“Hugtökin búa í hjarta okkar” Um Pál Skúlason og Þorstein Gylfason – mennina sem breyttu líf mínu

Fyrir helgi fékk ég nýjasta  Hug – tímarit um heimspeki  í hendurnar og hef verið að gæða mér á innihaldi hans um helgina. Í öndvegi er viðtal sem Jón. Á. Kalmansson tók við Pál Skúlason á síðustu vikum lífs hans vorið 2015. Viðtalið fjallar um heimspeki Páls og þá um leið um manneskjuna Pál því að mörgu leyti er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt. Yfirskrift viðtalsins er „Hugtökin búa í hjarta okkar“ sem segir kannski allt sem segja þarf um hvernig heimspekingur og manneskja Páll Skúlason var. Hann gerði allt með hjartanu og er einhver hlýjasti og besti maður sem ég hef kynnst, en ég var svo lánsöm að kynnast honum þegar ég var heimspekistúdent við HÍ og vinna seinna með honum að öðrum verkefnum sem snúa að því heimspekilega viðfangsefni sem ég hef valið mér (eða valdi mig) að glíma við – listina að lifa saman.

Við Páll, ásamt fleirum, unnum saman að nokkrum verkefnum sem má segja að hafi fjallað um stöðu manneskjunnar í heiminum og skyldur þeirra hver gangvart annarri. Því miður láu leiðir okkar ekki mikið saman síðustu æviár hans, en þó svolítið. Haustið 2008 skapaðist nokkur umræða um aðstæður flóttafólks og móttöku flóttamanna á Akranesi þegar bæjarstjórn samþykkti að taka á móti hópi 29 flóttamanna frá Írak. M.a. gengu undirskriftarlistar gegn verkefninu í bænum, listar sem byggðust á grundvallarmisskilningi á aðstæðum fólksins sem þótti brýnt að leiðrétta. Því var haldinn fundur í Tónbergi fyrir íbúa bæjarins til þess að koma á framfæri upplýsingum um það sem sannara reyndist og stilla fókusinn – fundur sem varð til þes að margir skiptu um skoðun og gengu til liðs við verkefnið með því að skrá sig sem stuðningsfjölskyldur á vegum Rauða krossins.

Páll ætlaði að tala á þessum fundi en var svo ekki á landinu þegar til kom – en aðstoðaði mig svolítið við skipulagninguna og efnistök og benti á annan heimspeking sem talaði í hans stað. Á meðan á þeim undirbúining stóð gleypti ég í mig hugmyndir Páls og afstöðu til umræðuefnis fundarins. Sléttu ári áður en viðtalið í Hug var tekið vorum við Páll svo aftur að plana lítið verkefni saman – en hann ætlaði að koma og fjalla um verk sitt „Ríkið og rökvísi stjórnmálanna“ í röð bókakynninga um samfélagsmál sem ég var þá að skipuleggja á Bókasafninu á Akranesi. Við héldum í vonina um að hann yrði skárri af veikindunum og gæti skotist upp á Skaga eitthvert síðdegið – en af því varð aldrei. En ég er þakklát fyrir að hafa endurnýjað þó ekki væri nema að þessu litla leyti sambandið við Pál. Ég gerði mér grein fyrir því að tími hans var að renna út og það gerði hann auðvitað líka, æðrulaus og yfirvegaður sem hann var vegna þessa, sem gerir samtölin sem við áttum út af þessu enn dýrmætari í minningunni.

Lífið sem ævintýri og að hugsa af þolinmæði

Maður hittir fáar manneskjur á lífsleiðinni sem hafa grundvallarárhif á líf manns, mér liggur við að segja stýra því hvernig maður skilur og skynjar tilveruna. Páll var ein af þeim manneskjum sem hafði slík áhrif á líf mitt – hann kenndi mér að undrast veruleikann og skynja lífið sem ævintýri, en þessi stef eru rauður þráður í gegnum alla heimspeki hans. Páll sagði sjálfur að undrunin yfir veruleikanum væri upphaf þess að hann fór að ástunda heimspeki, löngunin til að skilja þetta undur. Hvers vegna er eitthvað fremur en ekkert? Og þessa afstöðu finnst mér líka mega rekja í gegnum öll samskipti mín við Pál – spurningin: hvers vegna er allt einsog það er en ekki einhver vegin öðruvísi? Og kannski má segja þessar spurningar hafi verið sjálft lífslaflið fyrir Páli – það sem rekur okkur áfram í eilífri leit að skilningi. Og þetta afl var enn að verki rammsterkt örfáum vikum áður en hann dó – einsog birtist svo kristaltært í viðtalinu í Hug.

