Upphaf og forsendur flóttamannamála – II. Hluti

 

Róðurinn þyngist

Þegar málefni fólks á flótta komust á dagskrá snerist aðstoð við flóttamenn fyrst og fremst um að aðstoða fólk sem hafði lent á vergangi við að snúa aftur heim og Rauði krossinn hafði frá upphafi hlutverki að gegna í því ferli. En þegar ljóst var að ekki vildu allir – eða gátu – snúið heim fór róðurinn að þyngjast. Í kjölfar kreppunnar miklu sem hófst árið 1933, árð sem Þjóðarbandalagið kom á fót flóttamannahjálp fyrir þýska Gyðinga, syrti enn í álinni. Í kjölfar kreppunnar hertu Vesturlönd mjög reglur um innflytjendur, þar á meðal flóttamenn. Stjórnvöld töldu sig ekki aflögufær og flóttafólk stóð uppi án verndar eða aðstoðar. Undir þrýstingi frá gyðingasamfélaginu í Bandaríkjunum samþykkti Roosvelt forseti Bandaríkjnna þó að beita sér fyrir því að haldin yrði áðstefna í Evian-les-Bains í Frakklandi í júlí árið 1938 þar sem ræða átti vanda Gyðinga og lausn á honum. Þrjátíu og tvö lönd sendu fulltrúa á ráðstefnuna sem stóð yfir í níu daga. Allir lýstu yfir samúð með málstað Gyðinga en tefldu jafnframt fram afsökunum fyrir því að aðhafast ekkert og þegar upp var staðað reyndist ekkert þeirra landa sem tók þátt í ráðstefnunni tilbúið til þess að opna landamæri sín fyrir Gyðingum á flótta með lífið sjálft að veði. Rökin voru ævinlega þau sömu: flóttafólkið hefði slæm árhif á efnahag landanna.[1]  Efnahagslegar og pólitískar ástæður vour því látnar vega þyngra en líf fólks. Afleiðingarnar þekkjum við, áætlað er að 5 – 6 milljónir Gyðinga hafi glatað lífinu í Þýskalandi nasismans.

Að lokinni heimsstyrjöldinni síðari er áætlað að um fjörutíu milljónir manna hafi verið á flótta í Evrópu eftir hildarleik átakanna; þjóðverjar sem reyndu að freista þess að snúa aftur heim, fólk sem hafði lifað af dvöl í útrýmingarbúðum, einstaklingar sem höfðu misst land sitt og heimili þegar landamæri voru færð til með einu pennastriki á Evrópukortinu. Flestir voru á vergangi innan landamæra Þýskalands þar sem innviðir samfélagsins höfðu hrunið. Full af skömm eftir að hafa brugðist Gyðingum gjörsamlega hófu Vesturlönd undirbúning að því að koma flóttafólki í álfunni til bjargar. Þegar árið 1943 höfðu fulltrúar bandamanna komið saman til þess að ræða viðbrög við flóttamannavandanum að stríði loknu og fjörutíu og fjögur ríki samþykktu að láta umtalsvert fé af hendi rakna til að aðstoða flóttafólk og hjálpa því að snúa aftur til síns heima. Á fyrstu fimm mánuðum eftir að friður komst á fengu þrír fjórðu hlutar flóttamanna aðstoð Sameinuðu Þjóðanna, sem stofnað var til árið sem heimsstyrjöldinni lauk formlega – 1945, við að snúa aftur heim. Fljótlega varð þó ljóst að ekki gátu allir snúið til baka. Árið 1946 var enn ein milljón manna föst í flóttamannabúðum í Evrópu og sýnt að annarra lausna varða að leita á málefnum þess hóps. Hér var ekki endilega um að ræða fólk sem ekki fékk að snúa til baka vegna andstöðu stjórnvalda í heimalandinu, þvert á móti voru margir í þeirri stöðu að stjórnvöld vildu ólm fá flóttamennina heim þar sem þeirra beið fangelsun eða eitthvað enn verra þar sem margir í þessum hópi voru álitnir svikarar við málstað heimalandsins.

Það var við þessar aðstæður sem hugmyndin um mannréttindi, einstaklingsbundinn rétt hverrar manneskju til tiltekinna gæða, fór að ryðja sér til rúms. Áður hafði verið horft á flóttamenn sem hóp sem glimdi við sameiginlegan vanda, en það breyttist þegar hér var komið sögu. Mannréttindayfirlýsing sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 undistrikar þessa breytingu með því að leggja áherslu á einstaklingsbundin mannréttindi. Þar á meðal er rétturinn til að flýja ofsóknir í heimalandi og rétturinn til skoðana- og trúfrelsis sem tók á vanda þeirra einstaklinga sem voru strandaglópar í Evrópu og gátu ekki snúið heim vegna þess að þeir höfðu lent upp á kant við stjórnvöld í heimalandinu og gátu búist við að sæta ofsóknum eða refsingum fyrir skoðanir sínar og hugmyndir. Ekki var lengur litið á flóttamenn sem einsleitan hóp, heldur einstaklinga sem hver hafði sínar ástæður til þess að vera á flótta, sem hver bar með sér sinn sérstæða heim drauma, vona og hugmynda. Hér má því segja að hafi verið kominn fyrsti hópur hælisleitenda í Evrópu, fólk í þörf fyrir vernd gegn ofsóknum heima fyrir. Athygli beindist nú að því hvernig mætti vernda þessa einstaklinga og í fjórtándu grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna segir: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“

