Upphaf og forsendur flóttamannamála: VII. Hluti

Flóttamenn á Íslandi

Segja má að málfeni flóttamanna séu, í sögulegu samhengi, frekra ný af nálinni á Íslandi. Á árunum 1990 – 1998 sóttu vel innan við tíu einstakaklingar um hæli á Íslandi á ári hverju. Árið 2001 gerðist Ísland aðili að Schengen samstarfinu og það ár sóttu 53 einstaklingar um hæli. Árið, 2002 varð sprenging í hælisumsóknum þegar 117 manns sóttu um vernd á Íslandi. Næstu ár fækkaði þeim nokkuð og voru iðulega innan við hundrað[1] en á allra síðustu árum hefur aftur fjölgað mjög í hópi hælisleitienda. Árið 2013 sóttu 172 einstaklingar um hæli á Íslandi, 175 árið 2014 og 355 árið 2015. Í ár má gera ráð fyrir að á bilinu 800 – 1000 manns sæki um hæli á Íslandi. Hér ber þó að taka fram að aðeins lítill hluti þeirra sem sækja um fá stöðu flóttamanns.

Í upphafi var hælisleitendum markvisst synjað um hæli. Stjórnvöld vildu ekki setja fordæmi fyrir því að veita flóttamönnum hæli í landinu, þó að örfáir fengju dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Á allra síðustu árum  hefur þetta breyst, uppúr 2011 fjölbagi þeim málum sem enduðu með hælisvetingu en undanfarin ár hefur þetta breyst aftur. Árið 2015 fengu 25% þeirra sem hutu efnismeðfer hæli, 2014 lyktaði um helmingi þeirra mála sem fjallað ver efnilsega um með veitingu hælis.  Árið 2013 var hlutfallið aðeins 16%, en það er skýrt með því að stór hluti af þeim sem hingað leituðu sem flóttamenn það ár kom frá ríkjum sem teljast örugg Evrópuríki. Flestir þeirra voru frá Albaníu og Króatíu.[2] Árið 2012 fengu 41% þeirra mála sem fjallað var efnislega um farsælan endi, sjö hælisleitendur fengu stöðu flóttamanns á Íslandi en synjað var í tíu málum.  Árið 2011 var hlutfall þeirra sem fengu hæli enn hærra eða 67%, 14 fengu hæli en 7 var synjað..[3]

Á sama tíma og þessi þróun hefur orðið í málefnum flóttamanna á Íslandi  hefur innflytjendum fjölgað mjög og eru þeir nú tæplega tíu prósent íbúa á Íslandi. Af þessum tölum má ljóst vera að miklar breytingar urðu á Íslandi á skömmum tíma. Íslendingar hafa átt fullt í fangi með að venjast þessum nýja veruleika og aðlögun að breytttri samfélagsgerð stendur enn yfir.

En þó að þróun mála er varðar útlendinga á Íslandi hafi verið hæg og átt sér stað síðar en í öðrum Evrópulöndum hefur þetta litla land Norður í höfum þó alla tíð dregið til sín fólk utan úr heimi, þó í smáum stíl hafi verið. Fyrstu eiginlegu  hælisleitendurnir sem settust að á Íslandi í nútímanum má kannski segja að hafi verið þjóðverjar á hrakólum eftir seinni heimsstyrjöld, þar á meðal fáeinir Gyðingar sem hingað komu á flótta undan nasistum. Flestum Gyðingum sem hingað leituðu með lífið sjálft að veði var þó vísað á brott. Í lok fjórða áratugarins sóttu tæplega 150 Gyðingar um að fá að koma til Íslands en flestum var synjað. Á árunum 1939 – 1940 fengu 33 Gyðingar dvalarleyfi á Íslandi og var Ísland í hópi þeirra landa sem veittu hlutfallslega fæstum þeirra skjól. Sumarið 1949 komu 320 þjóðverjar[4] til starfa í sveitum landsins. Einsog í Evrópu allri vantaði þá vinnuafl á Íslandi, einkum til sveita. Þjóðverjarnir komu margir beint úr flóttamannabúðum og tóku því fagnandi að fá tækfæri til að hefja nýtt líf á Íslandi.[5]

