Fjórar lexíur um Íslam í Evrópu

Í gær var ég að velta því fyrir mér hvort Íslendingar væri naívir í umræðunni um Íslam á Íslandi og hélt því fram að til þess að einhver skynsemi væri í umræðunni þyrfti að hafa meðalhófsreglu Akristótelesar í huga – feta hófstilltan meðalveg milli tveggja öfga sem annars vegar gera ráð fyrir því að umræða um vanda Íslam sé árás á alla múslima og hins vegar að allir múslimar aðhyllist öfgafull trúarbrögð sem séu hættuleg samtímanum.

Í kjölfarið lenti ég áhugaverðum umræðum um styrkveitngar til múslima á Íslandi frá Sádí Arabíu. Meðal annars var mér bent á skýrslu frá Evrópu þinginu um hlut Sádí Arabíu í fjármögnun hryðjuverkahópa og öfgasamtaka víðsvegar um heiminn. Sem fékk mig til að hugsa um skýringu Khaled Abu El Fadl um hlut Sádí Arabíu við útbreiðslu wahabisma sem (samkvæmt El Fadl) á stóran hlut í þeim átökum sem íslam í samtímanum hefur ratað í  – um þetta fjallar hann í bókinn: The great theft – wrestiling islam from the extremists.

Nú fer því fjarri að ég sé aðdáandi Sádí Arabíu. Víðsfjarri! Ég held samt að umræðan um fjárframlög frá Sádunum til múslima á Íslandi – og fjárframlög af þessu tagi almennt – þurfi að hlýta sömu meðalhófsreglu og annað í umræðunni um Íslam á Íslandi. Að mínum dómi getur það reynst mjög svo afdrifaríkt ef við sláum of einföldum eða afdráttarlausum mælikvörðum á þá umræðu.

Fyrir fáum vikum skrifaði ég grein í Kjarnann sem fjallaði um adraganda styrkveitingar Sádanna til Íslands og þær deilur sem spunnust í kjölfarið. Hana má lesa hér: http://kjarninn.is/skyring/2016-03-10-islam-islandi/

Við vinnslu þessarar skýringar uppgötvaði ég ýmislegt sem getur hjálpað til við að feta meðalhófið þegar umræða og verkefni tengd Íslam á Íslandi eru til umræðu.

Í fyrsta lagi: Þrátt fyrir að Sádí Arabía eigi sér sögu um að styðja öfgamenn og hryðjuverkahópa víðs vegar um heiminn virðst svo vera að þegar kemur að því að styðja hópa á borð við Stofnun múslima á Íslandi eða The Scaninavian Islamic foundation í Svíþjóð –  sem sækja um styrk en fá ekki úthlutað fjármagni að frumkvæði Sádanna – sé skýrum verklagsreglum um móttöku slíks fjármangs fylgt. Meðal annars er krafist skriflegs samþykkis móttökulands fyrir fjárveitingunni. Þetta er, eftir því sem ég kemst næst, gert í tilraun til að koma í veg fyrir að samtök sem starfa á óæskilegum forsendum að mati móttökuríkis fái fjármagn til yfirráða. Í samtali við sendiráð Sádí Arabíu í Stokkhólmi kom fram að Sádarnir vilja með þessum hætti leggja sitt að mörkum til að stuðla að góðum samskiptum við viðkomandi land og vinna ekki gegn hagsmunum þess. Ísland og Svíþjóð hafa hins vegar ekki neinar reglur eða virkt eftirlit með hópum sem þiggja fjármagnið. Sem ég skrifa þetta rifjast upp fyrir mér staðhæfing Maajid Nawas, fyrrum meðlims í öfgasamtökunum Hizub Tharir sem sneri blaðinu við og berst nú af einurð gegn öfgaíslam og öfgahægrinu, að Danmörk væri himnaríki fyrir öfgamenn því danir væru svo lige glad og hefðu ekkert eftirlit með starfsemi íslamista í landinu (hann lét þessi orð falla fyrir um áratug eða svo).

Sumsé: Jú, Sádí Arabía hefur styrkt hópa sem eru skilgreindir sem öfga- og hryðjverkahópar. En þegar félög – t.d. á Íslandi – eru studd er leitast við að gera það í samvinnu við stjórnvöld.