Fyrsti vísirinn að flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði það markmið að hjálpa fólki að snúa heim, nú gerðu menn sér betur grein fyrir því að finna þyrfti lausn á málum þeirra sem ekki stóð slíkt til boða af einhverjum ástæðum og í ársbyrjun 1947 tók til starfa ný stofnun, Alþjóðastofnun flóttamanna[2] sem starfaði á öðrum forsendum. Í þetta sinn var markmiðið að liðsinna flóttafólki sem ekki gat snúið heim við að setjast að á nýjum stað. Stofnunin mætti mikilli andstöðu frá ríkjum Austur Evrópu sem lögðu áherslu á að flóttafólkið sneri aftur heim. Sovétríkin neituðu þátttöku og sökuðu Vesturlönd um að ástunda andkommúnískan áróður í flóttamannabúðum sem undir stofnunina heyrðu og nýta þá sem þar dvöldust sem ódýrt vinnuafl til þess að byggja upp eftir stríðið. En mikilvægt skref hafði samt sem áður verið stigið í málefnum flóttamanna með því að viðurkenna lágmarks ábyrgð alþjóðasamfélagsins gagnvart þeim einstaklingum sem ekki áttu í neinn stað að venda vegna hættu á ofsóknum heima fyrir.

Á þeim rúmlega fjórum árum sem Alþjóðastofnun flóttamanna starfaði er áætlað að innan við fimmtíu þúsund manns hafi snúið til síns heima. Hraust, vinnandi fólk fékk fljótlega tækifæri til að setjast að  á nýjum stað, fékk vinnu í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og löndum Evrópu og ríkisfang í kaupbæti. Smátt og smátt týndust „góðu“ flóttamennirnir til nýs lífs en eftir sátu þeir sem voru verðlítil skiptimynt í kalda stríðinu, þar á meðal aldraðir, fatlaðir og sjúkir. Hægt og bítandi misstu þeir sem höfðu haft forgöngu um stofnun Alsþjóðastofnunar flóttamanna og lagt mest til hennar, Bandaríkin, áhuga á málinu og hættu að veita fé til verkefnisins og stofnunin var aflögð árið 1950. Pólitískir hagsmunir voru ekki lengur í húfi í jafn ríkum mæli þar sem Bandaríkin höfðu nú þróað nýtt vopn í baráttunni við útbreiðslu kommúnískra hugmynda í Evrópu, Marshallaðstoðina, sem meðal annars var notuð til uppbyggingar á Íslandi. Marshallaðstoðin var markvissara vopn og Bandaríkjamenn færðu rök fyrir því að sú aðstoð myndi óbeint gagnast flóttamönnum. Þá voru enn um fjögurhundruð þúsund manns í flóttamannabúðum Evrópu og verkefnið sem menn töldu í fyrstu vera tímabundið vandamál, enn þá óleyst. Hvað átti að gera við þetta fólk? Hver bar ábyrgð á því?[3] Hvernig nýttist fjórtánda grein Mannréttindayfirlýsingarinnar þeim sem eftir sátu í flóttamannabúðum og eygðu nú litla von um breytingar til hins betra í lífi sínu? Hversu traustur var sá siðferðilegi grunduvöllur sem mannréttindi hvíla á þegar á reyndi?

[1] Nánar á: http://www.ushmm.org/outreach/en/article.php?ModuleId=10007698

[2] International Refugee Organization.

[3] Caroline Moorehead (2005): bls, 36

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Upphaf og forsendur flóttamannamála – I. Hluti

Minning frá Solferino

Árið 1859 var svissneski ævintýramaðurinn Henri Dunant á leið á fund Napólenos Bónaparte Frakkakeisara í tengslum við viðskiptahugmynd sem hann dreymdi um að hrinda í framkvæmd í Alsír. Alsír var þá frönsk nýlenda og til þess að auka líkurnar á skjótum og góðum samningum um það sem upp á vantaði til að gera drauminn að veruleika ákvað hann freista þess að semja beint við sjálfan Napóleon, enda skorti Dunant hvorki kjark né áræði í þeim verkefnum sem hann tók sér fyrir hendur. Dunant var því ekkert að tvínóna við hlutina og lét það ekki vefjast fyrir sér að Napóleon, sem var ekki bara keisari og þjóðhöfðingi í Frakklandi heldur einnig yfirstjórnandi franska hersins, var staddur með her sinn nálægt bænum Solferino í norð-austur hluta Ítalíu þar sem hann barðist við hlið Ítala gegn Austuríkissmönnum í því sem hefur verið kallað síðara sjáflfstæðisstríð Ítalíu. Þangað skundaði Henri Dunant með höfuðið fullt af draumum um ábatasöm viðpskipti. En viðskiptaferðin til Solferino átti eftir að breyta lífi Dunants á annan hátt en hann átti von á. Þegar hann loks náði á fund Napóleons var hann skyndilega staddur mitt í  grimmilegri orrustu, Heljarslóðarorrustu, þar sem þrjúhundruð þúsund hermenn bárust á banaspjótum í miklu návígi. Orrustan, sem sögð er sú blóðugasta í sögu nítjándu aldarinnar,  stóð yfir í fimmtán klukkustundir þar til austurríski herinn og bandamenn hörfuðu. Áður en yfir lauk lágu fjörutíu þúsund hermenn í valnum, fallnir eða særðir. Hryllingurinn sem Dunant upplifði á vígvellinum var ólýsanlegur, en þó reyndi hann að lýsa því sem hann hafði orðið vitni að í lítilli bók sem kom út þremur árum seinna og bar titilinn Minningar frá Solferino.