Þorsteinn Gylfason, sem einnig var kennari minn og vinur þegar ég var heimspekistúdent við HÍ, hafði líka stórkostleg áhrif á líf mitt, þó það væri á öðrum nótum. Páll var svo barnslega einlægur en að sama skapi frjór og eldklár hugsuður – mér dettur ekki önnur lýsing í hug – og kenndi mér að njóta þess sem býr í hjartanu. Undrast það, reyna að skilja það og fagna því. Að lifa, njóta og skoða með allri verundinni – hjarta, skynsemi, huga, líkama og sál. Stundum finnst mér ég vera að springa úr undrun, hugmyndum og lífi – það er tilfinning sem Páll vakti fyrstur hjá mér.

Áhrif Þorsteins voru hófstilltari og röklegri, ef svo má segja  –  hann innrætti mér mikilvægi þess að hafa hemil á hugsuninni og geta rakið hana, skoðað, skilgreint og stýrt. Þorsteinn er sennilega sá maður sem kenndi mér best að treysta hugsun minni og forma hana. Ég skrifaði B.A verkefnið mitt hjá honum og ég man ekki hversu oft hann sendi mig heim með kafla úr ritgerðinni til að hugsa aðeins betur. „Ég veit að það býr meira í þér – þú býrð yfir færnininni en ert of óþolinmóð. Hugsaðu þetta aðeins betur og komdu aftur á morgun.“ Sagði Þorsteinn svo oft. Og ég gerði auðvitað einsog hann sagði –oft pirruð og óþolinmóð, að springa úr hugmyndum sem ég vildi koma frá mér. Og auðvitað náði ég betri tökum á því sem ég var að hugsa þegar ég gaf mér meiri tíma og tamdi mér meiri yfirvegun. Þegar upp er staðið er þetta dýrmætasti lærdómurinn sem ég dró úr BA náminu mínu – að temja mér þolinmæði og yfirvegun til að hugsa hlutina til enda. Og hafa trú og traust á því sem ég hugsa vegna þess að ég veit að ég hef hugsað hlutina til enda og af yfirvegun, eða að minnsta kosti eins langt og ég kemst hverju sinni.

Lærdómurinn frá Páli og Þorsteini er með dýrmætasta veganestinu sem ég fékk út í lífið. Þessir menn breyttu lífi mínu – það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Og það er ekki síst þeim að þakka að líf mitt hefur verið hamingjusamt – einsog hamingjan útlistast í kenningu Páls um hana.

Um helgina hef ég lesið viðtalið við Pál tvisvar og efni þess hefur varla vikið úr huga mér. Um leið og ég finn fyrir svo undarlega djúpum söknuði eftir þessum lærimeisturum mínum átta ég mig betur en nokkru sinni fyrr á því hversu hugsun Páls og Þorsteins og leiðsögn þeirra hefur mótað afstöðu mína til heimspekinnar og tilverunnar allrar í miklum grundvallaratriðum.  Í viðtalinu fjallar Páll meðal annars um hugmyndir sínar um skynsemina og hvernig hún er nátend frelsishugtakinu og hvernig þetta tvennt birtist í sjálfræði manneskjunnar – hæfileika mannsins til að ráða sér sem frjáls vera og beita til þess skynseminni. Hamingjan felst svo að einhverju leyti í því að ávinna sér sjálfræði – og það var það sem Páll og Þorsteinn, hvor með sínum hætti, kenndu mér.

Hamingju mína á ég því að verulegu leyti þeim að þakka. Það er ekki lítil gjöf að gefa nemenda sínum – hafi þeir ævarandi þökk fyrir.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

1 Response to “Hugtökin búa í hjarta okkar” Um Pál Skúlason og Þorstein Gylfason – mennina sem breyttu líf mínu

  1. Takk fyrir að draga saman þessar hugsanir; fleiri nemendur þessara tveggja manna hugsa svona til þeirra.

Leave a comment