi. Mér líður vel hér, hef eignast vini og hlakka mikið til þess að fara að vinna og standa á eigin fótum. Jafnvel þó það yrði bara í nokkra daga myndi það bæta sjálfsvirðingu mína. Þetta er það eina sem ég bið um – tækifæri til að standa á eigin fótum. Mig langar ekkki að búa í úrræði á vegum ríkisins, mig langar ekki að fá peninga frá Útlendingastofnun, mig langar ekki að eiga bara vini sem eru í verkefni á vegum Rauða krossins (sorrý, ég er samt þakklátur fyri rallt sem allir gera fyrir mig á Íslandi) við að heimsækja mig eða stytta mér stundir meðan ég bíð – mig langar í alvöru líf. Líf sem er ekki bara vesen og bið og ótti og byggt á því sem aðrir gera fyrir mig. Og ég er viss um að ég get staðið mig vel og komið undir mig fótunum. Þegar öllu er á botninn hvolft hef ég komist í gegnum öll völdunarhúsin og vandræðin við að komast til Íslands – ég er orðinn ansi góður í að bjarga mér.  En það er ekki útlit fyrir að á það muni reyna á Íslandi. Héðan verður mér líklega bráðum brottvísað  til lands sem þegar hefur synjað mér um hæli og mun senda mig til Sómalíu, svo ég verð að koma mér þaðan með hraði og finna mér annað land í Evrópu – þar sem er jafn ólíklegt að ég fái hæli vegna Dyflinarreglugerðarinnar og sama ferlið fer í gang. Aftur og aftur – þannig er framtíðarsýnin einmitt núna. Ég get ekki farið heim til Sómalíu – það jafngildir sjálfsmorði. Svo ég mun halda áfram að flakka stefnulaust frá einu landi til annars og lífið sreymir fram algjörlega merkingarlaust og tómt þangað til ég annað hvort dett dauður niður eða, og þetta skelfir mig meira, ég missi endanlega vonina og vitið um leið.

Af því að með hverjum andardrætti anda ég meiri örvæntingu inn og agnarögn af því sem gerir mig að almennilegri manneskju út. Á endanum óttast ég að vera búinn að anda út allri manneskjunni í mér og fylla sálina og hugann og hjartað af örvætningingu. Þegar það hefur gerst treysti ég sjálfum mér ekki til að vera góð manneskja sem gerir það sem er rétt og sættir sig við eða reynir að vinna úr aðstæðum á þann hátt að enginn beri skaða af. Þá óttast ég að vera orðinn einsog dýr sem hefur verið króað af og berst fyrir lífi sínu af eðlishvötinni einni saman – en hefur enga skynsemi eða samkennd til að leiðbeina sér. Þann dag óttast ég meira en allt annað!

Þá verð ég kannski hættulegur – og örugglega byrði á því samfélagi sem situr uppi með ónýta manneskju.“

Þessi partur úr samtali okkar Mohammeds í strætó situr í mér – af því að það sem hann sagði er því miður líkleg niðurstaða fyrir hann ef ekkert breytist. Og ekki bara hann, heldur allan þann fjölda fólks sem er í  sömu stöðu.

Það er dapurleg tilhugsun – að lífið  muni á endanum pressi úr þessum viðkunnalega og indæla strák manneskjuna sem í honum býr.

Og ég held það sé rétt hjá honum – það er mun hættulegra fyrir “okkur” að bíða eftir því að það gerist (fyrir Mohammed og alla hina) en gefa honum tækifæri til að lifa með okkur sem almennilegar manneskja sem hefur svo sannarlega margt til brunns að bera.

 

 

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

“Hugtökin búa í hjarta okkar” Um Pál Skúlason og Þorstein Gylfason – mennina sem breyttu líf mínu

Fyrir helgi fékk ég nýjasta  Hug – tímarit um heimspeki  í hendurnar og hef verið að gæða mér á innihaldi hans um helgina. Í öndvegi er viðtal sem Jón. Á. Kalmansson tók við Pál Skúlason á síðustu vikum lífs hans vorið 2015. Viðtalið fjallar um heimspeki Páls og þá um leið um manneskjuna Pál því að mörgu leyti er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt. Yfirskrift viðtalsins er „Hugtökin búa í hjarta okkar“ sem segir kannski allt sem segja þarf um hvernig heimspekingur og manneskja Páll Skúlason var. Hann gerði allt með hjartanu og er einhver hlýjasti og besti maður sem ég hef kynnst, en ég var svo lánsöm að kynnast honum þegar ég var heimspekistúdent við HÍ og vinna seinna með honum að öðrum verkefnum sem snúa að því heimspekilega viðfangsefni sem ég hef valið mér (eða valdi mig) að glíma við – listina að lifa saman.

Við Páll, ásamt fleirum, unnum saman að nokkrum verkefnum sem má segja að hafi fjallað um stöðu manneskjunnar í heiminum og skyldur þeirra hver gangvart annarri. Því miður láu leiðir okkar ekki mikið saman síðustu æviár hans, en þó svolítið. Haustið 2008 skapaðist nokkur umræða um aðstæður flóttafólks og móttöku flóttamanna á Akranesi þegar bæjarstjórn samþykkti að taka á móti hópi 29 flóttamanna frá Írak. M.a. gengu undirskriftarlistar gegn verkefninu í bænum, listar sem byggðust á grundvallarmisskilningi á aðstæðum fólksins sem þótti brýnt að leiðrétta. Því var haldinn fundur í Tónbergi fyrir íbúa bæjarins til þess að koma á framfæri upplýsingum um það sem sannara reyndist og stilla fókusinn – fundur sem varð til þes að margir skiptu um skoðun og gengu til liðs við verkefnið með því að skrá sig sem stuðningsfjölskyldur á vegum Rauða krossins.

Páll ætlaði að tala á þessum fundi en var svo ekki á landinu þegar til kom – en aðstoðaði mig svolítið við skipulagninguna og efnistök og benti á annan heimspeking sem talaði í hans stað. Á meðan á þeim undirbúining stóð gleypti ég í mig hugmyndir Páls og afstöðu til umræðuefnis fundarins. Sléttu ári áður en viðtalið í Hug var tekið vorum við Páll svo aftur að plana lítið verkefni saman – en hann ætlaði að koma og fjalla um verk sitt „Ríkið og rökvísi stjórnmálanna“ í röð bókakynninga um samfélagsmál sem ég var þá að skipuleggja á Bókasafninu á Akranesi. Við héldum í vonina um að hann yrði skárri af veikindunum og gæti skotist upp á Skaga eitthvert síðdegið – en af því varð aldrei. En ég er þakklát fyrir að hafa endurnýjað þó ekki væri nema að þessu litla leyti sambandið við Pál. Ég gerði mér grein fyrir því að tími hans var að renna út og það gerði hann auðvitað líka, æðrulaus og yfirvegaður sem hann var vegna þessa, sem gerir samtölin sem við áttum út af þessu enn dýrmætari í minningunni.

Lífið sem ævintýri og að hugsa af þolinmæði

Maður hittir fáar manneskjur á lífsleiðinni sem hafa grundvallarárhif á líf manns, mér liggur við að segja stýra því hvernig maður skilur og skynjar tilveruna. Páll var ein af þeim manneskjum sem hafði slík áhrif á líf mitt – hann kenndi mér að undrast veruleikann og skynja lífið sem ævintýri, en þessi stef eru rauður þráður í gegnum alla heimspeki hans. Páll sagði sjálfur að undrunin yfir veruleikanum væri upphaf þess að hann fór að ástunda heimspeki, löngunin til að skilja þetta undur. Hvers vegna er eitthvað fremur en ekkert? Og þessa afstöðu finnst mér líka mega rekja í gegnum öll samskipti mín við Pál – spurningin: hvers vegna er allt einsog það er en ekki einhver vegin öðruvísi? Og kannski má segja þessar spurningar hafi verið sjálft lífslaflið fyrir Páli – það sem rekur okkur áfram í eilífri leit að skilningi. Og þetta afl var enn að verki rammsterkt örfáum vikum áður en hann dó – einsog birtist svo kristaltært í viðtalinu í Hug.

Þorsteinn Gylfason, sem einnig var kennari minn og vinur þegar ég var heimspekistúdent við HÍ, hafði líka stórkostleg áhrif á líf mitt, þó það væri á öðrum nótum. Páll var svo barnslega einlægur en að sama skapi frjór og eldklár hugsuður – mér dettur ekki önnur lýsing í hug – og kenndi mér að njóta þess sem býr í hjartanu. Undrast það, reyna að skilja það og fagna því. Að lifa, njóta og skoða með allri verundinni – hjarta, skynsemi, huga, líkama og sál. Stundum finnst mér ég vera að springa úr undrun, hugmyndum og lífi – það er tilfinning sem Páll vakti fyrstur hjá mér.

Áhrif Þorsteins voru hófstilltari og röklegri, ef svo má segja  –  hann innrætti mér mikilvægi þess að hafa hemil á hugsuninni og geta rakið hana, skoðað, skilgreint og stýrt. Þorsteinn er sennilega sá maður sem kenndi mér best að treysta hugsun minni og forma hana. Ég skrifaði B.A verkefnið mitt hjá honum og ég man ekki hversu oft hann sendi mig heim með kafla úr ritgerðinni til að hugsa aðeins betur. „Ég veit að það býr meira í þér – þú býrð yfir færnininni en ert of óþolinmóð. Hugsaðu þetta aðeins betur og komdu aftur á morgun.“ Sagði Þorsteinn svo oft. Og ég gerði auðvitað einsog hann sagði –oft pirruð og óþolinmóð, að springa úr hugmyndum sem ég vildi koma frá mér. Og auðvitað náði ég betri tökum á því sem ég var að hugsa þegar ég gaf mér meiri tíma og tamdi mér meiri yfirvegun. Þegar upp er staðið er þetta dýrmætasti lærdómurinn sem ég dró úr BA náminu mínu – að temja mér þolinmæði og yfirvegun til að hugsa hlutina til enda. Og hafa trú og traust á því sem ég hugsa vegna þess að ég veit að ég hef hugsað hlutina til enda og af yfirvegun, eða að minnsta kosti eins langt og ég kemst hverju sinni.

Lærdómurinn frá Páli og Þorsteini er með dýrmætasta veganestinu sem ég fékk út í lífið. Þessir menn breyttu lífi mínu – það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Og það er ekki síst þeim að þakka að líf mitt hefur verið hamingjusamt – einsog hamingjan útlistast í kenningu Páls um hana.

Um helgina hef ég lesið viðtalið við Pál tvisvar og efni þess hefur varla vikið úr huga mér. Um leið og ég finn fyrir svo undarlega djúpum söknuði eftir þessum lærimeisturum mínum átta ég mig betur en nokkru sinni fyrr á því hversu hugsun Páls og Þorsteins og leiðsögn þeirra hefur mótað afstöðu mína til heimspekinnar og tilverunnar allrar í miklum grundvallaratriðum.  Í viðtalinu fjallar Páll meðal annars um hugmyndir sínar um skynsemina og hvernig hún er nátend frelsishugtakinu og hvernig þetta tvennt birtist í sjálfræði manneskjunnar – hæfileika mannsins til að ráða sér sem frjáls vera og beita til þess skynseminni. Hamingjan felst svo að einhverju leyti í því að ávinna sér sjálfræði – og það var það sem Páll og Þorsteinn, hvor með sínum hætti, kenndu mér.

