Tvær einræður yfir kaffibolla og randalínusneið

Um daginn var ég að í kaffiboði hjá manneskju mér nákominni. Ég veit að þessari manneskju þykir vænt um mig og mér þykir vænt um hana og við áttum um margt góðan samfund. Það var bara eitt sem bar skugga á þetta annars hugglega boð – hyldýpisgjáin sem er á milli okkar þegar kemur að viðhorfum til listarinnar að lifa saman.

Þessi manneskja er nefnilega eindregin – mér liggur við að segja sjúklegur – andstæðingur flóttamanna og fjölmenningar (skítt með það þó hennar eigin fjölskylda (þar á meðal maki) sé af erlendum uppruna,  það er ekki það sama, og skítt með það þó þeir útlendingar sem hún þekkir  persónulega séu almennt hið ágætasta fólk – eða að minnsta kosti bara einsog fólk er flest – það er ekki heldur það sama. Sama og hvað? Ég veit það ekki!).

Það er svo sem gott og blessað að hafa ólíka sýn og viðhorf – reyndar erum við ósammála um ýmislegt en það hefur ekki komið stórkostlega að sök í okkar samskiptum þó stundum hafi verið tekist á yfir kaffibolla og randalínusneið. Ég var auðvitað sammála manneskjunni um að það væri að mörgu að hyggja, að áskoranirnar væru vissulega til staðar, þetta væri ekki sáraeinfalt og listin að lifa saman um margt snúið listform, en með iðkun, ástundun og réttum meðulum mætti draga verulega úr áskorunum og stuðla að góðum samskiptum og gagnkvæmri virðingu þannig að stöðugleiki, öryggi og friður í samfélaginu yrði áfram tryggður. Ég VEIT að þetta er hægt – því ég hef oft átt í slíkum samskiptum, hef iðkað þessa hóplist. En manneskjan var mér ekki sammála.

Fávísi kjáninn

Það er tvennt sem ég hef verið mjög hugsi yfir eftir þetta boð: Annars vegar algjörlega afdráttarlaus og einstrengingsleg afstaðan sem málflutningurinn gegn því sem ég hafði fram að færa byggði á. Ég er bara fávís kjáni sem veit ekki neitt í minn haus – allt mitt starf og vinátta við innflytjendum og flóttafólki er sumsé byggt á misskiliningi, vankunnáttu, trúgirni eða heimsku. Fréttir er heldur ekkert að marka –Rauði krossinn og vinstri elítan stýrir fréttaflutningi um fjölmenningu, flóttamenn og hælisleitendur og fegrar hann, nema Útvarp Saga, sem er eini fjölmiðilinn sem þorir!

Ég veit svo sem að það er til fólk sem hefur þessa bjargföstu afstöðu og hugmyndir – og trúið mér ég reyndi að stýra fram hjá þessu umræðuefni, með litlum árangri, því mig langaði ekki að eyða samverustundinni á ágreining. En, fyrst ég væri svona almennt að hafa mig í frammi í þessum efnum skyldi ég ekki skjóta mér undan þeirri ábyrgð að taka samræðuna (sem var auðvitað engin samræða heldur tvær einræður með engan sameiginlegan útgangspunkt).

Mér leiddist þetta satt að segja – þangað til ég reiddist – en þótti þó merkileg stúdía að reyna að botna í því hvernig er mögulegt að hugsa eftir svona afdráttarlausum og blindum brautum sem leiðir lóðbeint að niðurstöðunni sem manneskjan óttast mest. Það er – þetta er afstaða sem uppfyllir sig á endanum sjálf.

Í sporum annarra

Hitt sem hitt sem situr í mér – og það skiptir meira máli –  eru nefnilega mín eigin viðbrögð og tilfinningar sem komu mér að sumu leyti á óvart og voru – svo ég tali hreint út – ekki í stíl við það sem ég helst hefði viljað. Ég hefði viljað halda ró minni og yfirvegun – en gerði það ekki.

Sjáið þið til – einmitt þennan dag beið ég (og bíð enn)  tíðinda af öðrum manneskjum sem eru mér kærar sem eru að vinna í því að komast út úr Sýrlandi til að finna öryggi fyrir börnin sín. Ungt fólk sem allt þar til nú reyndi að trúa á framtíð í heimalandinu og ríghélt í von um að skelfingarástandið í Sýrlandi gæti ekki varað að eilífu, en hefur nú misst þá von. Fólk sem ég er í talsverðum samskiptum við og horfi þannig gegnum  lítinn glugga inn í líf þeirra sem enn hafast við í Sýrlandi (og hér spilar auðvitað líka inn í saga annarra vina minna sem hafa flúð stríð og hörmungar en iðulega lent í nýjum erfiðleikum og hörmungum á flóttanum).

Ef ég á að vera alveg hreinskilin vildi ég stundum að ég hefði ekki upplýsingarnar sem vináttan við þetta góða fólk veita. Það tekur oft á að vera þó ekki sé nema þessi ofurlitili þátttakandi í lífi þeirra. Væri ég það ekki væri miklu auðveldara að snúa sér undan og láta einsog ástandið þarna í Mið Austurlöndum eða vandi flótamanna kæmi mér ekki við.