Rauði krossinn á Íslandi  var stofnaður árið 1924 og var Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti Íslands, fyrsti formaður félagsins. Einsog áður hefur verið vikið að hefur Rauða kross hreyfingin alla tíð gegnt mikilvægu hlutverki í málefnum flóttamanna og Rauði krossinn á Íslandi er þar engin undantekning. Árið 1956 brutust út átök í Ungverjalandi með þeim afleiðingum að fjöldi fólks flosnaði upp frá heimilum sínum og lenti á vergangi. Í lok október sama ár sendi Alþjóðasamband Rauða krossins áskorun til landsfélaganna um að veita landflótta Ungverjum hjálparhönd. Rauði krossinn á Íslandi brást við áskoruninni og beitti sér fyrir því að íslensk stjórnvöld tækju við hópi flóttamanna frá Ungverjalandi, en Ísland hafði staðfest flóttamannasamninginn 1. mars þetta sama ár. Stjórnvöld tóku vel í erindið og málið vannst hratt og vel því á aðfangadag jóla 1956 komu 52 flóttamenn frá Ungverjalandi til Íslands, 28 karlar, 22 konur og tvö ung börn.[6] Þetta var fyrsti hópur svo kallaðra kvótaflóttamanna, fórnarlömb átaka í brýnni í þörf fyrir vernd sem eru á mála hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna og stjórnvöld bjóða hæli til frambúðar og aðstoð á Íslandi.

Eftir komu hópsins frá Ungverjalandi leið næstum aldarfjórðungur uns næsti hópur kvótaflóttamanna kom til Íslands, árið 1979 kom 34 manna hópur flóttamanna frá  Vietnam sem settist að í Reykjavík. Þar með fór verkefnið sem móttaka kvótaflóttamanna er að taka á sig þá mynd sem það hefur í dag. Reykjavíkurborg og Rauði krossinn gengdu hlutverki í móttökuferlinu og sjálfboðaliðar Rauða krossins tóku virkan þátt í aðlögunarferli hinna nýju íbúa. 1982 kom hópur frá Póllandi og árin 1990 og 1991 komu hópar frá Víetnam, um þrjátíu manns í hverjum hópi.

Þrátt fyrir nokkuð reglulega móttöku kvótaflóttamanna allar götur frá 1989 höfðu Íslensk stjórnvöld ekki sett sér sérstaka stefnu í málefnum flóttafólks og þeim hælisleitendum sem hingað leituðu á eigin vegum í leit að vernd var undantekningarlaust synjað, þó nokkrir þeirra fengju hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það þýddi að þessir einstaklingar nutu ekki þeirrar aðstoðar sem yfirvöld höfðu skuldbundið sig til að veita flóttamönnum heldur þurftu að brjótast til sómasamlegs lífs upp á eigin spýtur sem best þeir gátu. Íslensk stjórnvöld vildu ekki setja fordæmi fyrir hælisleitendur og báru því við að það myndi kalla á holskelfu hælisumsókna sem Ísland réði ekki við, af menningarlegum ástæðum ekki síður en efnahagslegum. Enn er ekki til skrifleg stefna stjórnvalda í málefnum hælisleitenda.

Árið 1993 heimsótti Pierre Sané framkvæmdastjóri Amnesty International Ísland til þess meðal annars að kynna sér hvernig staðið væri að málefnum flóttamanna. Hann var ekki hrifinn af því sem hann uppgötvaði í heimsókn sinni og gagnrýndi stjórnvöld á Íslandi nokkuð harkalega. Sagði þau brjóta á mannréttindum hælisleitenda og benti meðal annars á að þeir nytu hvorki liðsinnis lögfræðings né stæði þeim til boða túlkaþjónusta við að reka mál sín á Íslandi sem veikti mjög stöðu þeirra. Stjórnvöld á Íslandi brugðust við gagnrýninni og í kjölfarið var skipuð nefnd sem hafði það hlutverk að móta stefnu í málefnum flóttamanna sem var lögð fram árið 1994. Sú stefnumótun skilaði sér í stofnun Flóttamannaráðs, sem síðar breyttist í Flóttamannanefnd, sem hafði það hlutverk að skipuleggja móttöku kvótaflóttamanna og fjalla um málefni hælisleitenda. Fyrsta verkefnið sem ráðið vann að var móttaka hóps þrjátíu kvótaflóttamanna frá fyrrum Júgóslavíu sem kom til Íslands á vormánuðum 1996 og settist að á Ísafirði. Í kjölfarið fygldu tveir heldur minni hópar, um tuttugu manns,  af sömu slóðum sem settust að á Höfn í Hornarfirði 1997 og  Blönduósi 1998.[7] Árin 2000, 2001 og 2003 komu samtals 71 kvótaflóttamaður til Íslands í boði Íslaneskra stjórnvalda frá fyrrum Júgslavíu og settist að á Siglufirð, í Reykjanesbæ og Reykjavík.