Hamingju mína á ég því að verulegu leyti þeim að þakka. Það er ekki lítil gjöf að gefa nemenda sínum – hafi þeir ævarandi þökk fyrir.

Posted in Uncategorized | 1 Comment

Tvær einræður yfir kaffibolla og randalínusneið

Um daginn var ég að í kaffiboði hjá manneskju mér nákominni. Ég veit að þessari manneskju þykir vænt um mig og mér þykir vænt um hana og við áttum um margt góðan samfund. Það var bara eitt sem bar skugga á þetta annars hugglega boð – hyldýpisgjáin sem er á milli okkar þegar kemur að viðhorfum til listarinnar að lifa saman.

Þessi manneskja er nefnilega eindregin – mér liggur við að segja sjúklegur – andstæðingur flóttamanna og fjölmenningar (skítt með það þó hennar eigin fjölskylda (þar á meðal maki) sé af erlendum uppruna,  það er ekki það sama, og skítt með það þó þeir útlendingar sem hún þekkir  persónulega séu almennt hið ágætasta fólk – eða að minnsta kosti bara einsog fólk er flest – það er ekki heldur það sama. Sama og hvað? Ég veit það ekki!).

Það er svo sem gott og blessað að hafa ólíka sýn og viðhorf – reyndar erum við ósammála um ýmislegt en það hefur ekki komið stórkostlega að sök í okkar samskiptum þó stundum hafi verið tekist á yfir kaffibolla og randalínusneið. Ég var auðvitað sammála manneskjunni um að það væri að mörgu að hyggja, að áskoranirnar væru vissulega til staðar, þetta væri ekki sáraeinfalt og listin að lifa saman um margt snúið listform, en með iðkun, ástundun og réttum meðulum mætti draga verulega úr áskorunum og stuðla að góðum samskiptum og gagnkvæmri virðingu þannig að stöðugleiki, öryggi og friður í samfélaginu yrði áfram tryggður. Ég VEIT að þetta er hægt – því ég hef oft átt í slíkum samskiptum, hef iðkað þessa hóplist. En manneskjan var mér ekki sammála.

Fávísi kjáninn

Það er tvennt sem ég hef verið mjög hugsi yfir eftir þetta boð: Annars vegar algjörlega afdráttarlaus og einstrengingsleg afstaðan sem málflutningurinn gegn því sem ég hafði fram að færa byggði á. Ég er bara fávís kjáni sem veit ekki neitt í minn haus – allt mitt starf og vinátta við innflytjendum og flóttafólki er sumsé byggt á misskiliningi, vankunnáttu, trúgirni eða heimsku. Fréttir er heldur ekkert að marka –Rauði krossinn og vinstri elítan stýrir fréttaflutningi um fjölmenningu, flóttamenn og hælisleitendur og fegrar hann, nema Útvarp Saga, sem er eini fjölmiðilinn sem þorir!

Ég veit svo sem að það er til fólk sem hefur þessa bjargföstu afstöðu og hugmyndir – og trúið mér ég reyndi að stýra fram hjá þessu umræðuefni, með litlum árangri, því mig langaði ekki að eyða samverustundinni á ágreining. En, fyrst ég væri svona almennt að hafa mig í frammi í þessum efnum skyldi ég ekki skjóta mér undan þeirri ábyrgð að taka samræðuna (sem var auðvitað engin samræða heldur tvær einræður með engan sameiginlegan útgangspunkt).

Mér leiddist þetta satt að segja – þangað til ég reiddist – en þótti þó merkileg stúdía að reyna að botna í því hvernig er mögulegt að hugsa eftir svona afdráttarlausum og blindum brautum sem leiðir lóðbeint að niðurstöðunni sem manneskjan óttast mest. Það er – þetta er afstaða sem uppfyllir sig á endanum sjálf.

Í sporum annarra

Hitt sem hitt sem situr í mér – og það skiptir meira máli –  eru nefnilega mín eigin viðbrögð og tilfinningar sem komu mér að sumu leyti á óvart og voru – svo ég tali hreint út – ekki í stíl við það sem ég helst hefði viljað. Ég hefði viljað halda ró minni og yfirvegun – en gerði það ekki.

Sjáið þið til – einmitt þennan dag beið ég (og bíð enn)  tíðinda af öðrum manneskjum sem eru mér kærar sem eru að vinna í því að komast út úr Sýrlandi til að finna öryggi fyrir börnin sín. Ungt fólk sem allt þar til nú reyndi að trúa á framtíð í heimalandinu og ríghélt í von um að skelfingarástandið í Sýrlandi gæti ekki varað að eilífu, en hefur nú misst þá von. Fólk sem ég er í talsverðum samskiptum við og horfi þannig gegnum  lítinn glugga inn í líf þeirra sem enn hafast við í Sýrlandi (og hér spilar auðvitað líka inn í saga annarra vina minna sem hafa flúð stríð og hörmungar en iðulega lent í nýjum erfiðleikum og hörmungum á flóttanum).

Ef ég á að vera alveg hreinskilin vildi ég stundum að ég hefði ekki upplýsingarnar sem vináttan við þetta góða fólk veita. Það tekur oft á að vera þó ekki sé nema þessi ofurlitili þátttakandi í lífi þeirra. Væri ég það ekki væri miklu auðveldara að snúa sér undan og láta einsog ástandið þarna í Mið Austurlöndum eða vandi flótamanna kæmi mér ekki við.

En þau eru vinir mínir – fólk sem mér þykir vænt um – og  þess vegna kemst ég ekki hjá því að setja mig í þeirra spor. Þannig var ég einmitt í þeirra sporum og nokkuð áhyggjufull þegar þetta hundleiðinlega samtal í kaffiboðinu fór fram og það sem situr í mér er reiðin sem blossaði upp í mér, heit og sterk, yfir fullkomnu skilingsleysi, skeytingarleysi og yfirlæti manneskjunnar sem ég var að drekka kaffi hjá. Hér var líf fólks sem er mér kært í húfi – en mælikvarðinn sem manneskjan lagði á þessi líf var svo bjánalega léttvægur; óþægileg konrfrontasjón við útlending á götu, frekja nokkurra hælisleitenda, kona með hijab, svört kona sem á þrjú lítil börn og er  á framfærslu sveitarfélags, útlendingur sem stal einhverju einhvertsaðar, þjónn á kaffihúsi sem kunni ekki íslensku, útlendingar sem manneskjan þekkti sem eru á framfærslu  og svo framvegis.

Þetta var, í huga manneskjunnar, nægileg réttlæting þess að fólkið sem ég beið frétta af, og sem er að reyna að tryggja börnum sínum framtíð og líf (og aðrir í sambærilegri eða verri stöðu) átti ekki að fá tækifæri til þessi í Evrópu. Það var jú leitt að ástandið væri einsog það er – en svona er lífið bara. Við höfum nóg með sjálf okkur.

Og svo var leitað frekari réttlætinga í alhæfingum út frá ativkum sem ég mun aldrei kalla léttvæg – en gagnrýni þó að séu notuð til að skilgreina alla flóttmenn og hælisleitendur eða fjölmenningarverkefnið yfirleitt því það er einfaldlega ekki sanngjarnt né gagnleg greining á þeim áskorunum sem blasa við; hryðjuverk brjálæðinga, uppgangur íslamista – og svo framvegis. Með nokkrum sanni má segja að sá hryllingur sé afleiðing hins afdráttarlausa málfutnings – ekki réttlæting hans.

Vítahringur gagnkvæmrar andúðar

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki einfalt verkefni – en einföld afstaða manneskjunnar sem ég drakk kaffi með er jafn varhugaverð, sennilega varhugaverðari, en að byggja afstöðu sína einfaldlega og eingöngu á mannúð. Að sýna mannúð þýðir ekki að gera sér ekki grein fyrir áskorunum, að sýna mannúð er ekki að vera bláeygður kjáni, að sýna mannúð er ekki að draga engin mörk í samfélagi. Að sýna mannúð er þvert á móti líklega það allra, allra skynsamlegasta sem hægt er að gera í stöðunni. En um það urðum við auðvitað ekki sammála heldur.

Reiðin sem blossaði upp í mér þegar leið á einræðu manneskjunnar var svo sterk tilfinning að það kom augnablik þar sem mér fannst að ég myndi springa. Kannski einmitt vegna þess að mér þykir vænt um manneskjuna sem lét þarna hugmyndir sínar í ljós. Svo hjaðnaði reiðin næstum eins snögglega og hún blossaði upp og satt að segja finnst mér núna nær að vorkenna þeim sem hafa þessa afstöðu, vegna þess að þá skortir í einhverjum mæli  það dýrmætasta sem manneskjur eiga og er mikilvægasta undirstaðan alls sem við gerum; samkennd, innsýn, skilining, mannúð. Það eina sem getur sameinað og tryggt okkur öryggi og frið.

Því fleiri sem búa yfir þessu dýrmæti – því líklegra er að okkur farnist vel og sigrumst á ógninni sem blasir við okkur öllum – vaxandi átökum um réttinn til að njóta þeirra grundvallarmannréttinda að lifa og búa við öryggi.

Í mér situr bara eftir óttinn við heiminn sem bíður okkar ef þeir sem skortir mannúð, en stjórnast af ótta, yfirgangi og sundurlyndi, fá að ráða för.

Því ef ég funa upp í reiði í einræðum yfir kaffibolla í mínu örugga lífi á Íslandi getið þið rétt ímyndað ykkur hvernig vinafólki mínu sem er að leggja út í óvissan flótta mun líða þegar þau mæta þessu viðhorfi í stað mannúðarinnar sem þau reiða sig á og líf þeirra veltur á – og öllum þeim sem þegar hafa mætt því. Viðhorfi sem leiðir af sér mismunun og fordóma. Viðhorfi sem elur af sér vítahring gangkvæmrar andúðar og átaka sem getur ekki endað öðruvísi en með ósköpum.

Vinsamlegast hugsið um þetta og takið svo þá afstöðu sem til teljið réttasta.

Ábyrgðin er ekki bara þeirra sem til okkar leita eftir öryggi og lífi – hún er ekki síður okkar.

Ást og friður.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Upphaf og forsendur flóttamannamála: VII. Hluti

Flóttamenn á Íslandi

Segja má að málfeni flóttamanna séu, í sögulegu samhengi, frekra ný af nálinni á Íslandi. Á árunum 1990 – 1998 sóttu vel innan við tíu einstakaklingar um hæli á Íslandi á ári hverju. Árið 2001 gerðist Ísland aðili að Schengen samstarfinu og það ár sóttu 53 einstaklingar um hæli. Árið, 2002 varð sprenging í hælisumsóknum þegar 117 manns sóttu um vernd á Íslandi. Næstu ár fækkaði þeim nokkuð og voru iðulega innan við hundrað[1] en á allra síðustu árum hefur aftur fjölgað mjög í hópi hælisleitienda. Árið 2013 sóttu 172 einstaklingar um hæli á Íslandi, 175 árið 2014 og 355 árið 2015. Í ár má gera ráð fyrir að á bilinu 800 – 1000 manns sæki um hæli á Íslandi. Hér ber þó að taka fram að aðeins lítill hluti þeirra sem sækja um fá stöðu flóttamanns.