Við þessar ömurlegu aðstæður gleymdi Dunant öllum viðskiptadraumum og einhenti sér í að hlúa að særðum og deyjandi hermönnum í samstarfi við konur úr nærliggjandi þorpum, enda mannvinur mikill sem hafði látið sig mannúðarstarf varða frá unga aldri. Engar skipulagðar læknasveitir voru að störfum á vígvellinum og sjúkrahús og heilbrigðisstarfsfólk í nálægum bæum réði ekki við að sinna særðum. Dunant og hjálparsveit hans kom upp sjúkraskýlum í nærliggjandi krikjum og annars staðar þar sem því mátti koma við.  Margir dóu af sárum sem auðveldlega hefði mátt lækna, hefði aðstaða og hjálparlið verið fyrir hendi. Dunant tók að sér að skipuleggja hjálparstarf á vígvellinum og fór ekki í manngreinarálit, allir sem voru hjálpar þurfi fengu þá aðstoð sem Dunant og aðstoðarfólk hans gat veitt. Dunant var fyrst og síðast knúinn áfram af mannúðarhugsjón, þörfinni til að hjálpa og láta manneskjur ekki þjást meira en óhjækvæmilegt var. Hjálparliðarnir voru merktir með merki um arminn: rauðum krossi á hvítum grunni. Þannig unnu hjálparsveitir Dunants dag og nótt við að hlúa að særðum og sjúkum, skrásetja hinstu skilaboð hinna deyjandi til ástvina og sýndu þannig mannúð mitt í ringulreiðinni og hryllingnum.

Upphaf alþjóðlegra mannúðarlaga

Þegar Dunant sneri heim átti hann erfitt með að hrista af sér áhrifin sem þessi reynsla hafði á hann og braut í sífellu heilann um hvernig mætti koma í veg fyrir að atburðirnir í Solferino endurtækju sig. Hvernig koma mætti í veg fyrir að menn létu lífið að ósekju og hvernig mætti stuðla að því að þeim sem ekki var hægt að bjarga fengju að deyja með reisn, fullvissir um að ástvinir fengju upplýsingar um örlög þeirra og endalok. Hvernig mætti vernda fórnarlömb stríðs. Dunant var enginn kjáni og vissi að það var til lítils að láta sig dreyma um að aldrei yrðu háð fleiri stríð, svo ekki var hægt að koma í veg fyrir þjáningar fórnarlamba í stríði með þeim hætti. Miklu frekar yrði að finna skilvirkar og áhrifaríkar leiðir til þess að koma einhverjum böndum á hvernig menn högðu sér í stríði og tryggja fórnarlömbunum átakanna lágmarksréttindi, aðstoð og mannvirðingu. Í bókinn sem Dunant gaf út þremur árum síðar lýsti hann orrustunni við Solferino og lagði til að stofnaðar yrðu óháðar hjálparsvetir, skipaðar sjálfboðaliðum, sem nytu skilyrðislausrar friðhelgi og hefðu það hlutverk að hlúa að særðum hermönnum óháð því hvorum megin víglínunnar þeir særðust eða hvaða her þeir tilheyrðu.[1]