Árið 2005 varð nokkur stefnubreyting í móttöku flóttamanna þegar farið var að horfa sérstaklega til einstæðra mæðra og barna þeirra. Árin 2005 og 2007 kom slíkir hópar frá Kolombíu, um þrjátíu manns í hvort sinn, og fékk liðsinni stjórnvalda, Reykvíkurborgar og Rauða krossins til þess að setjast að í Reykjavík. Árið 2008 veitti Ísland móttöku tuttugu og níu manna hópi sem hafði hrakist á flótta frá Írak í kjölfar innrásarinnar 2003 og hafðist við í flóttamannabúðum í einskismannslandi á landamærum Íraks og Sýrlands.[8] Sá hópur samanstóð einnig af einstæðum mæðrum og börnum þeirra. Í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 fækkaði í hópi kvótaflóttamanna og móttakan varð óreglulegri. 2010 komu þrír einstaklingar frá Haítí til fjölskyldusameiningar. Í árslok 2012 komu þrjár einstæðar mæður og börn þeirra, flóttafólk frá Afganistan sem hafðist við í flóttamannabúðum í Íran áður en þau komu til Íslands. Árið 2014 minnkaði áherslan á einstæðar mæður og farið var að horfa til fjölbreyttari hóps við val á kvótaflóttamönnum sem fengu tilboð um að setjast að á Íslandi, meðal annars hinsegin fólks, fatlaðra og sjúkra. Árið 2014 komu sex samkynhneigðir flóttamenn frá Simbamve, Úganda og Kamerún sem sættu ofsóknum vegna kynhneigðar sinnar í heimalandinu, auk sex manna fjölskyldu frá Afganistan. Í ársbyrjun 2015 kom 13 mann hópur frá Sýrlandi, í hópnum sem samanstóð af fjölskyldufólki voru einstaklingar sem höfðu slasast í átökum eða glímdu við veikindi. Nokkrum síðar kom annar hópur sýrlenskra flóttamanna og greint hefur verið frá því í fréttum að von sé að enn öðrum hópi með sama bakgrunn í haust.

Allt frá upphafi hefur móttaka kvótaflóttamanna verið samstarfsverkefni stjórnvalda, sveitarfélaga sem fólkið sest að í og Rauða krossins á Íslandi. Hægt og bítandi hefur verkefnið verið að slípast í farveg og er að mörgu leyti til fyrirmyndar. Ekki síst vegna þeirrar samvinnuhefðar sem þróast hefur milli ríkis, svetiarfélags og Rauða krossins sem tryggir að mannúðarsjónarmið séu hluti af verkefninu þegar það er komið af stað. Þó ákvörðun um hvort og þá hverjum verði boðið að koma sem kvótaflóttamaður til Íslands sé ævinlega pólitísk og á hendi stjórnmálamanna.

Þróunin í málefnum hælisleitenda hefur hinsvegar verið hægari og erfiðari og þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi litið með ákveðinni samúð til vanda kvótaflóttamanna var lengi vel nánast ómögulegt fyrir þá sem komu á eigin vegum í hælisleit að njóta sannmælis og  fá stöðu sína sem flóttamenn viðurkennda á Íslandi. Þar spilar pólitísk ákvörðun stjórnvalda stærst hlutverk, einsog sést vel þegar rýnt er í þær aðstæður sem núgildandi lög um útlendinga árið 2002 urður til við. Umræðan á Íslandi í adraganda lagasetningarinnar var mjög í anda þeirrar þróunar sem var að eiga sér stað í Evrópu og áður er rakin. Tímasetningin er ekki hending, gildandi útlendingalög á Íslandi voru að verulegu leyti viðbragð við breyttum forsendum í útlendigamálum á vesturlöndum í kjölfar árása Al Kaída á skotmörk í Bandaríkjunum sem höfðu í för með sér vaxandi átök og ótta einsog áður hefur verið rakið. Ísland gerðist aðili að Schengen samstarfinu árið 2001 sem auðveldaði nokkuð aðgengi útlendinga innan svæðis að íslenskum vinnumarkaði með þeim afleiðingum að enn meira kapp var lagt á að halda þeim frá sem ekki féllu undir regluverk Schengen samstarfsins. Og ráðamenn óttuðust einnig að þar sem Evrópa væri að herða mjög reglur um flóttamenn og aðgengi hælisleitenda myndi fjöldi þeirra sem leituðu skjóls á Íslandi vaxa, þar sem erfiðara væri í önnur hús að venda. Ísland yrði því að herða á sinnu stefnu til samræmis við það sem var að gerast í Evrópu.[9]