Í upphafi var hælisleitendum markvisst synjað um hæli. Stjórnvöld vildu ekki setja fordæmi fyrir því að veita flóttamönnum hæli í landinu, þó að örfáir fengju dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Á allra síðustu árum  hefur þetta breyst, uppúr 2011 fjölbagi þeim málum sem enduðu með hælisvetingu en undanfarin ár hefur þetta breyst aftur. Árið 2015 fengu 25% þeirra sem hutu efnismeðfer hæli, 2014 lyktaði um helmingi þeirra mála sem fjallað ver efnilsega um með veitingu hælis.  Árið 2013 var hlutfallið aðeins 16%, en það er skýrt með því að stór hluti af þeim sem hingað leituðu sem flóttamenn það ár kom frá ríkjum sem teljast örugg Evrópuríki. Flestir þeirra voru frá Albaníu og Króatíu.[2] Árið 2012 fengu 41% þeirra mála sem fjallað var efnislega um farsælan endi, sjö hælisleitendur fengu stöðu flóttamanns á Íslandi en synjað var í tíu málum.  Árið 2011 var hlutfall þeirra sem fengu hæli enn hærra eða 67%, 14 fengu hæli en 7 var synjað..[3]

Á sama tíma og þessi þróun hefur orðið í málefnum flóttamanna á Íslandi  hefur innflytjendum fjölgað mjög og eru þeir nú tæplega tíu prósent íbúa á Íslandi. Af þessum tölum má ljóst vera að miklar breytingar urðu á Íslandi á skömmum tíma. Íslendingar hafa átt fullt í fangi með að venjast þessum nýja veruleika og aðlögun að breytttri samfélagsgerð stendur enn yfir.

En þó að þróun mála er varðar útlendinga á Íslandi hafi verið hæg og átt sér stað síðar en í öðrum Evrópulöndum hefur þetta litla land Norður í höfum þó alla tíð dregið til sín fólk utan úr heimi, þó í smáum stíl hafi verið. Fyrstu eiginlegu  hælisleitendurnir sem settust að á Íslandi í nútímanum má kannski segja að hafi verið þjóðverjar á hrakólum eftir seinni heimsstyrjöld, þar á meðal fáeinir Gyðingar sem hingað komu á flótta undan nasistum. Flestum Gyðingum sem hingað leituðu með lífið sjálft að veði var þó vísað á brott. Í lok fjórða áratugarins sóttu tæplega 150 Gyðingar um að fá að koma til Íslands en flestum var synjað. Á árunum 1939 – 1940 fengu 33 Gyðingar dvalarleyfi á Íslandi og var Ísland í hópi þeirra landa sem veittu hlutfallslega fæstum þeirra skjól. Sumarið 1949 komu 320 þjóðverjar[4] til starfa í sveitum landsins. Einsog í Evrópu allri vantaði þá vinnuafl á Íslandi, einkum til sveita. Þjóðverjarnir komu margir beint úr flóttamannabúðum og tóku því fagnandi að fá tækfæri til að hefja nýtt líf á Íslandi.[5]

Rauði krossinn á Íslandi  var stofnaður árið 1924 og var Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti Íslands, fyrsti formaður félagsins. Einsog áður hefur verið vikið að hefur Rauða kross hreyfingin alla tíð gegnt mikilvægu hlutverki í málefnum flóttamanna og Rauði krossinn á Íslandi er þar engin undantekning. Árið 1956 brutust út átök í Ungverjalandi með þeim afleiðingum að fjöldi fólks flosnaði upp frá heimilum sínum og lenti á vergangi. Í lok október sama ár sendi Alþjóðasamband Rauða krossins áskorun til landsfélaganna um að veita landflótta Ungverjum hjálparhönd. Rauði krossinn á Íslandi brást við áskoruninni og beitti sér fyrir því að íslensk stjórnvöld tækju við hópi flóttamanna frá Ungverjalandi, en Ísland hafði staðfest flóttamannasamninginn 1. mars þetta sama ár. Stjórnvöld tóku vel í erindið og málið vannst hratt og vel því á aðfangadag jóla 1956 komu 52 flóttamenn frá Ungverjalandi til Íslands, 28 karlar, 22 konur og tvö ung börn.[6] Þetta var fyrsti hópur svo kallaðra kvótaflóttamanna, fórnarlömb átaka í brýnni í þörf fyrir vernd sem eru á mála hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna og stjórnvöld bjóða hæli til frambúðar og aðstoð á Íslandi.

Eftir komu hópsins frá Ungverjalandi leið næstum aldarfjórðungur uns næsti hópur kvótaflóttamanna kom til Íslands, árið 1979 kom 34 manna hópur flóttamanna frá  Vietnam sem settist að í Reykjavík. Þar með fór verkefnið sem móttaka kvótaflóttamanna er að taka á sig þá mynd sem það hefur í dag. Reykjavíkurborg og Rauði krossinn gengdu hlutverki í móttökuferlinu og sjálfboðaliðar Rauða krossins tóku virkan þátt í aðlögunarferli hinna nýju íbúa. 1982 kom hópur frá Póllandi og árin 1990 og 1991 komu hópar frá Víetnam, um þrjátíu manns í hverjum hópi.

Þrátt fyrir nokkuð reglulega móttöku kvótaflóttamanna allar götur frá 1989 höfðu Íslensk stjórnvöld ekki sett sér sérstaka stefnu í málefnum flóttafólks og þeim hælisleitendum sem hingað leituðu á eigin vegum í leit að vernd var undantekningarlaust synjað, þó nokkrir þeirra fengju hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það þýddi að þessir einstaklingar nutu ekki þeirrar aðstoðar sem yfirvöld höfðu skuldbundið sig til að veita flóttamönnum heldur þurftu að brjótast til sómasamlegs lífs upp á eigin spýtur sem best þeir gátu. Íslensk stjórnvöld vildu ekki setja fordæmi fyrir hælisleitendur og báru því við að það myndi kalla á holskelfu hælisumsókna sem Ísland réði ekki við, af menningarlegum ástæðum ekki síður en efnahagslegum. Enn er ekki til skrifleg stefna stjórnvalda í málefnum hælisleitenda.

Árið 1993 heimsótti Pierre Sané framkvæmdastjóri Amnesty International Ísland til þess meðal annars að kynna sér hvernig staðið væri að málefnum flóttamanna. Hann var ekki hrifinn af því sem hann uppgötvaði í heimsókn sinni og gagnrýndi stjórnvöld á Íslandi nokkuð harkalega. Sagði þau brjóta á mannréttindum hælisleitenda og benti meðal annars á að þeir nytu hvorki liðsinnis lögfræðings né stæði þeim til boða túlkaþjónusta við að reka mál sín á Íslandi sem veikti mjög stöðu þeirra. Stjórnvöld á Íslandi brugðust við gagnrýninni og í kjölfarið var skipuð nefnd sem hafði það hlutverk að móta stefnu í málefnum flóttamanna sem var lögð fram árið 1994. Sú stefnumótun skilaði sér í stofnun Flóttamannaráðs, sem síðar breyttist í Flóttamannanefnd, sem hafði það hlutverk að skipuleggja móttöku kvótaflóttamanna og fjalla um málefni hælisleitenda. Fyrsta verkefnið sem ráðið vann að var móttaka hóps þrjátíu kvótaflóttamanna frá fyrrum Júgóslavíu sem kom til Íslands á vormánuðum 1996 og settist að á Ísafirði. Í kjölfarið fygldu tveir heldur minni hópar, um tuttugu manns,  af sömu slóðum sem settust að á Höfn í Hornarfirði 1997 og  Blönduósi 1998.[7] Árin 2000, 2001 og 2003 komu samtals 71 kvótaflóttamaður til Íslands í boði Íslaneskra stjórnvalda frá fyrrum Júgslavíu og settist að á Siglufirð, í Reykjanesbæ og Reykjavík.

Árið 2005 varð nokkur stefnubreyting í móttöku flóttamanna þegar farið var að horfa sérstaklega til einstæðra mæðra og barna þeirra. Árin 2005 og 2007 kom slíkir hópar frá Kolombíu, um þrjátíu manns í hvort sinn, og fékk liðsinni stjórnvalda, Reykvíkurborgar og Rauða krossins til þess að setjast að í Reykjavík. Árið 2008 veitti Ísland móttöku tuttugu og níu manna hópi sem hafði hrakist á flótta frá Írak í kjölfar innrásarinnar 2003 og hafðist við í flóttamannabúðum í einskismannslandi á landamærum Íraks og Sýrlands.[8] Sá hópur samanstóð einnig af einstæðum mæðrum og börnum þeirra. Í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 fækkaði í hópi kvótaflóttamanna og móttakan varð óreglulegri. 2010 komu þrír einstaklingar frá Haítí til fjölskyldusameiningar. Í árslok 2012 komu þrjár einstæðar mæður og börn þeirra, flóttafólk frá Afganistan sem hafðist við í flóttamannabúðum í Íran áður en þau komu til Íslands. Árið 2014 minnkaði áherslan á einstæðar mæður og farið var að horfa til fjölbreyttari hóps við val á kvótaflóttamönnum sem fengu tilboð um að setjast að á Íslandi, meðal annars hinsegin fólks, fatlaðra og sjúkra. Árið 2014 komu sex samkynhneigðir flóttamenn frá Simbamve, Úganda og Kamerún sem sættu ofsóknum vegna kynhneigðar sinnar í heimalandinu, auk sex manna fjölskyldu frá Afganistan. Í ársbyrjun 2015 kom 13 mann hópur frá Sýrlandi, í hópnum sem samanstóð af fjölskyldufólki voru einstaklingar sem höfðu slasast í átökum eða glímdu við veikindi. Nokkrum síðar kom annar hópur sýrlenskra flóttamanna og greint hefur verið frá því í fréttum að von sé að enn öðrum hópi með sama bakgrunn í haust.

Allt frá upphafi hefur móttaka kvótaflóttamanna verið samstarfsverkefni stjórnvalda, sveitarfélaga sem fólkið sest að í og Rauða krossins á Íslandi. Hægt og bítandi hefur verkefnið verið að slípast í farveg og er að mörgu leyti til fyrirmyndar. Ekki síst vegna þeirrar samvinnuhefðar sem þróast hefur milli ríkis, svetiarfélags og Rauða krossins sem tryggir að mannúðarsjónarmið séu hluti af verkefninu þegar það er komið af stað. Þó ákvörðun um hvort og þá hverjum verði boðið að koma sem kvótaflóttamaður til Íslands sé ævinlega pólitísk og á hendi stjórnmálamanna.

