Upphaf og forsendur flóttamannamála: V. Hluti

Víggirðing Evrópu.

Árið 1999 var farið að leggja línurnar fyrir sameiginlega stefnu Evrópu í málefnum hælisleitenda og um leið hófst uppbygging þess sem kallað hefur verið víggirðing álfunnar.[1] Um leið varð miklum mun erfiðara fyrir fólk á flótta undan átökum eða ofsóknum að komast löglega til Evrópu og fleiri leituðu á náðir smyglhringja og komu ólöglega. Um leið voru hælisleitendur stimplaðir sem lögbrjótar og glæpahyski sem braust óvelkomið og ólöglega til Evrópu. Varðhaldsbúðir tóku að byggjast upp í Evrópu, einskismannslönd í stíl við flóttamannabúðirnar sem sumar er í raun fangelsi því hælisleitendum er ekki heimilt að yfirgefa búðirnar. Með þessu móti er reynt að koma í veg fyrir að hælisleitendur hverfi niður á botn samfélagsins og hefji líf sem ólöglegir innflytjandur, ósýnilegir og réttindalausir. Eftir því sem regluverkið verður strangara, því fleiri telja sig ekki eiga annara kosta völ en hverfa inn í Evrópu á þann hátt. Sá sem er ólöglegur er samkvæmt skilgreiningu brotamaður, óvelkominn, sem geriri líf viðkomandi enn erfiðara á nýjum stað. Því fleiri sem hverfa ólöglega inn í samfélög Vesturlanda, því meira kapp leggja stjórnvöld á að herða eftirlit og regluverkið í kringum hælisleitendur og vandinn hefur undið upp á sig undanfarin ár. Þetta er vítahringur sem sífellt þrengist,  vandinn sem hann elur af sér getur aðeins endað með skelfingu ef ekkert verður að gert.

Ein afleiðing þessa er sú að stöðugt hefur þeim flóttamönnum fjölgað sem freista þess að koma sjóleiðina, ólöglega til Evrópu. Ítalía og Grikkland  hafa borið hitann og þungann af móttöku og eftirliti með komu þessa fólks, enda ná flestir strönd eða drukkna í hafi undan ströndum Ítalíu eða Grikklands. Á undanförnum árum hefur fjöldi þeirra sem drukkna á leiðinni margfaldast, einsog ítrekað hefur verið fjallað um í fréttum, og er áætlað að meira en tíu þúsund manns hafi drukknað í Miðjarðarhafinu undan farin þrjú ár, þrátt fyrir umfangsmeiri strandgæslu en verið hafði. Athygli Evrópu og heimsins alls beindist að þessu vandamáli í október árið 2013, en þá hvolfdi bát undan ströndum eyjunnar Lampedusa með þeim afleiðingum að þrjúhundruð sextíu og sex manns fórust.[2] Í kjölfarið efndu ítalir til átaks í strandgæslu og eftirliti á Miðjarðarhafi, verkefnið var kallað Mare Nostrum sem er latneska heiti Miðjarðarhafsins. Átakið skilaði góðum árangri en var mjög dýrt í framkvæmd. Á einu ári var meira um hundrað og fimmtíu þúsund flóttamönnum bjargað á hafi. En vegna kostnaðar var verkefninu hætt í október árið 2014. Um ári eftir að það hófst. Evrópusambandið tók þá við eftirlitinu og um leið var mjög dregið úr því.[3] Bretar  höfnuðu þátttöku í verkefninu, sögðust ekki styðja skipulagða leitar- og björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi þar sem slíkt hefði hvetjandi áhrif á flóttafólk til þess að leggja vanbúið til atlögu við hafið sem skilur að óttann við eymd og dauða í heimalandinu og voninan um líf og tækifæri í Evrópu. Í febrúar 2015 hvolfdi þremur bátum bátum og meira en þrjúhundruð fórust. Í apríl varð enn mannskæðara slys þegar um þúsund manns fórust. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2015 er áætlað að um 1700 manns hafi drukknað í draumnum um betra líf. Fjölmiðlar, mannúðar- og mannréttindasamtök fjölluðu ítrekað um málið og í lok apríl komu ráðamenn í Evrópu loksins saman til þess að ræða um viðbrögð við vandanum og sett var saman tíu liða aðgerðaráætlun til að bæta aðstæður flóttafólks. Ekki náðist samstaða um áætlunina og hún liðaðist í sundur. En fólk hélt áfram að koma og deyja. Í september 2015 fór myndin af  Alyan litla Kurdi, þriggja ára dreng sem drukknaði á leiðinni frá Tyrklandi til Grikklands ásamt móður sinni og bróður einsog eldur í sinu um samfélags- og fréttamiðla heimsins.Alyan varð um stund táknmynd þess gríðarlega mannúðarvanda sem aðstæður flóttafólks eru. En áður en yfir lauk lægði reiðiöldurnar, samúðarbylgjan hneig og aðstæður flóttafólks breyttust lítið. Þvert á móti hafa átök um málefni flóttafólks aukist og sömuleiðis harðlínustefna við verndun landamæra og aðgerðir til að halda flóttafólki frá Evrópu.