Í umræðunni var þeim forsendum teflt fram að Íslendingar þyrftu að gæta að sínu eigin öryggi gegn varasömum útlendingum sem hingað leituðu í illum og jafnvel glæpsamlegum tilgangi og einnig að íslensk þjóðmenning myndi ekki þola mikla fjölgun útlendinga á Íslandi. Færri huguðu að þeim siðferðilegu skyldum sem af algjldum mannréttindasáttmálum fljóta og liggja kröfugerð einstaklinga sem sækja um hæli undan ofsóknum til grundvallar, enda á krafan grundvallarstoð í 14. grein Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umræðan snerist fyrst og fremst um rétt Íslands til varnar, en ekki skyldur stjórnvalda gagnvart berskjölduðum einstaklingum á flótta úr svarholi flóttamannabúða eða lífsins ómögulegum og ómanneskjulegum aðstæðum. Þessi afstaða varð morgunljós í Lekamálinu 2013 – 2014 þegar áhrifamenn í íslensku samfélagi lýstu þeirri skoðun að borgarleg réttindi og réttur til persónuverndar ættu ekki við hælisleitendur.[10]

 

Þróun útlendingalaga

Útlendingastofnun, sem annast framkvæmd laga um útlendinga á Íslandi, er undirstofnun Innanríkisráðuneytisns og starfar samvkæmt lögum um útlendinga frá árinu 2002.[11] Stofnunin hefur starfað með einhverju sniði allt frá 1937 þegar henni var komið á fót sem deild innan lögreglunnar í kjölfar lagasetningar um eftirlit með útlendingum og hét þá Útlendingaeftirlitið. Nafninu var breytt með nýju lögunum frá árinu 2002. Þau lög tóku mið af sífellt öryggisvæddari umræðu og vaxandi ótta við útlendinga, ekki síst fólk einsog Ibrahem Faraj sem er múslimi og hælisleitandi. Þegar Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, gerði grein fyrir frumvarpinu úr ræðustól Alþingis í febrúar árið 2002, um hálfu ári áður en Ibrahem kom til Íslands, sagði hún meðal annars:

Það leikur enginn vafi á því að hið alþjóðlega umhverfi er gerbreytt frá því að frv. þetta var lagt fram fyrst. Atburðirnir í Bandaríkjunum þann 11. september sl. umbreyttu heimsmyndinni og knúðu ríki til þess að grípa til allra tiltækra úrræða í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi, sem er orðin raunveruleg ógn við heimsfriðinn.

Einn þáttur í þeirri viðleitni er endurskoðun laga og reglna um útlendingamálefni víða á Vesturlöndum. Hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna m.a. hvatt ríki til þess að grípa til viðeigandi ráðstafana til að ganga úr skugga um að þeir sem sækja um hæli hafi ekki tekið þátt í hryðjuverkastarfsemi áður en ákvörðun er tekin um veitingu hælis auk þess sem reynt verði að koma í veg fyrir að menn misnoti stöðu sína sem pólitískir flóttamenn, til dæmis þannig að neita verði um framsal á þeim af stjórnmálaástæðum.

