Upphaf og forsendur flóttamannamála: VI. Hluti

Umdeildir samningar um málefni flóttafólks

Í takt við þá þróun sem rakin er hér að framan hefur umræðan um málefni flóttamanna breyst. Áður snerist vandinn um að vernda og tryggja öryggi fyrir fólk á flótta en á síðustu fimmtán árum eða svo hefur áherslan snúist alveg við og nú er iðulega rætt um hvernig megi vernda Evrópu og vesturlönd almennt gegn hælisleitendum og flóttamönnum. Því að þó ólöglegt sé að koma til Evrópu heldur örvæntingarfullt fólk áfram að finna smugur í veikri von um að geta átt þolanlegt líf og  byggt sér manneskjulega tilveru. Sá sem hefur engu að tapa nema lífinu sjálfu leggur allt í sölurnar og þess vegna blómstra ólöglegir fólksflutningar um hættulega krókstigu smyglhryngja og glæpaklíka. Líbía hefur orðiðin  miðstöð fyrir slíkan flutning flóttamanna frá Afríku að ströndum Evrópu, einkum Ítalíu. Eftir því sem óöldin í Líbíu magnast minnkar áhersla á landamæraeftirlit og  því er tiltölulega auðvelt að smygla fólki yfir landamærin og áfram yfir Miðjarðarhafið. Sömu sögu er að segja um ástandið í Sýrlandi og Írak. Þetta hefur enn veikt stöðu flóttafólks og sumir komast aldrei úr ánauð smyglhringjanna sem krefjast himinhárra greiðslna fyrir að koma fólki yfir Miðjarðarhafið eða eftir öðrum leiðum til Evrópu.

Samfara þessari þróun hefur orðspor flóttafólks beðið hnekki. Svo rammt kvað að andúð og ótta í garð hælisleitenda og flóttamanna í Bretlandi að Jack Straw, þáverandi utanríkisráðherra, hótaði að segja landið frá Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið 2004. Hin siðferðilega krafa um mannhelgi og mannvirðingu sem algild mannréttindi hvíla á og  upphaflega var látið í veðri vaka að væru undirstaða flóttamannasamningsins, hafði algjörlega gleymst í umræðunni sem fyrst og fremst var farin að snúast um glæpi hælisleitenda og þörfina til þess að vernda íbúa og lönd Evrópu gegn þeim. Sem betur fer varð þó ekki af því að Bretar segðu sig frá samnignum. Slíkt fordæmi hefði getað reynst afdrifaríkt fyrir þær milljónir berskjaldaðra einstaklinga sem þvælast um heiminn í leit að öruggum samastað. Á endanum var þessari hugmynd alfarið hafnað af flestum Evrópulöndum, en þó ekki fyrr en Danmörk, Írland og Austurríki höfðu lýst yfir áhuga á því að ræða möguleikann nánar. Sama ár bauð Straw Tansaníu fjórar milljónir punda í aðstoð gegn því að taka við hópi flóttafólks frá Sómalíu sem hafði verið synjað um hæli í Bretlandi og byggja upp einhverskonar flóttamannabúðir fyrir það.[1] Enn átti þannig að sópa vandamálinu undir teppið, losa Evrópu við að horfast í augu við vandann og koma meiri ábyrgð á þau fátæku lönd sem þegar báru og bera enn hitann og þungann af flóttamannavandanum.[2] Tansanía hafnaði tilboði breska utanríkisráðherrans, en mannréttindaheimurinn stóð á öndinni yfir því að þessu hugmynd hefði svo mikði sem komið fram og fengið þó þær undirtektir sem raunin varð.

Í lok árs 2010 gerði Evrópusambandið margra milljóna evra samning til þriggja ára við Líbíu um að auka landamæragæslu, uppbyggingu skrifstofu sem hefði það hlutverk að annast málefni flóttamanna, rekstur flóttmannabúða og almennt erftirlit með flóttamönnum.  Áhersla var lögð á að stöðva þannig eða draga úr straumi þeirra flóttamanna sem leggja  upp frá ströndum Líbíu í von um líf í Evrópu. Þegar orðspor Líbíu í mannréttindamálum er haft í huga er gjörsamlega óskiljanlegt að slíkur samningur hafi verið gerður.[3] Ekki kom þó til farmkvæmda samkomulagsins þar sem 17. febrúar byltingin, sem leiddi til falls Gaddafi stjórnarinnar, hófst aðeins nokkrum mánuðum eftir að Mousa Kousa, Štefan Füle og Cecilia Malmström undirrituðu samfkomulagið í Trípólí í október árið 2010. Í átökunum sem Arabíska vorið leiddi af sér reyndi Gaddafi stjórnin að nota neyð flóttafólks sem skiptimynt í ógeðfelldri pólitík og hótaði Evrópu með því að ef leiðtogar álfunnar ekki styddu stjórnvöld gegn uppreisninni myndi straumur flóttafólks til Evrópu aukast en straumur olíur minnka.[4] Ráðamenn í Evrópu létu þó ekki undan þeim þrýstingi.