Kannski má segja að það hafi verið heppni að Henri Dunant, náunginn sem slysaðist inn í Heljarslóðarorrustu, var Svisslendingur. Genf var þá tiltöulega lítil borg en íbúar litu á sig sem upplýsta en íhaldssama mannvini. Þeir voru stoltir af umsvifamiklu mannúðarstarfi sem stýrt var frá Genf, enda höfðu Svisslendingar tekið ákvörðun um að vera hlutulausir í þeim átökum sem skuku Evrópu og því vel í stakk búnir til beita sér fyrir mannúðarstarfi í álfunni. Svisslendingar voru einnig stoltir af því hversu vel var jafnan tekið á móti útlendingum sem kusu að setjast að í landinu, ekki síst þeim sem voru í þörf fyrir skjól og vernd frá stjórnvöldum í heimalandinu vegna skoðana sinna. Rithöfundurinn og heimspekingurinn Voltaire hafði til dæmis sest að í Genf árið 1755 eftir að Lúðvík 14. gerði hann útlægan frá París fyrir frjálslyndar skoðanir sínar og gagnrýni á valdhafa. Í hugum Svisslendinga var fengur í slíku fólki og hugmyndum þess. Aðstæður í Sviss voru því ákjósanlegur jarðvegur fyrir ákall Dunants um óháðar alþjóðlegar hjálparsveitir og ráðamenn gripu hugmyndina um mannúð mitt í stríðshörmungum á lofti. Fljótlega var farið að semja lagaramma um framgöngu í stríði, drög voru lögð að hinum svo kölluð Genfarsamningum. Fyrsti Genfarsamningurinn, sem samþykktur  var á ríkjaráðstefnu í Genf árið 1864,  markar upphaf reglna um alþjóðlegan mannúðarrétt sem hefur það að markmiði að veita einstaklingum ákveðna lágmarksvernd á ófriðartímum. Síðan hafa nokkrir samningar bæst við upphaflega plaggið, eftir því sem stríðsátök breytast og þörfin fyrir vernd um leið.[2]

Árið 1863 var stofnuð alþjóðleg mannúðarhreyfing til þess að halda utan um verkefnið, Rauði krossinn, sem í dag er stærsta mannúðarhreyfing í heimi með starfsemi í tvöhundruð löndum (íslenski Rauði krossinn fagnaði níutíu ára afmæli sínu árið 2014) og hundruði þúsunda sjálfboðaliða sem sinna mannúðarstarfi þar sem þörfin er brýn um allan heim. Höfuðstöðvar Rauða kross hreyfingarinnar eru enn í Genf í Sviss og samtökin eru enn verndari alþjóðlegra mannúðarlaga þó að starfsemi Rauða krossins í heild hafi þróast og eflst og taki í dag til fleiri þátta en aðstoðar við fórnarlömb stríðsátaka. Árið 1919 stofnuðu landsfélög Rauða krossins regnhlífarsamtök, Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans[3], sem styður við og samhæfir starf landsfélaganna að mannúðarstarfi sem ekki er endilega tengt átökum. Þar á meðal er uppbyggingastarf eftir náttúrhamfarir, hjálparstarf á meðal fátækra og berskjaldaðra innan lands og utan, ýmis verkefni á sviði heilbrigðis og heilsugæslu og allar götur síðan málefni flóttamanna komust á dagskrá hefur Rauði krossinn gegnt hlutverki í málsvarastarfi fyrir flóttamenn í þörf fyrir stuðning og vernd.

Þannig hefur verið byggt upp net sjálfboðaliða sem vinnur eftir sömu grundvallarhugsjóninni um mannúð og hlutleysi um allan heim, einsog Dunant lét sig dreyma um. Alþjóðaráð Rauða krossins er í dag sjálfstæð stofnun sem hefur eftirlit með því að þau ríki sem fullgilt hafa  Genfarasamningana fari eftir þeim í raun og gegnir jafnframt því hlutverki að breiða út þekkingu á samningunum og mannúðarlögum. Rauði krossinn í heild sinni hefur því ríkum skyldum að gegna við að kynna og breiða út þær hugsjónir mannúðar og mannvirðingar sem mannúðarlögin grundvallast á og allt síðan fyrsta ríkjaráðstefnan var haldin í Genf árið 1864 hafa leiðtogar heimsins komið saman í Genf með reglulegu millibili, síðast árið 2014,  til þess að ræða hvernig best megi tryggja virðingu fyrir mannúðarlögunum og markmiðum þeirra og uppfylla þau í reynd þannig að þau bæti aðstæður fórnarlamba átaka.  Alþjóðaráðið heimsækir einnig stríðsfanga og vinnur málsvarastaf í þeirra þágu og starfrækir leitarþjónustu sem hefur það að markmiði að sameina fjölskyldur og ástvini sem sundrast í stríði og náttúruhamförum. Þannig er hugsjón Dunants orðinn að lifandi veruleika í lífi milljóna manna sem njóta þeirra verkefni sem Rauði krossinn sinnir um heim allan á hverjum tíma.

Þær tillögur að mannúðarlögum sem samdar voru á árunum 1863 – 1864, á upphafsárum Rauða kross hreyfingarinnar, voru ekki fyrstu tilraunirnar til þess að setja reglur í stríði. En þær voru metnaðarfyllri og hlutu meiri hljómgrunn en fyrr tilraunir.  Með eindregnum stuðningi við stofnun Rauða krossins, og áherslu á að hlutleysið sem tryggt var í friðarsamningunum í Vestfalíu 1648 þegar Sviss varð sjálfstætt ríki og aftur Vínarsáttmálanum 1815,[4]  gerði Sviss sig gildandi sem leiðandi afl í mannúðar- , friðar- og mannréttindamálum í Evrópu.