Þróunin í málefnum hælisleitenda hefur hinsvegar verið hægari og erfiðari og þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi litið með ákveðinni samúð til vanda kvótaflóttamanna var lengi vel nánast ómögulegt fyrir þá sem komu á eigin vegum í hælisleit að njóta sannmælis og  fá stöðu sína sem flóttamenn viðurkennda á Íslandi. Þar spilar pólitísk ákvörðun stjórnvalda stærst hlutverk, einsog sést vel þegar rýnt er í þær aðstæður sem núgildandi lög um útlendinga árið 2002 urður til við. Umræðan á Íslandi í adraganda lagasetningarinnar var mjög í anda þeirrar þróunar sem var að eiga sér stað í Evrópu og áður er rakin. Tímasetningin er ekki hending, gildandi útlendingalög á Íslandi voru að verulegu leyti viðbragð við breyttum forsendum í útlendigamálum á vesturlöndum í kjölfar árása Al Kaída á skotmörk í Bandaríkjunum sem höfðu í för með sér vaxandi átök og ótta einsog áður hefur verið rakið. Ísland gerðist aðili að Schengen samstarfinu árið 2001 sem auðveldaði nokkuð aðgengi útlendinga innan svæðis að íslenskum vinnumarkaði með þeim afleiðingum að enn meira kapp var lagt á að halda þeim frá sem ekki féllu undir regluverk Schengen samstarfsins. Og ráðamenn óttuðust einnig að þar sem Evrópa væri að herða mjög reglur um flóttamenn og aðgengi hælisleitenda myndi fjöldi þeirra sem leituðu skjóls á Íslandi vaxa, þar sem erfiðara væri í önnur hús að venda. Ísland yrði því að herða á sinnu stefnu til samræmis við það sem var að gerast í Evrópu.[9]

Í umræðunni var þeim forsendum teflt fram að Íslendingar þyrftu að gæta að sínu eigin öryggi gegn varasömum útlendingum sem hingað leituðu í illum og jafnvel glæpsamlegum tilgangi og einnig að íslensk þjóðmenning myndi ekki þola mikla fjölgun útlendinga á Íslandi. Færri huguðu að þeim siðferðilegu skyldum sem af algjldum mannréttindasáttmálum fljóta og liggja kröfugerð einstaklinga sem sækja um hæli undan ofsóknum til grundvallar, enda á krafan grundvallarstoð í 14. grein Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umræðan snerist fyrst og fremst um rétt Íslands til varnar, en ekki skyldur stjórnvalda gagnvart berskjölduðum einstaklingum á flótta úr svarholi flóttamannabúða eða lífsins ómögulegum og ómanneskjulegum aðstæðum. Þessi afstaða varð morgunljós í Lekamálinu 2013 – 2014 þegar áhrifamenn í íslensku samfélagi lýstu þeirri skoðun að borgarleg réttindi og réttur til persónuverndar ættu ekki við hælisleitendur.[10]

 

Þróun útlendingalaga

Útlendingastofnun, sem annast framkvæmd laga um útlendinga á Íslandi, er undirstofnun Innanríkisráðuneytisns og starfar samvkæmt lögum um útlendinga frá árinu 2002.[11] Stofnunin hefur starfað með einhverju sniði allt frá 1937 þegar henni var komið á fót sem deild innan lögreglunnar í kjölfar lagasetningar um eftirlit með útlendingum og hét þá Útlendingaeftirlitið. Nafninu var breytt með nýju lögunum frá árinu 2002. Þau lög tóku mið af sífellt öryggisvæddari umræðu og vaxandi ótta við útlendinga, ekki síst fólk einsog Ibrahem Faraj sem er múslimi og hælisleitandi. Þegar Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, gerði grein fyrir frumvarpinu úr ræðustól Alþingis í febrúar árið 2002, um hálfu ári áður en Ibrahem kom til Íslands, sagði hún meðal annars:

Það leikur enginn vafi á því að hið alþjóðlega umhverfi er gerbreytt frá því að frv. þetta var lagt fram fyrst. Atburðirnir í Bandaríkjunum þann 11. september sl. umbreyttu heimsmyndinni og knúðu ríki til þess að grípa til allra tiltækra úrræða í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi, sem er orðin raunveruleg ógn við heimsfriðinn.

Einn þáttur í þeirri viðleitni er endurskoðun laga og reglna um útlendingamálefni víða á Vesturlöndum. Hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna m.a. hvatt ríki til þess að grípa til viðeigandi ráðstafana til að ganga úr skugga um að þeir sem sækja um hæli hafi ekki tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi áður en ákvörðun er tekin um veitingu hælis auk þess sem reynt verði að koma í veg fyrir að menn misnoti stöðu sína sem pólitískir flóttamenn, til dæmis þannig að neita verði um framsal á þeim af stjórnmálaástæðum.

Með þessu hefur verið reynt að sporna við því að hryðjuverkamenn úr fjarlægum heimshlutum hreiðri um sig í Evrópuríkjum og myndi jafnvel net umfangsmikillar hryðjuverkastarfsemi þar sem þeir undirbúa ódæðisverk sín óáreittir jafnvel árum saman.“[12] 

Ísland, einsog önnur lönd, þarf að hafa skýra stefnu í málefnum útlendinga, sem tekur meðal annars á þeim vanda sem vaxandi hryðverkaógn í Evróu skapar. Sú ógn er raunveruleg. En ég ætla að leyfa mér að benda á hættuna því samfara að grundvalla lagasetningu og stefnumörkun í málefnum útlendinga almennt á þessum ótta sem beinist sérstaklega gegn einum hópi, múslimum. Auðvitað á ekki að veita hryðjuverkamönnum eða öðrum glæpamönnum hæli, en við megum heldur ekki falla í þá gryfju að gera glæpamenn úr öllum sem til okkar leita og synja þeim um þá vernd sem líf þeirra og tilvera veltur á og þeim á að vera tryggð í Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Þetta er alls ekki einfalt viðfangsefni en sem betur fer virðast íslendingar vera að ná æ betri tökum á verkefninu sem umsýsla um málefni hælisleitenda er eftir því sem reynslan eykst.

Á allra síðustu árum hafa orðið nokkrar breytingar til batnaðar á því kerfi sem fjallar um hælismál á Íslandi og að líkindum mun verð enn meiri breyting til batnaðar þegar nýsamþykkt útlendingalög taka gilid um næstu ármmót.  Þann 12. mars árið 2009 féll dómur í Hæstarétti um að stjórnsýslulög hefðu verið brotin við meðferð vegna umsóknar um hæli. Forsaga þess máls var sú að Útlenidngastofnun hafði sent beiðni til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um bakgrunnsupplýsingar í máli hælisleitenda en hælisumsókn var synjað áður en svar barst frá flóttamannastofnuninni. Þeir sem úrskurðuð í málinu höfðu með öðrum orðum ekkert í höndunum til að leggja dóm á persónulega sögu viðkomandi áður en þeir ákváðu að synja umsókninni. Úrskurðuinn var kærður til dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið staðfesti óígrundaðan dóm Útlendingastofnunar. Málið var kært til dómstóla og hælisleitandinn sem um ræðir vann málið í héraðsdómi. Ríkið áfrýjaði málinu, en tapaði einnig fyrir Hæstarétti.

Í dómi Hæstaréttar segir að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin með því að bíða ekki svars frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áður en viðkomandi hælisumsækjanda var synjað um hæli. Málið og síðar dómurinn sem um það féll skapaði eðlilega nokkra umræðu og  krafan um að farið yrði ofan í saumana á hælismálum og vinnubrögðum sem hefð hafði skapast fyrir varð áberandi og æ háværari. Í kjölfarið skipaði þáverandi dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, starfshóp sem hafði það hlutverk að skoða lög og reglugerðir um málsmeðferð í hælismálum og kanna hvort þau væru í samræmi við aljþóðlegar skuldbindingar sem Ísland hafði gert, meðal annars með aðild að Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt var starfshópnum, sem var faglega skipaður, gert að skila tillögum að úrbótum. Nefndin hafði aðeins það hlutverk að skoða atriði sem gilda um stjórnsýslulega meðferð hælisumsókna, en í henni eru þó að finna tillögur sem miða bæði að aukinni réttarvernd og bættum aðbúnaði og mannúðlegri aðstæðum á meðan beðið er niðurstöðu.

Frá útkomu skýrslunnar hefur markvisst verið unnið að úrbótum í meðferð hælismála þó enn megi margt bæta. Árið 2014 var enn samþykktar mikilvæg viðbót við útlendingalögin sem miða að því að bæta og stytta málsmeðferð hælisleitenda með því meðal annars að stofnsetja sérstaka, óháða kærunefnd sem úrskurðar í málum sem henni berast á grundvelli 30. greinar laganna sem fjallar um hvernig þeim sem synjað er um hæli geta  kært úrskurð um brottvísun. Það er því ekki lengur ráðuneytið sem hefur úrslitavald í lífi hælisleitenda heldur sérstök kærunefnd skipuð sérfræðingum. Þar með var enn stigið mikilvægt skref í þá átt að gera meðferð hælismála falgegri og áreiðanlegri. Við þær breytingar sem þá urðu á málaflokknum fékk Rauði krossinn aukið málsvarahlutverk og samið var við Reykjavíkurborg um að taka að sér utanumhald hluta þeirra hælisleitenda sem á Íslandi dvelja hverju sinni, auk Reykjanesbæjar sem hafði sinnt því verkefni um árabil og allir hælisleitendur þá verið vistaðir á Fit Hostel í Reykjanesbæ. Snemma árs 2015 bárust tíðindi af því að þrátt fyrir þessar úrbætur væri hæliskerfið sprungið og félagsþjónustur í Reykjanesbæ og Reykjavíkurborg gætu ekki sinnt öllum þeim málafjölda sem barst inn á borð til þeirra[13]

Því miður hefur ekki orðið viðsnúningur í viðhorfum til hælsileitenda með faglegri umsýslu, hvorki almennt meðal almennings né þeirra sem hafa örlög þeirra í höndum sér, stjórmálamanna og stefnumótenda. Þetta kom vel í ljós í Lekamálinu svo kallaða sem hófst í árslok 2013 þegar upplýsingum, sem síðar voru að hluta staðfestar sem rógburður, um Toni Omos var lekið til fjölmiðla. Toni Omos var hælsileitandi frá Nígeríu sem hafði verið synjað um hæli og átti að vísa brott frá Íslandi á grundvelli Dyflinareglugerðarinnar. Aðgerðarsinnar sem láta sig málefni hælisleitenda varða boðuðu til mótmælastöðu við Innanríkirsáðuneytið til að andmæla úrskurðinum. Þeir sögðu Omos eiga barnshafandi unnustu á Íslandi og að ómannúðlegt og rangt væri að stía þeim í sundur. Skömmu eftir að boðað hafði verið til mótmælanna birtust í fjölmiðlum viðkvæmar persónuupplýsingar um Omos og tvær konur sem hann var sagður eiga í ástarsambandi við. Einng var hann sagður liggja undir grun um mansal og líklegt þætti að hann væri ekki faðir að barninu en hefði þvingað stúlkuna til að halda því fram til að auka líkurnar á því að geta dvalist áfram á Íslandi. Síðar kom í ljós að rannskakað hafði verið hvort Omos væri sekur um refsivert athæfi en niðurstaða þeirrar rannsóknar var neikvæð. Upplýsingar þar að lútandi lágu fyrir löngu áður en minnisblaðinu var lekið til fjölmiðla. Einnig kom í ljós við rannsókn málsins að minnisblaðinu var lekið úr Innanríkisráðuneytinu. Síðar viðurkenndi aðstoðarmaður ráðherra sekt í málinu og sagði tilganginn hafa veið þann að koma sjónarmiðum stjórnsýslunnar í málinu á framfæri. Sjónarmiðum sem byggðu á ótta og neikvæðum viðhorfum í garð umrædds hælisleitanda, slúðri, sem geta tæplega talist faglegar forsendur. Í eftirmála þessara atburða virtist iðulega sem hagsmunir Toni Omos og þeirra sem málið fjallaði upphaflega um hefðu gleymst. Fæstir virtust hafa áhyggjur af þeim trúnaði sem brotinn var gagnvart Toni Omos og þeim konum sem í hlut áttu, og ekki var óalgengt að heyra því lýst yfir að hælisleitendur ættu ekki að eiga rétt til einkalífs eða njóta sama réttar til friðhelgi og persónuverndar og aðrir. Jafnvel að það væri bráðnauðsynlegt fyrir allan almenning að eiga aðgengi að persónupplýsingum um hælisleitendur þar sem líklegt væri að þeir væru glæpamenn og Íslendingar ættu örgyggishagsmuna að gæta og þyrftu því að hafa aðgengi að slíkum, tiltækum upplýsingum. Hin almenna grundvallarregla réttaríkisins „saklaus uns sekt er sönnuð“ ætti því ekki við um hælisleitendur heldur var frekar gert ráð fyrir því að þeir væru sekir uns þeim tækist að sanna sakleysi. Hælisleitendur væru með öðrum orðum í raun ekki eiginlegur partur af samfélaginu og nytu því ekki sömu borgarlegu réttinda og aðrir. Þar með var svartholið á Íslandi að nokkru staðfest.