Í öðru lagi: Ein af grunnstoðum Íslam er að gefa til góðgerðarmála sem þýðir að það er gríðarlegt fjármagn í umferð – ekki síst í olíuríkjunum við Persaflóa. Í samtölum við heimildarmenn í Svíþjóð kom fram að þar í landi hefur þróast það sem lýst var sem „mafíustarfsemi“ í kringum að streyma fjármagni úr góðgerðarsjóðum t.d. í Mið Austurlöndum (Sádí Arabía og Katar voru oftanst nefnd í þessu samhengi) til félaga í Svíþjóð sem oft eru varla annað en tálsýn – reka umfangsmikil verkefni á samfélagsmiðlum sem eru svo bara sápukúla þegar betur er að gáð. Fjármagnið nýtist í ríkum mæli til persóunlegra nota – þeir sem stýra félögunum sem það rennur til öðlast peninga, völd og áhrif til að halda áfram að ota sínum tota. Þessu fylgja svo gjarnan átök milli hópa – oft hatrömm. Af þessu hafa margir múslimar sem leggja áherslu á farsæla aðlögun, samtöðu og samhug áhyggjur. Og segja að orðspor múslima beri mikinn skaða af. Gjafaríkin deila þessum áhyggjum (þó með eigin hagsmuni í huga) og hafa því regluverk í kringum peningasendingarnar.

Til að fyrirbyggja misskilning vil ég halda því til haga að meirihluti múslima er vel meinandi og misnotar ekki þessa aðstöðu – en fáir geta skemmt fyrir mörgum. Og þeir sem misnota aðstöðuna eru ekki endilega íslamistar eða öfgamenn sem eru að plana hryðjuverk. Nokkrum aðilum sem falla í þennan flokk var lýst fyrir mér sem algjörlega prinsipplausum – þeir eru það sem þeir þurfa að vera á hverjum tíma. Sem er ekkert skárra ……

Í þriðja lagi: Nokkrir viðmælendur mínir útskýrðu fyrir mér að jafnvel þó svo að allt sé í lukkunnar velstandi með þau verkefni sem fjármagn fæst til – þá haldi þeir sem afla fjármagnsins um það bil 20% eftir í einskonar umboðslaun. Það er því mikils að vinna að streyma sem mestu til þess félags sem þú ert í forsvari fyrir ….. sem minnkar líkurnar á samstarfi um þau verkefni sam blasa við – sem getur svo aftur á móti ýtt undir sundrungu. Af þessu hafa margir  múslimar sem ég hef talað við áhyggjur og velta því fyrir sér hvort hægt sé að búa til einhverskonar kerfi í móttökulandinu – t.d. Íslandi –  sem vinnur gegn þessu og stuðlar að einingu..

Í fjórða lagi: Því ítarlegar sem ég kynni mér dýnamíkina í múslimasamfélaginu t.d. í Svíþjóð, og samspili slíkra samfélaga við Mið Austurlönd – því betur átta ég mig á þeirri miklu vinnu sem fram fer víða í þessum löndum til að sporna gegn öfgavæðingu og hryðjuverkum – heima og líka í múslamdíapsorunni í Evrópu. Þó alskonar tvískinningur og pólitísk hræsni sé í spilinu (og þetta gildir ekki bara um þennan heimshluta, hreint ekki) þá er verið að vinna í þessu og reyna að koma í veg fyrir frekari þróun í þessa átt.

Niðurstaða: Til þess að varðveita stöðugleika og samheldni í múslimasamfélaginu á Íslandi og almennt þarf að koma til samstarf og markviss vinna til þess að byggja upp, efla og viðhalda trausti, samvinnu, skilningi og innsýn.

Það er kannski erfitt að snúa við þeirri þróun sem er komin allt of vel á veg í Evrópu – en í pínulitlu og ungu múslimasamfélagi á Íslandi ætti það að vera gerlegt – ef vilji er til þess.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

2 Responses to Fjórar lexíur um Íslam í Evrópu

  1. nannakata says:

    Sæl, takk fyrir mjög góða og hlutlausa grein. Ekki veitir af í umræðunni.

    Þú skrifar “Það er kannski erfitt að snúa við þeirri þróun sem er komin allt of vel á veg í Evrópu – en í pínulitlu og ungu múslimasamfélagi á Íslandi ætti það að vera gerlegt – ef vilji er til þess.”

    Hvaða þróunn áttu við?

    • steindal2014 says:

      Sæl – afsakðu hvað ég svara seint en þetta komment fór fram hjá mér. Sú þróun sem ég á við er að þar sem ekki var hugað að GAGNnvkæmri aðlögun eða unnið með fjölbreytileikann hefur orðið til ný stéttskipting sums staðar í Evrópu sem grundvallast á uppruna, þar sem innflytjendur sem búa við skert tækifæri til þátttöku í samfélagi mynda að minnihlutahóp, sem á undir högg að sækja, á jaðrinum. Vaxandi spennu og gagnkvæmrar andúðar gætir í auknum mæli milli hópa, að minnsta kosti sums staðar, með á köflum hörmulegum afleiðingum. Þessi þróun hefur ekki fest sig í sessi á Íslandi, og með réttum aðferðum má lágmarka mjög líkurnar til þess að svo verði.

Leave a comment