Það var því ekki að undra að þegar milljónir manna stóðu upp sem landlausir flóttamenn í Evrópu eftir niðurbrot austurrísk-ungverska keisaradæmisins (1918), Ottómanveldisins (1922) og rússneska keisaradæmisins (1918) í kjölfar endaloka heimsstyrjaldarinnar fyrri að horft var til Genfar um stofnun samtaka eða stofnunar sem hefði það hlutverk að ráða fram úr vanda flóttamannanna sem voru á vergangi eftir stríðið. Þá þegar hafði Þjóðabandalagið[5] verið stofnað í Genf og Rauði krossinn hafði allt frá stofnun látið sig málefni fólks á flótta og fórnarlömb átaka varða og þar hafði því ákveðin þekking orðið til. Genf virtist því rétti staðurinn til þess að bregðast við flóttmannavanda Evrópu eftir heimsstyrjöldina og árið 1921 var norski landkönnuðurinn Fridtjof Nansen fenginn til þess að semja um að fimm hundruð þúsund rússneskir stríðsfangar fengju að snúa heim. Næsta ár, 1922, var Nansen skipaður framkvæmdastjóri flóttamannamála hjá Þjóðarbandalaginu. Hans fyrsta verk var að semja um að fá viðurkennd ferðaskilríki fyrir landlausa flóttmenn  – Nansen skilríkin[6]  – og svo sneri hann athygli sinni að því að aðstoða hundruðir þúsunda flóttamanna sem eigruðu stefnulaust um Evrópu en vildu  komast aftur til síns heima, í Búlgaríu, Rúmeníu, Armeníu og víðar.

Nansen vann baki brotnu að því að liðsinna flóttamönnum sem vildu snúa heim og þegar hann lést, árið 1930, hafði honum tekist nokkuð vel að sá fræi þeirrar hugmyndar að Evrópa bæri siðferðilega ábyrgð gagnvart fólki á flótta eftir stríðið. Þegar á reyndi var þó lítið hald í því fyrir fólk sem sætti ofsóknum heima fyrir og þeir Gyðingar sem leituðu hælis undan ofsóknun nasista hlutu ekki náð fyrir augum ráðamanna í Evrópu þrátt fyrir að árið 1933 hafi Þjóðabandalagið komið á fót stofnun sem hafði sérstaklega með málefni Gygðinga í  Þýskalandi að gera. Málefni þeirra voru álitin innanríkismál og ekki var pólitískur vilji til þess að styggja stjórnvöld í Þýskalandi með afskiptum af meðferð þeirra. Árið 1938 gekk Þýskaland úr Þjóðabandalaginu, en áfram skorti kjark og vilja í Evrópu til að koma Gyðingum til bjargar.[7]

Allt frá upphafi hafa pólitískar ástæður þannig vegið þyngra en siðferðilegar í málefnum fólks í þörf fyrir alþjóðlega vernd. Krafa Henri Dunants um skilyrðislausa og hlutlausa vernd gagnvart fórnarlömbum átaka  náði því ekki fyllilega í gegn þegar til þess kom að veita flóttamönnum, og síðar berskjölduðum einstaklingum í hælisleit, vernd og skjól í heiminum. Dunant, mannvinurinn sem með elju sinni lagði drög að stærstu mannúðarhreyfingu í heimi, var líka fljótlega ýtt út úr verkefninu. Viðskiptaplönin sem hann lagði upp með á fund Napóleons keisara runnu út í sandinn, enda eyddi Dunant meiri tíma í mannúðarstarf en viðskipti, og Dunant og aðrir sem höfðu fjárfest í hugmyndum hans hlutu umtalsverðan fjárhagslegan skaða af. Dunant varð gjaldþrota og hrökklaðist úr hringiðunni í Genf og hvarf af sjónarsviðinu. En áfram var unnið með hugmyndirnar sem hann tefldi fram eftir reynslu sína í Soferino. Árið 1895 var Dunant þó lyft aftur á stall, honum voru m.a. veitt fyrstu friðarverðlaun Nóbels árið 1901 ásamt franska hagfræðingnum Frédéric Passy.[8] Arfleifð Dunants lifir því enn og milljónir manna um allan heim njóta betra lífs og mannvirðingar vegna elju hans við að hrinda hugmynd í framkvæmd, hugmynd sem fól í sér  að sýna mannúð mitt í miskunnarleysinu sem álvalt fylgir stríði og vopnuðum átökum.

[1] Sjá: http://www.redcross.org.uk/en/About-us/Who-we-are/Museum-and-archives/Historical-factsheets/The-Battle-of-Solferino

[2] Sjá: http://www.raudikrossinn.is/page/rki_umokkur_genfarsamningar_samningarnir

[3] Í löndum Íslam er merki hreyfingarinnar Rauður hálfmáni á hvítum grunni.

[4] Friðarsamningarnir í Vestfalíu bundu enda á Þrjátíu ára stríðið, röð styrjalda sem áttu sér stað í Þýskalandi á árunum 1618 til 1648. Öll helstu stórveldi Evrópu drógust inn í átökin sem lengi vel voru talin þau skæðustu í Evrópu allt fram til Napóleonsstyrjaldanna. Vínarsamningurinn 1815 var samstarfssamningur Austurríkis, Bretlands, Prússlands og Rússlands um samstarf til þess að bregðast við endurkomu Napóleons til Frakklands eftir að hann var dæmdur í útlegð. Sviss var ekki aðili að þeim samningi og hélt hlutleysi sínu.