Eftir því sem fleiri drukkna í hafi hefur umræða um málefni flóttamanna þó orðið háværarir.  Flóttamannastofnun  og ýmis félagsamtök sem berjast fyrir mannréttindum og mannvirðingu hafa bent á að berskjaldað fólk á flótta er fórnarlömb, en ekki glæpamenn, og því ber að veita vernd og liðsinni í samræmi við alþjóðasamninga. En rödd Flóttamannastofnunarinnar og talsmanna flóttamanna er varla orðin annað lágt muldur. Fjárframlög  stofnunarinnar höfðu verið skorin verulega niður og hún var því illa í sveit sett til að takast á við þann gríðarlega flóttamannavanda sem braust út árið 2015. Þeir sem þó styðja enn fjárhagslega við starf hennar leggja áherslu á hjálparstarf meðal flóttamanna þar sem þeir eru staddir en vilja síður taka þátt í verkefnum sem miða að því að bjóða fólki að setjast að í Evrópu eða auðvelda þeim ferðalagið þangað. Vandinn er bara sá að allar bjargir þar sem flóttamenn hafa leitað fyrstu griða eru uppurnar – fjöldinn er of mikill til að nágrannalöndin ráði við hann.

Þannig hafa viðbrögðin verið við vanda þeirra 60 milljón flóttamanna sem nú er talið að  hrekist um í leit að öryggi og skjóli. Áhersla er lögð á að styðja stofnanir og félagasamtök sem vinna með flóttafólki í nágrannlöndum stríðshrjáðra svæða sem fólk er að flýja – löndum sem eru löngu komin að þanmörkum og geta ekki sinnt verkefninu í samræmi við kröfur mannréttindasamninga og almennar kröfur um velferð og mannvirðingu. Svíþjóð og Þýskaland eru undantekning frá þessari reglu, en bæði löndin hafa lagt áherslu á ábyrgð Evrópu og mikilvægi þess að standa undir henni. Önnur lönd hafa þó ekki svarað kalli í nógu ríkum mæli, og nú er svo komið að ágreiningur milli Evrópulanda vegna flóttamannamála hefur vaxið. Á meðan Evrópa tekst á um verkefnið sitja milljónir manna fastar í svartholi flóttamanna- og varðhaldsbúða víðs vegar um heiminn, stundum á jaðri samfélaga í Evrópu þar sem aðstæður er skelfilegar. Þar situr fólk fast, án samfélags og tækfifæra.

[1] Fortress Europe á ensku.

[2] Í lok september 2014 gaf Amensty International út skýrslu um aðstæður flóttamanna sem freista þess að komast yfir Miðjarðarhafið, eftirlit, aðbúnað og möguleika. Í skýrslunni kemur fram hörð gagnrýni á Evrópusambandið og stranga löggjöf í málefnum hælisleitenda og tregðu sambandsins til þess að taka á flóttamannavandanum sem fer stögugt vaxandi, án þess að Evrópa taki ábyrgð. Í skýrslunni er hvatt til þess að flóttamönnum verði gert auvðeldara að koma löglega til Evrópu, til dæmis í gegnum fjölskyldusameiningu, ð breytingar verði gerðar á Dyflinarreglugerðinni svo fólk geti sótt um hæli þar sem það kýs og fjöldi þeirra sem fá tækifæri sem kvótaflóttamenn í Evróp aukinn. Sjá nánar: http://www.amnesty.org/en/library/info/EUR05/006/2014/en

UNHCR lagði fram sambærilega kröfu, en skýrsla Amensty fór hærra. Sjá t.d: http://www.unhcr.org/542d12de9.htm l

[3] Sjá t.d. umfjöllun á ruv frá 14. Febrúar 2015: http://www.ruv.is/frett/enn-streymir-flottafolk-fra-afriku

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a comment