Með þessu hefur verið reynt að sporna við því að hryðjuverkamenn úr fjarlægum heimshlutum hreiðri um sig í Evrópuríkjum og myndi jafnvel net umfangsmikillar hryðjuverkastarfsemi þar sem þeir undirbúa ódæðisverk sín óáreittir jafnvel árum saman.“[12] 

Ísland, einsog önnur lönd, þarf að hafa skýra stefnu í málefnum útlendinga, sem tekur meðal annars á þeim vanda sem vaxandi hryðverkaógn í Evróu skapar. Sú ógn er raunveruleg. En ég ætla að leyfa mér að benda á hættuna því samfara að grundvalla lagasetningu og stefnumörkun í málefnum útlendinga almennt á þessum ótta sem beinist sérstaklega gegn einum hópi, múslimum. Auðvitað á ekki að veita hryðjuverkamönnum eða öðrum glæpamönnum hæli, en við megum heldur ekki falla í þá gryfju að gera glæpamenn úr öllum sem til okkar leita og synja þeim um þá vernd sem líf þeirra og tilvera veltur á og þeim á að vera tryggð í Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Þetta er alls ekki einfalt viðfangsefni en sem betur fer virðast íslendingar vera að ná æ betri tökum á verkefninu sem umsýsla um málefni hælisleitenda er eftir því sem reynslan eykst.

Á allra síðustu árum hafa orðið nokkrar breytingar til batnaðar á því kerfi sem fjallar um hælismál á Íslandi og að líkindum mun verð enn meiri breyting til batnaðar þegar nýsamþykkt útlendingalög taka gilid um næstu ármmót.  Þann 12. mars árið 2009 féll dómur í Hæstarétti um að stjórnsýslulög hefðu verið brotin við meðferð vegna umsóknar um hæli. Forsaga þess máls var sú að Útlenidngastofnun hafði sent beiðni til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um bakgrunnsupplýsingar í máli hælisleitenda en hælisumsókn var synjað áður en svar barst frá flóttamannastofnuninni. Þeir sem úrskurðuð í málinu höfðu með öðrum orðum ekkert í höndunum til að leggja dóm á persónulega sögu viðkomandi áður en þeir ákváðu að synja umsókninni. Úrskurðuinn var kærður til dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið staðfesti óígrundaðan dóm Útlendingastofnunar. Málið var kært til dómstóla og hælisleitandinn sem um ræðir vann málið í héraðsdómi. Ríkið áfrýjaði málinu, en tapaði einnig fyrir Hæstarétti.

Í dómi Hæstaréttar segir að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin með því að bíða ekki svars frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áður en viðkomandi hælisumsækjanda var synjað um hæli. Málið og síðar dómurinn sem um það féll skapaði eðlilega nokkra umræðu og  krafan um að farið yrði ofan í saumana á hælismálum og vinnubrögðum sem hefð hafði skapast fyrir varð áberandi og æ háværari. Í kjölfarið skipaði þáverandi dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir, starfshóp sem hafði það hlutverk að skoða lög og reglugerðir um málsmeðferð í hælismálum og kanna hvort þau væru í samræmi við aljþóðlegar skuldbindingar sem Ísland hafði gert, meðal annars með aðild að Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt var starfshópnum, sem var faglega skipaður, gert að skila tillögum að úrbótum. Nefndin hafði aðeins það hlutverk að skoða atriði sem gilda um stjórnsýslulega meðferð hælisumsókna, en í henni eru þó að finna tillögur sem miða bæði að aukinni réttarvernd og bættum aðbúnaði og mannúðlegri aðstæðum á meðan beðið er niðurstöðu.

Frá útkomu skýrslunnar hefur markvisst verið unnið að úrbótum í meðferð hælismála þó enn megi margt bæta. Árið 2014 var enn samþykktar mikilvæg viðbót við útlendingalögin sem miða að því að bæta og stytta málsmeðferð hælisleitenda með því meðal annars að stofnsetja sérstaka, óháða kærunefnd sem úrskurðar í málum sem henni berast á grundvelli 30. greinar laganna sem fjallar um hvernig þeim sem synjað er um hæli geta  kært úrskurð um brottvísun. Það er því ekki lengur ráðuneytið sem hefur úrslitavald í lífi hælisleitenda heldur sérstök kærunefnd skipuð sérfræðingum. Þar með var enn stigið mikilvægt skref í þá átt að gera meðferð hælismála falgegri og áreiðanlegri. Við þær breytingar sem þá urðu á málaflokknum fékk Rauði krossinn aukið málsvarahlutverk og samið var við Reykjavíkurborg um að taka að sér utanumhald hluta þeirra hælisleitenda sem á Íslandi dvelja hverju sinni, auk Reykjanesbæjar sem hafði sinnt því verkefni um árabil og allir hælisleitendur þá verið vistaðir á Fit Hostel í Reykjanesbæ. Snemma árs 2015 bárust tíðindi af því að þrátt fyrir þessar úrbætur væri hæliskerfið sprungið og félagsþjónustur í Reykjanesbæ og Reykjavíkurborg gætu ekki sinnt öllum þeim málafjölda sem barst inn á borð til þeirra[13]