[5] Þjóðabandalagið var undanfari Sameinuðu þjóðanna

[6] Sjá t.d: https://www.princeton.edu/~achaney/tmve/wiki100k/docs/Nansen_passport.html

[7] Caroline Moorehead (2005): A Journey Among Refugees: Human Cargo, Picador, Henry Holt and company, New York, bls. 33.

[8] Sjá: http://www.nobelprize.org/nobel_prizes/peace/laureates/1901/dunant-bio.html

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Brýnasta viðfangsefni samtímans?

Málefni innflytjenda eru að þokast æ ofar á dagskrá stjórnmála á Íslandi og sem viðfangsefni í samfélaginu almennt.

Á Íslandi eru nú um 10% íbúa ef erlendum uppruna og ekkert útlit fyrir að innflytjendum á Íslandi muni fækka á næstunni. Þvert á móti gera spár ráð fyrir því að flytja þurfi inn fólk til þess að manna störf á Íslandi í náinni framtíð. Þá fjölgar einnig þeim sem leita til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd, en áætlað er að um á bilinu 600 – 800 manns komi í hælisleit til Íslands árið 2016. Rauði krossinn á Íslandi býr sig undir að þjónusta allt að 1000 hælisleitendur á árinu. Miðað við tölur á fyrsta ársfjórðunig 2016 má áætla að um og yfir helmingur þeirra umsókna sem fái efnismeðferð fá jákvæða afgreiðslu, og að um helmingur umsókna fái efnismeðferð. Þannig gæti allt að 250 manns fengið alþjóðlega vernd á árinu.

Um leið og fjölgar í hópi þeirra sem hljóta alþjóðlega vernd á Íslandi breytist samsetning innflytjendahópsins þannig að fólki frá t.d. Mið Austurlöndum og Afríku fjölgar frá því sem nú er, en  yfirgnæfandi meirihluti innflytjenda á Íslandi nú er frá Evrópu.  Því má segja má að Íslandi standi á krossgötum með fjölbreytileikasamfélagið og sú leið sem við veljum í allra nánustu framtíð mun ráða úrslitum um hvernig samfélagið á Íslandi þróast.

Tækifæri til lærdóms

Málefni innflytjenda eru tiltölulega nýtt viðfangsefni á Íslandi. Fyrsta stefnan í málefnum innflytjenda var samþykkt á Alþingi árið 2007 og 2009 samþykktu Samtök sveitarfélaga sambærilega stefnu. Því miður eru þessar stefnur ekki mjög virkar og talsvert vantar upp á innleiðingu þeirra. Fyrirliggjandi er ný aðgerðaráætlun í málefnum innflytjenda sem bíður umræðu á Alþingi. Með nýrri aðgerðaráætlun skapast ný tækifæri til að sinna fjölmenningarmálum markvissar og þar af leiðandi met betri árangri.

Á Íslandi hófst saga fjölmenningar mun síðar en í löndunum í kringum okkur sem veitir Íslendingum tækifæri til þess að læra af því sem miður fór í Evrópu. Mikilvægasti lærdómurinn sem draga má er að líkindum sá, að nauðysnlegt er að samræma verkefni og þjónustu, efla samvinnu og samræðu og byggja brýr milli innflytjenda og nýs samfélags. Á þetta leggur ný aðgerðaráæltun einmitt áherslu. En einnig skiptir mjög miklu máli að skýra hugmynda- og aðferðafræði og útfæra leiðir sem tryggja að innflytjendur séu raunverulegir þátttakendur í samfélagi, njóti jafnra tækifæra, hafi sömu réttindi til þjónustu og geri sér grein fyrir þeim skyldum sem þeir bera gagnvart samfélaginu. Þetta er kannski mesta áskorunin þegar kemur að sambúð ólíkra einstaklinga sem bera sameiginlega ábyrgð á samfélagi.

Skýrslur og rannsóknir sem gerðar hafa verið á högum og aðstæðum innflytjenda benda til þess að ekki hafi náðst eins góður árangur og æskilegt er í fjölmenningarverkefninu á Íslandi. Þar á meðal er tölfræðiskýrsla Fjölmenningarseturs frá 2015[1] og skýrsla Rauða kross Íslands Hvar þrengir að? sem kom út árið 2014.[2] Samkvæmt þessum skýrslum búa of margir innflytjendur við skert tækifæri og eiga erfiðara en Íslendingar með að nýta réttindi sín. Innflytjendum er hættara við fátækt, hlutfallslega fleiri börn úr innflytjendafjölskyldum eru viðfang barnaverndarmála, innflytjendur á Íslandi hafi að meðaltali lægri laun en Íslendingar, fordómar eru að aukast og um leið vanlíðan innflytjenda í samfélaginu. Innflytjendur eru sumir hverjir að einangrast á jaðrinum án tækifæra og samfélags. Þá erum við ekki að nýta sem skyldi mannauðinn sem innflytjendur bera með sér, sem eykur enn á gremju innflytjenda sem upplifa ekki að þeir séu metnir að verðleikum.