Í rúmt ár var Lekamálið að velkjast í umræðu og kerfinu og lytkaði með því að aðstoðarmaður ráðherra viðurkenndi að hafa lekið minnisblaðinu. Hann var dæmdur til refsingar, náði sáttum við þá sem brotið var gegn með sektargreiðlsum og var rekinn úr starfi. Ráðherra sagði af sér embætti skömmu eftir að aðstoðarmaðurinn viðurkenndi brot sitt.

Málið allt var hið vandræðalegasta og undirstrikaði þann viðsnúning í viðhorfi til hælisleitenda sem hefur verið að eiga sér stað síðast liðin fimmtán ár eða svo. Hælisleitendum er í besta falli mætt af tortryggni en í versta falli sviptir réttinum til að njót þeirra mannréttinda sem aðrir geta gert tilkall til af meintum öryggisástæðum. Nú þegar Íslandi hefur tekist að betrumbæta regluverkið og hið lagalega umhverfi sem hælisleitendur verða hluti af þegar þeir leggja fram beiðni um vernd hér á landi er óskandi að okkur beri gæfa til að breyta viðhorfum líka. Það getur skipt sköpum, ekki aðeins fyrir framtíð þeirra sem fá hæli á Íslandi heldur einnig fyrir farsæla sambúið fólks af ólíkum uppruna í fjölbreyttu samfélagi.  Það er samfélagslegur ávinningur af því að allir njóti sambærilegra réttinda og beri sambærilegar skyldur. Ekki bara vegna þess að slíkt er afleidd krafa sem af almennum mannréttindum flýtur, í lagalegum og siðferðilegum skilningi, heldur líka vegna þess að slíkt eykur öryggi og bætir samfélagið. Hælisleitandi sem mánuðum, og jafnvel árum saman upplifir mismunun, andúð og neikvætt viðhorf innan úr kerfinu meðan hann bíður úrlausna sinna mála skortir forsendur til að þróa heilbrigt og gott samband við það samfélag sem hann hefur sótt um að verða hluti af. Mismunun elur þannig á andúð á báða bóga. Fordómar eru spádómur sem rætist af sjálfum sér. Með því að grundvalla vihorf okkar á fordómum sem elur á mismunun og andúð leggjum við grunn að samfélagi sem mismunar og sundrar. Til að byggja brýr er mikilvægt að hælisleitendur hafi tækfifæri til þess að vera raunverulegir þátttakendur í samfélaginu og læri á hið nýja líf í sátt, samlyndi og samneyti við aðra. Þetta skiptir æ meira máli eftir því sem þeim sem fá vernd á Íslandi fjölgar. Hér skiptir máli að hlusta á sögur fólks og átta sig á því að hælisleitendur eru næstum eins misjafnir og þeir eru margir, en allir koma með sama drauminn um líf í farteskinu.

[1] Sjá: http://redcross.lausn.is/Apps/WebObjects/RedCross32.woa/swdocument/1040386/flottamenn_Stats+2006-2008..pdf?wosid=false

[2] Sjá skýrslu Útlendingastofnunar fyrir 2013: http://utl.is/files/Ymislegt/rsskrsla_2013.pdf

[3] Sjá http://utl.is/index.php/um-utlendingastofnun/frettir/686-utgafa-arsskyrslna-2011-2013

[4] Af 320 innflytjendum frá Þýskalandi, sem voru ,á aldrinum 16 – 40 ára, voru 200 konur. Margar þeirra giftust og settust að til frambúðar á Íslandi.

[5] Margrét Guðmundsdóttir (2000): Í þágu mannúðar: Saga Rauða kross Íslands, Mál og Mynd, bls. 196.

[6] Sama rit, bls. 200.

[7] Sama rit, bls, 224 – 227.

[8] Um sögu þess hóps skrifaði Sigríður Víðis Jónsdóttir bók, Ríkisfang: Ekkert, sem út kom á haustmánuðum 2011.

[9] Sjá umfjöllun um stefnu Íslands í útlendingamálum í sögulegu samhengi í Helgarblaði DV 23. – 26. maí 2014.

[10] Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, spurði til dæmis í leiðara blaðisns: „Ef umsækjendur eru vafasamir pappírar, á ekki almenningur í landinu rétt að upplýst sé um það?“

[11] Mjög nýlega voru ný útlendingalög samþykkt á álþingi sem taka muni gildi um næstu áramót. Þau fela í sér ýmsar breytingar til batnaðar.

[12] Sjá: http://www.althingi.is/altext/127/02/r05140314.sgml

[13] Sjá t.d. umfjöllun Stundarinnar frá 7. apríl 2015: http://stundin.is/frett/haelisleitendur-hrakholum/

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Upphaf og forsendur flóttamannamála: VI. Hluti

Umdeildir samningar um málefni flóttafólks

Í takt við þá þróun sem rakin er hér að framan hefur umræðan um málefni flóttamanna breyst. Áður snerist vandinn um að vernda og tryggja öryggi fyrir fólk á flótta en á síðustu fimmtán árum eða svo hefur áherslan snúist alveg við og nú er iðulega rætt um hvernig megi vernda Evrópu og vesturlönd almennt gegn hælisleitendum og flóttamönnum. Því að þó ólöglegt sé að koma til Evrópu heldur örvæntingarfullt fólk áfram að finna smugur í veikri von um að geta átt þolanlegt líf og  byggt sér manneskjulega tilveru. Sá sem hefur engu að tapa nema lífinu sjálfu leggur allt í sölurnar og þess vegna blómstra ólöglegir fólksflutningar um hættulega krókstigu smyglhryngja og glæpaklíka. Líbía hefur orðiðin  miðstöð fyrir slíkan flutning flóttamanna frá Afríku að ströndum Evrópu, einkum Ítalíu. Eftir því sem óöldin í Líbíu magnast minnkar áhersla á landamæraeftirlit og  því er tiltölulega auðvelt að smygla fólki yfir landamærin og áfram yfir Miðjarðarhafið. Sömu sögu er að segja um ástandið í Sýrlandi og Írak. Þetta hefur enn veikt stöðu flóttafólks og sumir komast aldrei úr ánauð smyglhringjanna sem krefjast himinhárra greiðslna fyrir að koma fólki yfir Miðjarðarhafið eða eftir öðrum leiðum til Evrópu.

Samfara þessari þróun hefur orðspor flóttafólks beðið hnekki. Svo rammt kvað að andúð og ótta í garð hælisleitenda og flóttamanna í Bretlandi að Jack Straw, þáverandi utanríkisráðherra, hótaði að segja landið frá Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið 2004. Hin siðferðilega krafa um mannhelgi og mannvirðingu sem algild mannréttindi hvíla á og  upphaflega var látið í veðri vaka að væru undirstaða flóttamannasamningsins, hafði algjörlega gleymst í umræðunni sem fyrst og fremst var farin að snúast um glæpi hælisleitenda og þörfina til þess að vernda íbúa og lönd Evrópu gegn þeim. Sem betur fer varð þó ekki af því að Bretar segðu sig frá samnignum. Slíkt fordæmi hefði getað reynst afdrifaríkt fyrir þær milljónir berskjaldaðra einstaklinga sem þvælast um heiminn í leit að öruggum samastað. Á endanum var þessari hugmynd alfarið hafnað af flestum Evrópulöndum, en þó ekki fyrr en Danmörk, Írland og Austurríki höfðu lýst yfir áhuga á því að ræða möguleikann nánar. Sama ár bauð Straw Tansaníu fjórar milljónir punda í aðstoð gegn því að taka við hópi flóttafólks frá Sómalíu sem hafði verið synjað um hæli í Bretlandi og byggja upp einhverskonar flóttamannabúðir fyrir það.[1] Enn átti þannig að sópa vandamálinu undir teppið, losa Evrópu við að horfast í augu við vandann og koma meiri ábyrgð á þau fátæku lönd sem þegar báru og bera enn hitann og þungann af flóttamannavandanum.[2] Tansanía hafnaði tilboði breska utanríkisráðherrans, en mannréttindaheimurinn stóð á öndinni yfir því að þessu hugmynd hefði svo mikði sem komið fram og fengið þó þær undirtektir sem raunin varð.

Í lok árs 2010 gerði Evrópusambandið margra milljóna evra samning til þriggja ára við Líbíu um að auka landamæragæslu, uppbyggingu skrifstofu sem hefði það hlutverk að annast málefni flóttamanna, rekstur flóttmannabúða og almennt erftirlit með flóttamönnum.  Áhersla var lögð á að stöðva þannig eða draga úr straumi þeirra flóttamanna sem leggja  upp frá ströndum Líbíu í von um líf í Evrópu. Þegar orðspor Líbíu í mannréttindamálum er haft í huga er gjörsamlega óskiljanlegt að slíkur samningur hafi verið gerður.[3] Ekki kom þó til farmkvæmda samkomulagsins þar sem 17. febrúar byltingin, sem leiddi til falls Gaddafi stjórnarinnar, hófst aðeins nokkrum mánuðum eftir að Mousa Kousa, Štefan Füle og Cecilia Malmström undirrituðu samfkomulagið í Trípólí í október árið 2010. Í átökunum sem Arabíska vorið leiddi af sér reyndi Gaddafi stjórnin að nota neyð flóttafólks sem skiptimynt í ógeðfelldri pólitík og hótaði Evrópu með því að ef leiðtogar álfunnar ekki styddu stjórnvöld gegn uppreisninni myndi straumur flóttafólks til Evrópu aukast en straumur olíur minnka.[4] Ráðamenn í Evrópu létu þó ekki undan þeim þrýstingi.