Því miður hefur ekki orðið viðsnúningur í viðhorfum til hælsileitenda með faglegri umsýslu, hvorki almennt meðal almennings né þeirra sem hafa örlög þeirra í höndum sér, stjórmálamanna og stefnumótenda. Þetta kom vel í ljós í Lekamálinu svo kallaða sem hófst í árslok 2013 þegar upplýsingum, sem síðar voru að hluta staðfestar sem rógburður, um Toni Omos var lekið til fjölmiðla. Toni Omos var hælsileitandi frá Nígeríu sem hafði verið synjað um hæli og átti að vísa brott frá Íslandi á grundvelli Dyflinareglugerðarinnar. Aðgerðarsinnar sem láta sig málefni hælisleitenda varða boðuðu til mótmælastöðu við Innanríkirsáðuneytið til að andmæla úrskurðinum. Þeir sögðu Omos eiga barnshafandi unnustu á Íslandi og að ómannúðlegt og rangt væri að stía þeim í sundur. Skömmu eftir að boðað hafði verið til mótmælanna birtust í fjölmiðlum viðkvæmar persónuupplýsingar um Omos og tvær konur sem hann var sagður eiga í ástarsambandi við. Einng var hann sagður liggja undir grun um mansal og líklegt þætti að hann væri ekki faðir að barninu en hefði þvingað stúlkuna til að halda því fram til að auka líkurnar á því að geta dvalist áfram á Íslandi. Síðar kom í ljós að rannskakað hafði verið hvort Omos væri sekur um refsivert athæfi en niðurstaða þeirrar rannsóknar var neikvæð. Upplýsingar þar að lútandi lágu fyrir löngu áður en minnisblaðinu var lekið til fjölmiðla. Einnig kom í ljós við rannsókn málsins að minnisblaðinu var lekið úr Innanríkisráðuneytinu. Síðar viðurkenndi aðstoðarmaður ráðherra sekt í málinu og sagði tilganginn hafa veið þann að koma sjónarmiðum stjórnsýslunnar í málinu á framfæri. Sjónarmiðum sem byggðu á ótta og neikvæðum viðhorfum í garð umrædds hælisleitanda, slúðri, sem geta tæplega talist faglegar forsendur. Í eftirmála þessara atburða virtist iðulega sem hagsmunir Toni Omos og þeirra sem málið fjallaði upphaflega um hefðu gleymst. Fæstir virtust hafa áhyggjur af þeim trúnaði sem brotinn var gagnvart Toni Omos og þeim konum sem í hlut áttu, og ekki var óalgengt að heyra því lýst yfir að hælisleitendur ættu ekki að eiga rétt til einkalífs eða njóta sama réttar til friðhelgi og persónuverndar og aðrir. Jafnvel að það væri bráðnauðsynlegt fyrir allan almenning að eiga aðgengi að persónupplýsingum um hælisleitendur þar sem líklegt væri að þeir væru glæpamenn og Íslendingar ættu örgyggishagsmuna að gæta og þyrftu því að hafa aðgengi að slíkum, tiltækum upplýsingum. Hin almenna grundvallarregla réttaríkisins „saklaus uns sekt er sönnuð“ ætti því ekki við um hælisleitendur heldur var frekar gert ráð fyrir því að þeir væru sekir uns þeim tækist að sanna sakleysi. Hælisleitendur væru með öðrum orðum í raun ekki eiginlegur partur af samfélaginu og nytu því ekki sömu borgarlegu réttinda og aðrir. Þar með var svartholið á Íslandi að nokkru staðfest.

Í rúmt ár var Lekamálið að velkjast í umræðu og kerfinu og lytkaði með því að aðstoðarmaður ráðherra viðurkenndi að hafa lekið minnisblaðinu. Hann var dæmdur til refsingar, náði sáttum við þá sem brotið var gegn með sektargreiðlsum og var rekinn úr starfi. Ráðherra sagði af sér embætti skömmu eftir að aðstoðarmaðurinn viðurkenndi brot sitt.