Fordómar og mismunun leiða í ógöngur

Ef ekki verður brugðist við þessu ástandi mjög fljótt aukast líkurnar til þess að við festumst í vítahring sem erfitt getur reynst að rjúfa. Þegar fordómar og mismunun ná að festa rætur og verða hluti af samfélagsgerðinni elur það af sér meiri fordóma og misunun sem flestir eru líklega sammála um að sé óæskileg þróun. Ef litið er til Evrópu má sjá afleiðingarnar sem þetta ástand geta skapað.

Stærstu mistökin sem við erum að gera, og endurtaka nánast óbreytt frá því sem var í Evrópu þegar fjölmenningarverkefnið var að hefjast þar, er að setja ábyrgð á aðlögun of einhliða á innflytjendur. Innflytjendur geta ekki staðið undir þessari ábyrgð einir því þeir hafa ekki nægilega þekkingu á íslensku samfélagi og fæstir hafa nógu gott vald á íslensku til að afla sér slíkra upplýsinga, til að geta uppfyllt þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Það tekur langan tíma að ná góðu góði valdi á nýju tungumáli til þess að geta aflað sér flókinna upplýsinga um kerfi og samfélag (margir sem hafa íslensku að móðurmáli eiga fullt í fangi með að skilja þessi kerfi), að ég tali nú ekki um sögu, hefðir, reglur og menningu lands. Hér verður að koma til samráð, samræða og stuðningur í miklu ríkari mæli en á sér stað á Íslandi í dag.

Vandann má orða á þessa leið: gerð er rík krafa til innflytjenda um aðlögun að íslensku samfélagi og íslenskukunnáttu – á sama tíma er aðgengi til þátttöku, þjónustu og upplýsinga erfitt – en þegar innflytjendur ekki ná að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru er það notað sem tæki til mismununar (ekki síst tungumálið). Þannig þróast kerfi sem mismunar fólki eftir uppruna.

Þessi vítahringur mun leiða okkur í sömu ógöngur og Evrópa er í nú ef ekki tekst að rjúfa hann á meðan innflytjendasamfélagið á Íslandi er ungt. Reynsla Evrópu kennir okkur að það er með annarri kynslóð sem áskoranir fara að hlaðast upp, takist ekki að tryggja börnum innflytjenda sem fæðast og vaxa úr grasi á Íslandi tækifæri til jafns við aðra mun það leiða til nýrrar stéttskiptingar og sundrungar og mögulega átaka er fram líða stundir.

Ísland hefur enn tíma til að bregðst við þessu og tryggja borgurum á Íslandi sem jöfnust tækifæri til samfélagsþáttöku, óháð uppruna. Enn er yfirgnæfandi meirihluti innflytjenda á Íslandi fyrsta kynslóð – við höfum tíma til að bæta okkur áður en önnur kynslóð vex úr grasi. En við megum þá ekki láta reka á reiðanum – því tíminn er NÚNA!!

[1] Sjá t.d. skýrslu Fjölmenningarseturs frá 2015: http://www.mcc.is/media/frettir/Til-birtingar-2015-3.pdf

[2] https://www.raudikrossinn.is/media/skyrslur/hvar_threngir_ad_2014–1-.pdf

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Mikilvægasta verkefni samtímans?

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Niqab eða ekki niqab? Um listina að lifa saman og mikilvægi samræðunnar

Þegar ég var að vafra um netfréttamiðla yfir morgunkaffinu rak ég augun í frétt á mbl.is sem fjallar um að sex stúlkum hafi verið vísað úr framhaldsskóla í Lyngby í Danmörku fyrir að klæðast niqab – svörtum kufli sem hylur frá toppi til táar, þar á meðal andlit. Rök skólayfrvalda voru af kennslufræðilegum toga ef svo má segja, þ.e. því er haldið fram að kennsla byggist á samskiptum og erfitt sé að eiga samskipti þegar ekki sést í andlit þess sem átt er í samskiptum við. Því hafi verið tekin ákvörðun um að banna niqab í kennslustundum, en eftir sem áður geti konur sem klæðist niqab stundað fjarnám.

Þessi lesning fékk mig til að hugsa enn á ný um mikilvægi þess að Íslendingar setjist niður og spái í þessa hluti áður en til þess kemur að við þurfum að banna eitthvað sem fólk er þegar að gera sem óhjákvæmilega er líklegra til að hafa árekstra og leiðindi  í för með sér en ef fólk veit að hverju það gengur frá upphafi. Og nei, þetta hefur ekkert með fordóma gagnvart íslam eða trú Múslima að gera heldur þær grunnforsendur sem íslenskt samfélag hvílir á.

Sjálf hef ég aldrei séð neinn klæðast niqab á Íslandi, en hef óstaðfestar heimildir um að ein til tvær konur klæðist þannig fatnaði hér á landi. Kannski ákveðum við, eftir samræðu, að það sé ekkert að því að klæðast niqab á Íslandi. En sú ákvöðrun þyrfti að mínum dómi að grundvallast á ákvörðun sem er niðurstaða skynsamlegrar samræðu. Á rökum og skiliningi en ekki tilfinningum og ótta. Og sem flestir sem málið varða þyrftu að eiga aðgengi að þeirri samræðu.