Fjórum árum síðar, í september 2014  varð samningur af þessu tagi að veruleika þegar Ástralir, sem undanfarin tíu til fimmtán ár hafa rekið grjótharða og miskunnarlausa stefnu í málefnum flóttamanna, gerðu samning við Kambódíu um að reka flóttamannabúðir fyrir hluta þeirra flóttamanna sem koma að ströndum Ástralíu í von um betra líf. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sendi af því tilefni frá sér yfirlýsingu þar sem stofnunin lýsti yfir áhyggjum af samningnum og fordæminu sem hann setur.[5]

Í mars 2016 gerði Evrópusambandið enn á ný afar umdeildan samning um flóttamenn og hælisleitendur, að þessu sinni við Tyrkland sem undan farna mánuði hefur veið gátt flóttamanna inn í Evrópu. Samningurinn kveður á um að  flóttamönnum sem koma ólöglega yfir landamæri Tyrklands inn í Grikkland verði snúði til baka, og fyirr hvern og einn sem snúið er við muni Evrópa taka á móti einum flóttamanni frá Sýrlandi sem dvaldi í Tyrklandi áður en samkomulagið tók gildi, 20. mars. Þeir flóttamenn fái hæli í þriðja landi (reyndar eru fá lönd sem hafa lýst sig reiðubúin til að taka þátt í verkefninu svo vandséð er hvert þetta fólk á að fara).

Með þessu vinnst tvennt: létt er á flóttamannaverkefninu í Tyrklandi og færri eiga möguleika á að koma í hælisleit til Evrópu. Samkvæmt samkomulaginu eiga Tyrkir að sortera frá þá sem ekki falla undir flóttamannasamninginn og snúa þeim til síns heima. Jafnframt felur samningurinn í sér vegabréfsheimild fyrir tyrkneska ríkisborgara að ferðast til Evrópu (sem þýðir til dæmis að kúrdar geta ferðast vandræðalaust til Evrópu og sótt um hæli) sem og aukinn fjárstuðning til verkefna fyrir þann mikla fjölda flóttamanna sem nú dvelur  í Tyrklandi – og til að mæta aukinni umsýslu um hælisumsóknir. Enn komu fram háværar gagnrýnisraddir sem lýstu efasemdum um að samningurinn stæðist kröfur um aðbúnað og umsýslu um málefni flóttafólks, og margir bentu á að vafasamt væri að framkvæmt hans stæðist yfir höfuð þau lög og regluverk sem um málefni flóttafólks fjalla.Stór hluti þeirra flóttamanna sem koma sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklandsa.eru frá Írak og Afganistan, hvað um þá verður er óljóst í samkomulaginu. Almennt eru menn sammála um að þessar hömlur á för fólks muni verða til þess að auka á neyð þeirra, örvæntingarfullt fólk sem hefur engu að tapa mun halda áfram að finna leiðir – þó þær séu lífshættulegar – í von um líf og öryggi fyrir sig og sína. Hætt er við að mannúðarvandinn muni vinda upp á sig. Stór hluti þeirra flóttamanna sem fer þessa leið eru konur og börn sem freista þess að sameinast fjölskyldumeðlimi sem fór á undan til að ryða brautina – gleymum því ekki að um helmingur sýrlenskra flóttamanna eru börn undir 18 ára aldri. Menn óttast að með samkomulaginu milli Evrópusambandsins og Tyrkja munu fleiri deyja á leiðinni en verið hefur, þar sem skásta leiðin lokast.  [6]

Hvaða áhrif þetta mun hafa á stöðu flóttamanna  á enn eftir að koma í ljós, en því miður eru fáar vísbendingar um að breytingar séu fyrisjáanlegar á meðferð og viðhorfum til þeirra sem leita til Vesturlanda í leit að þeirri vernd sem þeim ber samkvæmt flóttamannasamningum.[7] Eftir árásir Al – Kaída í Bandaríkjunum 11. september árið 2001 og nýlegar hryðjuverkaárásir í Evrópu varð umræðan enn fordómafyllri og afdráttarlausari en áður. Það var beinlínis talið lífsspursmál fyrir vesturlönd að halda hælisleitendum og útlendingum í burtu.

[1] Caroline Moorehead (2005): bls, 176.

[2] Langflestir flóttamenn í heiminum hafast við í fátækari löndum heimsins, árið 2013 var áætlað að 86% flóttamanna hefðu leitað skjóls í þróunuarlöndunum, og hafði hlutfallið aukist um 10% frá árinu 2003. Flestir voru flóttamennirnir í Pakistan, um 1.6 milljón. Næst á eftir komu Íran (857.400), Líbanon (856.500), Jórdanía (641.900)og Tyrkland (609,900), þá Kenía (534.900), Chad (435.500), Eþjópía (433.900), Kína (301.00) og loks Bandaríkin (263.600). Rúmur helmginur allra flóttamanna í heiminum, 56%, hafðist við í þessum tíu löndum árið 2013. Sjá nánar: http://www.unhcr.org/5399a14f9.html

[3] http://europa.eu/rapid/press-release_MEMO-10-472_en.htm?locale=en og   http://www.theguardian.com/commentisfree/2010/oct/20/eu-refugee-libya-gaddafi

[4] Sjá til dæmis umfjöllun í kaflanum Arabíska vorið í: (Anna Lára Steindal, ásamt Ibrahem Faraj, 2015): Undir fíkjutré – saga af trú, von og kærleika. (Sögur, Reykjavík).

[5] Sjá: http://www.unhcr.org/542526db9.html

[6] Sjá t.d.: http://www.migrationpolicy.org/news/paradox-eu-turkey-refugee-deal

[7] Í júlí 2013 höfðu 145 lönd af um tvöhundruð löndum í heiminum gerst aðilar að samningnum.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Upphaf og forsendur flóttamannamála: V. Hluti

Víggirðing Evrópu.

Árið 1999 var farið að leggja línurnar fyrir sameiginlega stefnu Evrópu í málefnum hælisleitenda og um leið hófst uppbygging þess sem kallað hefur verið víggirðing álfunnar.[1] Um leið varð miklum mun erfiðara fyrir fólk á flótta undan átökum eða ofsóknum að komast löglega til Evrópu og fleiri leituðu á náðir smyglhringja og komu ólöglega. Um leið voru hælisleitendur stimplaðir sem lögbrjótar og glæpahyski sem braust óvelkomið og ólöglega til Evrópu. Varðhaldsbúðir tóku að byggjast upp í Evrópu, einskismannslönd í stíl við flóttamannabúðirnar sem sumar er í raun fangelsi því hælisleitendum er ekki heimilt að yfirgefa búðirnar. Með þessu móti er reynt að koma í veg fyrir að hælisleitendur hverfi niður á botn samfélagsins og hefji líf sem ólöglegir innflytjandur, ósýnilegir og réttindalausir. Eftir því sem regluverkið verður strangara, því fleiri telja sig ekki eiga annara kosta völ en hverfa inn í Evrópu á þann hátt. Sá sem er ólöglegur er samkvæmt skilgreiningu brotamaður, óvelkominn, sem geriri líf viðkomandi enn erfiðara á nýjum stað. Því fleiri sem hverfa ólöglega inn í samfélög Vesturlanda, því meira kapp leggja stjórnvöld á að herða eftirlit og regluverkið í kringum hælisleitendur og vandinn hefur undið upp á sig undanfarin ár. Þetta er vítahringur sem sífellt þrengist,  vandinn sem hann elur af sér getur aðeins endað með skelfingu ef ekkert verður að gert.

Ein afleiðing þessa er sú að stöðugt hefur þeim flóttamönnum fjölgað sem freista þess að koma sjóleiðina, ólöglega til Evrópu. Ítalía og Grikkland  hafa borið hitann og þungann af móttöku og eftirliti með komu þessa fólks, enda ná flestir strönd eða drukkna í hafi undan ströndum Ítalíu eða Grikklands. Á undanförnum árum hefur fjöldi þeirra sem drukkna á leiðinni margfaldast, einsog ítrekað hefur verið fjallað um í fréttum, og er áætlað að meira en tíu þúsund manns hafi drukknað í Miðjarðarhafinu undan farin þrjú ár, þrátt fyrir umfangsmeiri strandgæslu en verið hafði. Athygli Evrópu og heimsins alls beindist að þessu vandamáli í október árið 2013, en þá hvolfdi bát undan ströndum eyjunnar Lampedusa með þeim afleiðingum að þrjúhundruð sextíu og sex manns fórust.[2] Í kjölfarið efndu ítalir til átaks í strandgæslu og eftirliti á Miðjarðarhafi, verkefnið var kallað Mare Nostrum sem er latneska heiti Miðjarðarhafsins. Átakið skilaði góðum árangri en var mjög dýrt í framkvæmd. Á einu ári var meira um hundrað og fimmtíu þúsund flóttamönnum bjargað á hafi. En vegna kostnaðar var verkefninu hætt í október árið 2014. Um ári eftir að það hófst. Evrópusambandið tók þá við eftirlitinu og um leið var mjög dregið úr því.[3] Bretar  höfnuðu þátttöku í verkefninu, sögðust ekki styðja skipulagða leitar- og björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi þar sem slíkt hefði hvetjandi áhrif á flóttafólk til þess að leggja vanbúið til atlögu við hafið sem skilur að óttann við eymd og dauða í heimalandinu og voninan um líf og tækifæri í Evrópu. Í febrúar 2015 hvolfdi þremur bátum bátum og meira en þrjúhundruð fórust. Í apríl varð enn mannskæðara slys þegar um þúsund manns fórust. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2015 er áætlað að um 1700 manns hafi drukknað í draumnum um betra líf. Fjölmiðlar, mannúðar- og mannréttindasamtök fjölluðu ítrekað um málið og í lok apríl komu ráðamenn í Evrópu loksins saman til þess að ræða um viðbrögð við vandanum og sett var saman tíu liða aðgerðaráætlun til að bæta aðstæður flóttafólks. Ekki náðist samstaða um áætlunina og hún liðaðist í sundur. En fólk hélt áfram að koma og deyja. Í september 2015 fór myndin af  Alyan litla Kurdi, þriggja ára dreng sem drukknaði á leiðinni frá Tyrklandi til Grikklands ásamt móður sinni og bróður einsog eldur í sinu um samfélags- og fréttamiðla heimsins.Alyan varð um stund táknmynd þess gríðarlega mannúðarvanda sem aðstæður flóttafólks eru. En áður en yfir lauk lægði reiðiöldurnar, samúðarbylgjan hneig og aðstæður flóttafólks breyttust lítið. Þvert á móti hafa átök um málefni flóttafólks aukist og sömuleiðis harðlínustefna við verndun landamæra og aðgerðir til að halda flóttafólki frá Evrópu.

Eftir því sem fleiri drukkna í hafi hefur umræða um málefni flóttamanna þó orðið háværarir.  Flóttamannastofnun  og ýmis félagsamtök sem berjast fyrir mannréttindum og mannvirðingu hafa bent á að berskjaldað fólk á flótta er fórnarlömb, en ekki glæpamenn, og því ber að veita vernd og liðsinni í samræmi við alþjóðasamninga. En rödd Flóttamannastofnunarinnar og talsmanna flóttamanna er varla orðin annað lágt muldur. Fjárframlög  stofnunarinnar höfðu verið skorin verulega niður og hún var því illa í sveit sett til að takast á við þann gríðarlega flóttamannavanda sem braust út árið 2015. Þeir sem þó styðja enn fjárhagslega við starf hennar leggja áherslu á hjálparstarf meðal flóttamanna þar sem þeir eru staddir en vilja síður taka þátt í verkefnum sem miða að því að bjóða fólki að setjast að í Evrópu eða auðvelda þeim ferðalagið þangað. Vandinn er bara sá að allar bjargir þar sem flóttamenn hafa leitað fyrstu griða eru uppurnar – fjöldinn er of mikill til að nágrannalöndin ráði við hann.