Málið allt var hið vandræðalegasta og undirstrikaði þann viðsnúning í viðhorfi til hælisleitenda sem hefur verið að eiga sér stað síðast liðin fimmtán ár eða svo. Hælisleitendum er í besta falli mætt af tortryggni en í versta falli sviptir réttinum til að njót þeirra mannréttinda sem aðrir geta gert tilkall til af meintum öryggisástæðum. Nú þegar Íslandi hefur tekist að betrumbæta regluverkið og hið lagalega umhverfi sem hælisleitendur verða hluti af þegar þeir leggja fram beiðni um vernd hér á landi er óskandi að okkur beri gæfa til að breyta viðhorfum líka. Það getur skipt sköpum, ekki aðeins fyrir framtíð þeirra sem fá hæli á Íslandi heldur einnig fyrir farsæla sambúið fólks af ólíkum uppruna í fjölbreyttu samfélagi.  Það er samfélagslegur ávinningur af því að allir njóti sambærilegra réttinda og beri sambærilegar skyldur. Ekki bara vegna þess að slíkt er afleidd krafa sem af almennum mannréttindum flýtur, í lagalegum og siðferðilegum skilningi, heldur líka vegna þess að slíkt eykur öryggi og bætir samfélagið. Hælisleitandi sem mánuðum, og jafnvel árum saman upplifir mismunun, andúð og neikvætt viðhorf innan úr kerfinu meðan hann bíður úrlausna sinna mála skortir forsendur til að þróa heilbrigt og gott samband við það samfélag sem hann hefur sótt um að verða hluti af. Mismunun elur þannig á andúð á báða bóga. Fordómar eru spádómur sem rætist af sjálfum sér. Með því að grundvalla vihorf okkar á fordómum sem elur á mismunun og andúð leggjum við grunn að samfélagi sem mismunar og sundrar. Til að byggja brýr er mikilvægt að hælisleitendur hafi tækfifæri til þess að vera raunverulegir þátttakendur í samfélaginu og læri á hið nýja líf í sátt, samlyndi og samneyti við aðra. Þetta skiptir æ meira máli eftir því sem þeim sem fá vernd á Íslandi fjölgar. Hér skiptir máli að hlusta á sögur fólks og átta sig á því að hælisleitendur eru næstum eins misjafnir og þeir eru margir, en allir koma með sama drauminn um líf í farteskinu.

[1] Sjá: http://redcross.lausn.is/Apps/WebObjects/RedCross32.woa/swdocument/1040386/flottamenn_Stats+2006-2008..pdf?wosid=false

[2] Sjá skýrslu Útlendingastofnunar fyrir 2013: http://utl.is/files/Ymislegt/rsskrsla_2013.pdf

[3] Sjá http://utl.is/index.php/um-utlendingastofnun/frettir/686-utgafa-arsskyrslna-2011-2013

[4] Af 320 innflytjendum frá Þýskalandi, sem voru ,á aldrinum 16 – 40 ára, voru 200 konur. Margar þeirra giftust og settust að til frambúðar á Íslandi.

[5] Margrét Guðmundsdóttir (2000): Í þágu mannúðar: Saga Rauða kross Íslands, Mál og Mynd, bls. 196.

[6] Sama rit, bls. 200.

[7] Sama rit, bls, 224 – 227.

[8] Um sögu þess hóps skrifaði Sigríður Víðis Jónsdóttir bók, Ríkisfang: Ekkert, sem út kom á haustmánuðum 2011.

[9] Sjá umfjöllun um stefnu Íslands í útlendingamálum í sögulegu samhengi í Helgarblaði DV 23. – 26. maí 2014.

[10] Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, spurði til dæmis í leiðara blaðisns: „Ef umsækjendur eru vafasamir pappírar, á ekki almenningur í landinu rétt að upplýst sé um það?“

[11] Mjög nýlega voru ný útlendingalög samþykkt á álþingi sem taka muni gildi um næstu áramót. Þau fela í sér ýmsar breytingar til batnaðar.

[12] Sjá: http://www.althingi.is/altext/127/02/r05140314.sgml

[13] Sjá t.d. umfjöllun Stundarinnar frá 7. apríl 2015: http://stundin.is/frett/haelisleitendur-hrakholum/

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a comment