Fjórum árum síðar, í september 2014  varð samningur af þessu tagi að veruleika þegar Ástralir, sem undanfarin tíu til fimmtán ár hafa rekið grjótharða og miskunnarlausa stefnu í málefnum flóttamanna, gerðu samning við Kambódíu um að reka flóttamannabúðir fyrir hluta þeirra flóttamanna sem koma að ströndum Ástralíu í von um betra líf. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sendi af því tilefni frá sér yfirlýsingu þar sem stofnunin lýsti yfir áhyggjum af samningnum og fordæminu sem hann setur.[5]

Í mars 2016 gerði Evrópusambandið enn á ný afar umdeildan samning um flóttamenn og hælisleitendur, að þessu sinni við Tyrkland sem undan farna mánuði hefur veið gátt flóttamanna inn í Evrópu. Samningurinn kveður á um að  flóttamönnum sem koma ólöglega yfir landamæri Tyrklands inn í Grikkland verði snúði til baka, og fyirr hvern og einn sem snúið er við muni Evrópa taka á móti einum flóttamanni frá Sýrlandi sem dvaldi í Tyrklandi áður en samkomulagið tók gildi, 20. mars. Þeir flóttamenn fái hæli í þriðja landi (reyndar eru fá lönd sem hafa lýst sig reiðubúin til að taka þátt í verkefninu svo vandséð er hvert þetta fólk á að fara).

Með þessu vinnst tvennt: létt er á flóttamannaverkefninu í Tyrklandi og færri eiga möguleika á að koma í hælisleit til Evrópu. Samkvæmt samkomulaginu eiga Tyrkir að sortera frá þá sem ekki falla undir flóttamannasamninginn og snúa þeim til síns heima. Jafnframt felur samningurinn í sér vegabréfsheimild fyrir tyrkneska ríkisborgara að ferðast til Evrópu (sem þýðir til dæmis að kúrdar geta ferðast vandræðalaust til Evrópu og sótt um hæli) sem og aukinn fjárstuðning til verkefna fyrir þann mikla fjölda flóttamanna sem nú dvelur  í Tyrklandi – og til að mæta aukinni umsýslu um hælisumsóknir. Enn komu fram háværar gagnrýnisraddir sem lýstu efasemdum um að samningurinn stæðist kröfur um aðbúnað og umsýslu um málefni flóttafólks, og margir bentu á að vafasamt væri að framkvæmt hans stæðist yfir höfuð þau lög og regluverk sem um málefni flóttafólks fjalla.Stór hluti þeirra flóttamanna sem koma sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklandsa.eru frá Írak og Afganistan, hvað um þá verður er óljóst í samkomulaginu. Almennt eru menn sammála um að þessar hömlur á för fólks muni verða til þess að auka á neyð þeirra, örvæntingarfullt fólk sem hefur engu að tapa mun halda áfram að finna leiðir – þó þær séu lífshættulegar – í von um líf og öryggi fyrir sig og sína. Hætt er við að mannúðarvandinn muni vinda upp á sig. Stór hluti þeirra flóttamanna sem fer þessa leið eru konur og börn sem freista þess að sameinast fjölskyldumeðlimi sem fór á undan til að ryða brautina – gleymum því ekki að um helmingur sýrlenskra flóttamanna eru börn undir 18 ára aldri. Menn óttast að með samkomulaginu milli Evrópusambandsins og Tyrkja munu fleiri deyja á leiðinni en verið hefur, þar sem skásta leiðin lokast.  [6]

Hvaða áhrif þetta mun hafa á stöðu flóttamanna  á enn eftir að koma í ljós, en því miður eru fáar vísbendingar um að breytingar séu fyrisjáanlegar á meðferð og viðhorfum til þeirra sem leita til Vesturlanda í leit að þeirri vernd sem þeim ber samkvæmt flóttamannasamningum.[7] Eftir árásir Al – Kaída í Bandaríkjunum 11. september árið 2001 og nýlegar hryðjuverkaárásir í Evrópu varð umræðan enn fordómafyllri og afdráttarlausari en áður. Það var beinlínis talið lífsspursmál fyrir vesturlönd að halda hælisleitendum og útlendingum í burtu.

[1] Caroline Moorehead (2005): bls, 176.

[2] Langflestir flóttamenn í heiminum hafast við í fátækari löndum heimsins, árið 2013 var áætlað að 86% flóttamanna hefðu leitað skjóls í þróunuarlöndunum, og hafði hlutfallið aukist um 10% frá árinu 2003. Flestir voru flóttamennirnir í Pakistan, um 1.6 milljón. Næst á eftir komu Íran (857.400), Líbanon (856.500), Jórdanía (641.900)og Tyrkland (609,900), þá Kenía (534.900), Chad (435.500), Eþjópía (433.900), Kína (301.00) og loks Bandaríkin (263.600). Rúmur helmginur allra flóttamanna í heiminum, 56%, hafðist við í þessum tíu löndum árið 2013. Sjá nánar: http://www.unhcr.org/5399a14f9.html

[3] http://europa.eu/rapid/press-release_MEMO-10-472_en.htm?locale=en og   http://www.theguardian.com/commentisfree/2010/oct/20/eu-refugee-libya-gaddafi

[4] Sjá til dæmis umfjöllun í kaflanum Arabíska vorið í: (Anna Lára Steindal, ásamt Ibrahem Faraj, 2015): Undir fíkjutré – saga af trú, von og kærleika. (Sögur, Reykjavík).

[5] Sjá: http://www.unhcr.org/542526db9.html

[6] Sjá t.d.: http://www.migrationpolicy.org/news/paradox-eu-turkey-refugee-deal

[7] Í júlí 2013 höfðu 145 lönd af um tvöhundruð löndum í heiminum gerst aðilar að samningnum.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a comment