Þannig hafa viðbrögðin verið við vanda þeirra 60 milljón flóttamanna sem nú er talið að  hrekist um í leit að öryggi og skjóli. Áhersla er lögð á að styðja stofnanir og félagasamtök sem vinna með flóttafólki í nágrannlöndum stríðshrjáðra svæða sem fólk er að flýja – löndum sem eru löngu komin að þanmörkum og geta ekki sinnt verkefninu í samræmi við kröfur mannréttindasamninga og almennar kröfur um velferð og mannvirðingu. Svíþjóð og Þýskaland eru undantekning frá þessari reglu, en bæði löndin hafa lagt áherslu á ábyrgð Evrópu og mikilvægi þess að standa undir henni. Önnur lönd hafa þó ekki svarað kalli í nógu ríkum mæli, og nú er svo komið að ágreiningur milli Evrópulanda vegna flóttamannamála hefur vaxið. Á meðan Evrópa tekst á um verkefnið sitja milljónir manna fastar í svartholi flóttamanna- og varðhaldsbúða víðs vegar um heiminn, stundum á jaðri samfélaga í Evrópu þar sem aðstæður er skelfilegar. Þar situr fólk fast, án samfélags og tækfifæra.

[1] Fortress Europe á ensku.

[2] Í lok september 2014 gaf Amensty International út skýrslu um aðstæður flóttamanna sem freista þess að komast yfir Miðjarðarhafið, eftirlit, aðbúnað og möguleika. Í skýrslunni kemur fram hörð gagnrýni á Evrópusambandið og stranga löggjöf í málefnum hælisleitenda og tregðu sambandsins til þess að taka á flóttamannavandanum sem fer stögugt vaxandi, án þess að Evrópa taki ábyrgð. Í skýrslunni er hvatt til þess að flóttamönnum verði gert auvðeldara að koma löglega til Evrópu, til dæmis í gegnum fjölskyldusameiningu, ð breytingar verði gerðar á Dyflinarreglugerðinni svo fólk geti sótt um hæli þar sem það kýs og fjöldi þeirra sem fá tækifæri sem kvótaflóttamenn í Evróp aukinn. Sjá nánar: http://www.amnesty.org/en/library/info/EUR05/006/2014/en

UNHCR lagði fram sambærilega kröfu, en skýrsla Amensty fór hærra. Sjá t.d: http://www.unhcr.org/542d12de9.htm l

[3] Sjá t.d. umfjöllun á ruv frá 14. Febrúar 2015: http://www.ruv.is/frett/enn-streymir-flottafolk-fra-afriku

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Upphaf og forsendur flóttamannamála – IV. Hluti

Vítahringur verður til

Þegar Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna var stofnsett árið 1951 leyfðu menn sér enn að vona að flóttamannavandinn væri tímabundinn. Þeir vonuðust til þess að fljótlega kæmi að því að vandinn yrði leystur og leggja mætti stofnunina niður. Flóttamannstofnununin varð því að endurnýja umboð sitt reglulega allt til ársins 2003 þegar Alsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti að stofnunin skyldi hafa ótímabundið umboð þar til flóttamannavandinn væri úr sögunni. Það mun að líkindum ekki verða á næstu áratugum.
Ein afleiðing þessara aðstæðna sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna starfaði við lengst af, og að nokkru leyti enn þann dag i dag, var að forsvarsmenn stofnunarinnar voru á hverjum tíma háðir veljvilja þeirra sem höfðu vald yfir tilvist hennar og fjárframlög til reksturins eru ekki tryggð eða í föstum skorðum. Vald stofnunarinnar er því takmarkað og miklu minna en margir gera sér grein fyrir.
Skilgreining á hugtakinu flóttamaður er mjög þröng samkvæmt flóttamannasamningnum, en samkvæmt 1. grein hans getur sá einn talist flóttamaður sem sætir ofsóknum á grundvelli kynþáttar, uppruna, trúar, lífs- og/eða stjórnmálaskoðana. Hugtakið hælisleitandi er notað yfir þá sem hrekjast á vergang og leita skjóls undan ofsóknum, en hælisleitandi breytist í flóttamann þegar honum er veitt hæli í einhverju ríki á grundvelli samningsins og landslaga sem sett hafa verið til að framfylgja honum. Þar með hefur staða viðkomandi sem flóttamaður verið viðurkennd. Segja má að þegjandi samkomulag hafi í upphafi verið um að líta svo að þeir sem ofsæktu flóttamenn væru iðulega stjórnvöld í alræðisríkjum kommúnismans. „Flóttamenn“ og „hælisleitendur“ voru því samkvæmt skilgreiningu „góðir“ – vinir vesturlanda og mikilvægir þátttakendur í pólitíkinni og þeim hugmyndafræðilegu átökum sem einkenndu kalda stríðið.
Málefni flóttamanna- og hælisleitanda hafa því frá upphafi fyrst og fremst verið pólitískt viðfangsefni, ekki siðferðilegt. Það sést vel á því að þegar verið var að sníða flóttamannastofnuninni stakk var tekin ákvörðun um að undanskilja málefni tæplega 460.000 Palestínu Araba sem höfðu hrakist á flótta eftir stofnun Ísraelsríkis árið 1948, og vinna að þeirra málum sérstaklega. Enn þann dag í dag hefur ekki verið fundin varanleg lausn á vanda þess hóps þrátt fyrir að sérstök stofnun, Flóttamannahjálp Palestínumanna hafi starfað frá árinu 1950. Pólitíkin sem skapaði vanda þessa fólks vegur þyngra en mannréttindi einstaklinganna sem eru leiksoppar hennar. Við stofnun flóttamannastofnunarinnar var einnig ákveðið að horfa ekki til þeirra sem voru á vergangi innan eigin landamæra og þar með var meirihluta flóttamanna útilokaður frá aljóðlegri vernd strax frá upphafi. Ástæðan var sú sama og áður takmarkaði störf Þjóðarbandalagsins þegar kom að málefnum Gyðinga í Þýskalandi, meðferð fólks innan landamæra var innanríkismál og ekki talið ásættanlegt að aljóðasamfélagið hlutaðist til þar um. Mannréttindi og vernd flóttafólks voru því mjög takmörkuð (þá sem nú) og að verulegu leyti háð pólitískum duttlungum. Ekki mátti ógna sjálfræði og sjálfdæmi einstakra ríkja með afskiptum af meðferð borgaranna eða öðrum mannréttindamálum innan landamæra þeirra. Það var ekki fyrr en árið 1992 að Boutros Boutros-Ghali, þáverandai aðalritari Sameinuðu þjóðanna, kvað upp úr með að tími óskoraðs sjálfræðis hvað varðar meðferð fólks innan landamæra þeirra væri liðinn og inngrip og aðgerðir gegn kúgun og harðstjórn einstakra ríkja í garð borgaranna væru orðin nauðsynlegur hluti alþjóðastjórnmála. Þá fyrst var farið að líta svo á að í einhverjum mæli ættu aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að fólk lenti á vergangi rétt á sér. Þá gat Flóttamannastofnun farið að tala opinskár og af örlítið meiri krafti, þó það væri enn verulegum takmörkunum háð. Því miður hefur krafa stofnununarinnar og annarra málsvara flóttamanna í heiminum um siðferðilega ábyrgð ríkja heimsins oftast hljómað fyrir daufum eyrum.
Af þessu stutta yfirliti má sjá að unnið hefur verið að málefnum flóttamanna fyrst og fremst á pólitískum forsendum alla tíð, þó að umræðan hafi á köflum verið klædd í þann sparibúning sem orðræða algildra mannréttinda ljær henni. Flóttamannastofnunin hóf störf í Genf árið 1951 með lítil fjárráð, fátt starfsfólk og næstum engin völd til að framfylgja flóttamannasamningnum enda er það svo að allt frá samþykkt samningsins hafa þau 145 ríki heims sem aðild eiga að samningum komist upp með að þverbrjóta hann ítrekað án afleiðinga.
Á þeim rúmlega sextíu árum sem liðin eru frá stofnun hennar hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gengið í gegnum hæðir og lægðir, einsog gengur. Tvisvar hefur stofnunin fengið friðarverðlaun Nóbels, fyrst árið 1954 og aftur árið 1981. En ekki hefur tekist að leysa flóttamannavandann einsog menn létu sig dreyma um í upphafi. Þvert á móti hefur vandinn vaxið og undið upp á sig og miðað við aðstæður í heiminum í dag og ríkjandi viðhorf í garð flóttamanna og hælisleitenda er lítil von til þess að vandinn verði leystur í bráð. Þvert á móti knýr hann á af sífellt meiri þunga og aldrei hefur verið ríkari þörf á því að innleiða mannúðlegar stefnur sem virka þegar á reynir. Þetta skiptir ekki bara máli fyrir berskjaldaða einstaklinga í þörf fyrir alþjóðlega vernd heldur einnig fyrir lausn þeirra átaka sem hafa stigmagnast innan samfélaga vesturlanda eftir því sem harðlínustefna í málefnum flóttamanna og innflytjenda hefur orðið grímulausari.
Árið 1989 markaði þáttaskil í alþjóðastjórnmálum með falli Berlínarmúrsins og um leið endalokum kalda stríðsins. Þar með breyttust viðmið í alþjóðastjórnmálum sem áður höfðu í grófum dráttum skipt heiminum í þrennt; fyrsta heiminn (vesturlönd), annan heiminn (Sovétríkin og fylgiríki þeirra) og þriðja heiminn (hin svo kölluðu þróunarlönd). Framan af voru flóttamenn einsog áður segir einkum einstaklingar á flótta undan alræðisskipulagi Sovétríkjanna sálugu, og voru þeir yfirleitt aufúsugestir á vesturlöndum. En þegar leið að lokum 20. aldarinnar breyttist þetta hratt. Átkalínur í heiminum færðust til og fólk utan Evrópu, einkum frá þriðja heiminum – Asíu, Afríku og Mið Austurlöndum, tók að berja á dyr Evrópu og Norður Ameríku í leit að þeirri alþjóðlegu vernd sem Flóttamannasamnigi Sameinuðu Þjóðanna var ætlað að tryggja. Um svipað leyti hófst saga fjölmenningar í Evrópu þegar innflytjendur, meðal annars frá gömlu nýlendum vesturlanda, fóru að setjast að í álfunni og taka þátt í uppbyggingarstarfi eftir stríðið. Því vinnuafli var ágætlega tekið í blábyrjun enda vantaði vinnufúsar hendur til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem blöstu við. En um leið og ljóst var að innflytjendur og flóttamenn voru komnir til að vera, til að setjast að til frambúðar í samfélögum Evrópu en ekki aðeins til tímabundinnar dvalar eða starfa þar meðan vesturlönd þurftu á þeim að halda, tóku viðhorfin að breytast hratt. Í kjölfar olíukreppunnar upp úr 1970 fór virkilega að síga á ógæfu hliðina og í dag er þetta eitthvert mest knýjandi úrlausnarefni sem blasir við í evrópskum samfélögum og stjórnmálum.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði, einsog áður segir takmörkuð völd til að vinna að málefnum flóttamanna, og eftir því sem leið á 20. öldina varð krafa ráðamanna í Evrópu um að stofnunin skyldi fyrst og síðast beita sér fyrir hjálparstarfi sem hefði það að markmiði að stöðva straum flóttafólks til Evrópu sífellt háværari. Um leið tóku að byggjast upp flóttamannabúðir á jaðri samfélagsins í löndum þar sem átök og erfiðleikar voru daglegt brauð. Staðir sem eru handan veraldarinnar, ef svo má segja. Biðstaður þar sem fólk bíður þess að geta tekið þátt í lífinu einsog við flest þekkjum það á ný. Flóttamannabúðirnar eru einsog gat í heiminum, svarthol sem sogar til sín fórnarlömb átaka og hörmunga sem uppfrá því eiga sér engan raunverulegan samastað í tilverunni þar sem þau geta gert áform um líf sitt og drauma og tekið þátt í innhaldsríku samfélagi. Sumir bíða alla sína ævi og njóa þess atldrei að vera fullir þátttakendur í lífinu. Manneskjur fæðast og deyja í þessu einskismannslandi. Þessar ömurlegu aðstæður sem milljónir manna búa við gera það að verkum að þeir sem geta eru oft tilbúnir til að fórna öllu sem þeir eiga, þar á meðal lífinu sjálfu, til þess að komast til Vesturlanda þar sem þeir vonast eftir því að fá að njóta sín sem manneskjur og raunverulegir þátttakendur í lífinu. Og eftir því sem samgöngur bötnuðu fór fólk að ferðast um lengri veg í leit að lífi og öryggi. Hælisleitendum, sem fyrst í stað voru einkum listamenn og hugsuðir frá Sovétríkjunum sem nutu vinsælda og aðdáunar, fjölgaði og urðu meira framandi og alls ekki jafn spennandi viðbót við mannlífið og þeir sem fyrstir komu. Fólk sem er alið upp svartholum flóttamannabúðanna og hefur jafnvel aldrei lært að lifa í raunverulegu samfélagi, fólk sem er markað af átökum, hörmungum og dauða, hefur lítið að bjóða móttöku samfélaginu í upphafi og glímir við fjölþætt vandamál sem tekur tíma að vinna sig út úr. Þessir nýju flóttamenn nutu því sífellt minni vinsælda og á endanum fóru þeir að mæta opinskárri andúð.
Á 8. og 9. áratugnum réði skriffinskukerfi Evrópu sæmliega við verkefnið sem fólst í umsýslu með málefnum flóttamanna og hælisleitenda, enda fæstir flóttamenn heimsins í Evrópu þá sem nú. En þegar mikil og að nokkru leyti ófyrirséð fjölgun varð þegar kom fram undir aldamót hrundi kerfið með braki og brestum. Um leið og álagið jókst fóru efasemdir að vaxa um að þeir einstaklingar sem til Evrópu leituðu í hælisleit ættu réttmætt tilkall til stöðu flóttamanns í skilningi flóttamannasamningsins og viðhorf til hælisleitenda og flóttamanna breyttust mjög. Hælisleitendur sem áður voru gjarnan taldir listtamenn og fulltrúar tjáningafrelsis voru nú álitnir spunameistarar og lygarar sem voru komnir í þeim erindum að nýta sér kerfi Evrópu til að búa sér betra líf á fölskum forsendum. Þrátt fyrir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauði krossinn og fleiri málsvarar flóttamanna og hælisleitenda hafi talað máli þeirra og beitt sér fyrir mannúðlegri stefnumótun og meðferð kom allt fyrir ekki. Vesturlönd brugðust almennt við þessu breytta landslagi með því að efla landamæragæslu og semja sífellt strangara regluverk um komu flóttamanna og innflytjenda utan Evrópu. Samhliða mögnuðust átök innan samfélaga í Evrópu með þeim afleiðingum að málefni flóttamanna og innflytjenda þokuðust æ ofar á dagsrká stjórnmála í álfunni og átök um málefnið færðust í aukana.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Upphaf og forsendur flóttamannamála – III: Hluti