En þau eru vinir mínir – fólk sem mér þykir vænt um – og  þess vegna kemst ég ekki hjá því að setja mig í þeirra spor. Þannig var ég einmitt í þeirra sporum og nokkuð áhyggjufull þegar þetta hundleiðinlega samtal í kaffiboðinu fór fram og það sem situr í mér er reiðin sem blossaði upp í mér, heit og sterk, yfir fullkomnu skilingsleysi, skeytingarleysi og yfirlæti manneskjunnar sem ég var að drekka kaffi hjá. Hér var líf fólks sem er mér kært í húfi – en mælikvarðinn sem manneskjan lagði á þessi líf var svo bjánalega léttvægur; óþægileg konrfrontasjón við útlending á götu, frekja nokkurra hælisleitenda, kona með hijab, svört kona sem á þrjú lítil börn og er  á framfærslu sveitarfélags, útlendingur sem stal einhverju einhvertsaðar, þjónn á kaffihúsi sem kunni ekki íslensku, útlendingar sem manneskjan þekkti sem eru á framfærslu  og svo framvegis.

Þetta var, í huga manneskjunnar, nægileg réttlæting þess að fólkið sem ég beið frétta af, og sem er að reyna að tryggja börnum sínum framtíð og líf (og aðrir í sambærilegri eða verri stöðu) átti ekki að fá tækifæri til þessi í Evrópu. Það var jú leitt að ástandið væri einsog það er – en svona er lífið bara. Við höfum nóg með sjálf okkur.

Og svo var leitað frekari réttlætinga í alhæfingum út frá ativkum sem ég mun aldrei kalla léttvæg – en gagnrýni þó að séu notuð til að skilgreina alla flóttmenn og hælisleitendur eða fjölmenningarverkefnið yfirleitt því það er einfaldlega ekki sanngjarnt né gagnleg greining á þeim áskorunum sem blasa við; hryðjuverk brjálæðinga, uppgangur íslamista – og svo framvegis. Með nokkrum sanni má segja að sá hryllingur sé afleiðing hins afdráttarlausa málfutnings – ekki réttlæting hans.

Vítahringur gagnkvæmrar andúðar

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki einfalt verkefni – en einföld afstaða manneskjunnar sem ég drakk kaffi með er jafn varhugaverð, sennilega varhugaverðari, en að byggja afstöðu sína einfaldlega og eingöngu á mannúð. Að sýna mannúð þýðir ekki að gera sér ekki grein fyrir áskorunum, að sýna mannúð er ekki að vera bláeygður kjáni, að sýna mannúð er ekki að draga engin mörk í samfélagi. Að sýna mannúð er þvert á móti líklega það allra, allra skynsamlegasta sem hægt er að gera í stöðunni. En um það urðum við auðvitað ekki sammála heldur.

Reiðin sem blossaði upp í mér þegar leið á einræðu manneskjunnar var svo sterk tilfinning að það kom augnablik þar sem mér fannst að ég myndi springa. Kannski einmitt vegna þess að mér þykir vænt um manneskjuna sem lét þarna hugmyndir sínar í ljós. Svo hjaðnaði reiðin næstum eins snögglega og hún blossaði upp og satt að segja finnst mér núna nær að vorkenna þeim sem hafa þessa afstöðu, vegna þess að þá skortir í einhverjum mæli  það dýrmætasta sem manneskjur eiga og er mikilvægasta undirstaðan alls sem við gerum; samkennd, innsýn, skilining, mannúð. Það eina sem getur sameinað og tryggt okkur öryggi og frið.

Því fleiri sem búa yfir þessu dýrmæti – því líklegra er að okkur farnist vel og sigrumst á ógninni sem blasir við okkur öllum – vaxandi átökum um réttinn til að njóta þeirra grundvallarmannréttinda að lifa og búa við öryggi.

Í mér situr bara eftir óttinn við heiminn sem bíður okkar ef þeir sem skortir mannúð, en stjórnast af ótta, yfirgangi og sundurlyndi, fá að ráða för.

Því ef ég funa upp í reiði í einræðum yfir kaffibolla í mínu örugga lífi á Íslandi getið þið rétt ímyndað ykkur hvernig vinafólki mínu sem er að leggja út í óvissan flótta mun líða þegar þau mæta þessu viðhorfi í stað mannúðarinnar sem þau reiða sig á og líf þeirra veltur á – og öllum þeim sem þegar hafa mætt því. Viðhorfi sem leiðir af sér mismunun og fordóma. Viðhorfi sem elur af sér vítahring gangkvæmrar andúðar og átaka sem getur ekki endað öðruvísi en með ósköpum.

Vinsamlegast hugsið um þetta og takið svo þá afstöðu sem til teljið réttasta.

Ábyrgðin er ekki bara þeirra sem til okkar leita eftir öryggi og lífi – hún er ekki síður okkar.

Ást og friður.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a comment