Flóttamannastofnun og flóttmannasamningurinn

Vandi flóttamannanna hvarf auðvitað ekki þótt heimurinn reyndi að loka augunum fyrir honum um stund. Þegar kom fram á árið 1951 hafði vandinn þvert á móti vaxið; stríð, hungursneyðir, átök og ofbeldi hafði hrakið enn fleiri á flótta út fyrir eigin landamæri. Upprunaland flóttafólks var ekki lengur bundið við Evrópu. Átökin um stofnun Ísraelsríkis í Palestínu höfðu orðið þess valdandi að Palestínu Arabar hröktust þúsundum saman á flótta. Kóreustríðið[1] hófst sumarið 1950 og fólki á flótta undan óbærilegum lífsaðstæðum og átökum fjölgaði stöðugt. Ljóst var að flóttamannavandinn fór frekar vaxandi en minnkandi og bregðast þurfti við með einum eða öðrum hætti.

Við þessar aðstæður fór alþjóðasamfélagið að ræða möguleikann á því að byggja upp nýja stofnun undir hatti Sameinuðu þjóðanna – Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, til þess að bregðast við vanda flóttamanna. Einnig var rætt um  mikilvægi þess að semja sérstakan samning eða regluverk sem fjallaði um stöðu þeirra og skyldur ríkja gagnvart þeim á  grundvelli 14. greinar mannréttindayfirlýsingar Semeinuðu þjóðanna sem kveður á um rétt manna til að leita og njóta griðlands. Niðurstöður umræðunnar birtust í Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem var saminn á rétt rúmum sex vikum á fundum tuttugu og sex ríkja sem hittust til skiptis í Genf og Washington. Flóttamannasamningurinn endurspeglaði aðstæðurnar sem blöstu við í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari og tekur mið af pólitískum hagsmunum sigurvegaranna. Lönd austur Evrópu neituðu að senda fulltrúa á fundinn, enda þeirra sjónarmið að flóttamennirnir sem eftir urðu í flóttamannabúðum í Evrópu eftir stríðið væru svikarar og landráðamenn og því tæplega rétt nefndir flóttamenn. Bandaríkin, sem töldu sig hafa eytt nógu miklu fé í flóttamenn í Evrópu, lögðu áherslu á að flóttamannasamningurinn og stofnunin sem færi með málefni flóttamanna, myndi einvörðungu beita sér fyrir vernd, ekki lausnum, og ekki vera fjárfrek. Bretar, sem í þá daga höfðu tekið á móti fáum flóttamönnum, lögðu til að hvert og eitt ríki bæri fjárhagslega ábyrgð á þeim flóttamönnum sem dveldust innan landamæra þeirra. Frakkar, sem höfðu stóran hóp flóttamanna innan sinna landamæra andmæltu þessu og vildu að byrðinni yrði deilt milli þeirra ríkja sem tóku þátt í verkefninu. Þýskaland, Austurríki og Ítalía, sem hvert um sig hafði innan sinna landamæra mjög stóran hóp flóttamanna sem enn beið úrlausna sinna mála í flóttamannabúðum, höfðu ekki rödd við samningaborðið.[2]

Því má segja að strax í upphafi hafi sá farvegur verið markaður sem umræðan um málefni flóttamanna hefur alla tíð verið í; enginn vill taka ábyrgð og vandanum er ýtt að þeim sem eiga ekki annarra kosta völ en takast á við hann jafnvel þótt bjargirnar séu litlar eða engar.

Louis Henkin var ungur lögfræðingur í innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og tók þátt í vinnunni við að semja Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem er grunnur Flóttamannasamningsins einsog margra annarra mannréttindasamninga. Að hans sögn fór mestur tími í að rökræða hugtakið flóttamaður og skilgreina hver teldist flóttamaður og hvers vegna. Einnig var rætt hvort samningurinn ætti að kveða á um „rétt til  að njóta griðlands“ eða aðeins „rétt til að leita griðlands.“[3] Á endanum voru bæði orðin felld inn í samninginn og 14. grein yfirlýsingarinnar, sem áður hefur verið vitnað til, hljóðar svona: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“  Það voru Frakkar, minnugir þess hvernig Evrópa hafði gjörsamlega brugðist Gyðingum sem leituðu griða undan ofsóknum nasista, sem höfðu forgöngu um að 33. greinin yrði felld inn í flóttamannasamninginn, en hún bannar brottvísun flóttamanna til landa þar sem þeirra bíða osfóknir.[4] Sú grein reynist oft eina líflína þeirra sem leita hælis í Evrópu undan ofsóknum. Of oft reynist þó lítið hald í þessari líflínu vegna þess að þrátt fyrir að litið sé á mál hvers einstakling sem leitar hælis sem einstakt er almennum mælikvörðum of oft slegið á sögu hans og ekki tekið tillit til þess að þó ástand sé almennt þannig innan landamæra upprunalandsins að almenningur njóti ásættanlegs öryggis geta einstaklingar sætt ofsóknum og búið við lífshættulegar aðstæður.  Þetta getur reynst afdrifaríkt fyri reinstaklinga í hælisleit.  Ef þeir sem fjalla um mál hælisleitenda nálgast sögur þeirra sem óska eftir vernd á of einfölduðum, pólitíksum forsendum eða hafa ekki innsýn í aðstæður í upprunalandinu er hættan sú að „glæpnum“ verði snúið upp á fórnarlambið, ef svo má segja.

Nokkur ríki heims gefa út lista um svo kölluð örugg lönd sem notaður er til viðmiðunar þegar hælisumsóknir eru metnar. Þeir sem koma frá þessum svokölluðu öruggu löndum fá iðulega flýtimeðferð og yfirleitt er umsókn þeirra ekki tekin til efnislegrar meðferðar heldur þeim vísað úr landi innan 48 klukkustunda. Í útlendingalögum á Íslandi er heimild til að styðjast við slíkan lista og hefur hún verið nýtt, einsog sjá má í Ársskýrslu útlendingastofnunar 2013 þar sem veruleg fækkun mála sem tekin voru til efnismeðferðar er útskýrð með þessum hætti.[5]

Flóttamannasamngingur Sameinuðu þjóðanna hefur lítið sem ekkert breyst síðan hann var saminn og samþykktur árið 1951 að öðru leyti en því að gildissvið hans hefur verið rýmkað í tíma og rúmi. Árið 1967 var samþykktur viðauki við samninginn sem felldi úr gildi takmarkanir sem gerðu það að verkum að þeir einir töldustu flóttamenn, í skilningi samningsins, sem lent höfðu á flótta í Evrópu fyrir 1. Janúar árið 1951. Með viðaukanum falla allir flóttamenn á öllum tímum undir samninginn, svo framarlega sem þeir hafa farið yfir landamæri upprunalands síns.

[1] Kórestríðið er oft talið marka upphaf vopnaðara átaka í kalda stríðinu.

[2] Caroline Moorehead (2005): bls, 37.

[3] Sama rit, bls, 37.

[4] Sama rit, bls, 37.

[5] Sbr. 3. mgr. 50. gr. d útl. Orðrétt segir: Í málum þeim sem greinir í b-lið 1. mgr. er Útlendingastofnun heimilt að styðjast við lista yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki. Með öruggu upprunaríki er átt við ríki þar sem einstaklingar eiga almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða verða fyrir alvarlegum mannréttindabrotum. Útlendingastofnun er skylt að halda með skipulegum hætti utan um slíkan lista. Skal hann uppfærður reglulega og birtur á vef Útlendingastofnunar.

Hér má sjá skýrslu Útlendingastofnunar 2013: : http://utl.is/files/Ymislegt/rsskrsla_2013.pdf

Posted in Uncategorized | Leave a comment