Af hverju er nauðsynlegt að eiga þessa samræðu? Vegna þess að það er mjög líklegt að ef við ræðum þetta ekki núna – þá mun þetta valda ágreiningi síðar.

Ég hef oft átt í samræðu við samstarfsfólk og vini sem eru Múslimar um þetta viðfangsefni, og þau eru undantekningarlítið sammála mér um mikilvægi þess að ræða þessa hluti – og miklu fleiri áskoranir sem við þurfum að vinna með ef okkur á að takast að ástunda farsællega það sem ég kalla listina að lifa saman. Múslimar á Íslandi vilja búa sér líf í sátt við samfélagið – það er þeim ekkert kappsmál að ástunda hefðir sem eru á skjön við reglur og hefðina á Íslandi. Alls ekki og þvert á móti vilja þau vanda sig.

En til þess að geta lifað saman þurfum við að hafa skýra sýn og plan um hvernig við ætlum að gera það, og þessa sýn og þetta plan þarf að útfæra áður en til ágreinings kemur og með tilliti til sjónarmiða allra, eða að minnsta kosti sem flestra, sem málið varðar. Við þurfum að læra af mistökum annarra – í Danmörku og víðast í Evrópu var farið of seint af stað í þessa umræðu – sem enn hefur tæplega náð því að verað samræða.  Umræðan er ad hoc – viðbrögð við ástandi sem af einhverjum ástæðum er talin ástæða til að bregðast við og það sem verra er, á sér staða á krísutímum þar sem á stundum skortir á yfirvegun og yfirsýn og traust milli þeirra aðila sem takast á um hugmyndir í umræðunni.

Á Íslandi höfum við tækfifæri til að gera þetta öðruvísi – leggja línurnar áður en til ágreinings kemur. Ef við ekki hefjum hreinskipta samræðu, leggjum miklu meiri áherslu á aðlögunarplan sem virkar í báðar áttir og er niðurstaða samtals og samvinnu, þá mun þessi ágreiningur koma upp á Íslandi líka. Það er bara spurning um tíma. Því miður fer lítið fyrir slíku plani – mín reynsla er sú að við bjóðum jú  í einhverjum (en allt of litlum) mæli upp á samfélagsfræðslu – en slík fræðsla er ekki samræða heldur einræða. Ekki díalógur um hvernig við getum komist að sameiginlegum útgangspunkti sem virðir þau grunngildi sem íslenskt samfélag hvílir á og við erum stolt af en virðir jafnframt rétt ólíkra einstaklinga til að sníða tilveru sinni umgjörð.

Sumt af því sem er ásteitingarsteinn milli Múslimasamfélagsins í Evrópu og samfélagsins á víðari grunni hefur þegar komið upp á Íslandi, ég hef sjálf tekið þátt í að leysa slíkan ágreining farsællega í sátt og samlyndi við alla þá sem málið varðar, m.a. þær fjölskyldur sem í hlut eiga og ímaminn sem þær leita til eftir leiðsögn. Ég get tekið dæmi af sundferðum stúlkna og sundfatnað, rétti ungra kvenna til þess að velja sér lífsförunaut, samstarf við skóla um arabísku kennslu, samskipti fólks í hjónabandi og fleira. Aldrei hefur komið upp mál sem ekki var hægt að leysa farsællega með tillti til sjónarmiða þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og grunngilda íslensks samfélags. Ég veit þess vegna að þetta er hægt. En það kostar tíma og fyrihöfn – sem mun borga sig margfalt þegar fram í sækir.

Undanfarnar vikur og mánuði hef ég verið á ferðinni að vekja athygli á því hvað okkur – sem samfélagi – er tamt að setja ábyrgðina á því hvernig fjölmenningarsamfélagið á Íslandi þróast á innflytjendur – þeir bera ábyrgð á því að tileinka sér réttu hugmyndirnar, gildin og viðhorfin. En hvernig geta þeir staðið undir þeim væntingum ef við skýrum ekki hvaða kröfur við gerum til þeirra og leitumst ekki við að útskýra hvers vegna það er mikilvægt að leggja sig fram við að standa undir þeim? Þeir sem koma nýjir inn í samfélagið okkar þekkja ekki alltaf þær hefðir, gildi,  siði og reglur sem eru við hæfi  – til þess að geta axlað ábyrgð á eigin aðlögun og farsælu lífi á Íslandi þurfa innflytjendur á Íslandi á samræðunni að halda. Útskýra þarf þær grunnforsendur sem samfélagið á Íslandi hvílir á,  til hvers er ætlast og já, við þurfum líka vera tilbúin til þess að hlusta á rök fyrir því að sumar hugmyndir sem við höfum um aðlögun eru kannski ekki grundvallaðar á traustum rökum þegar nánar er að gáð.

Í gegnum samtalið og rökræðuna getum við búið okkur sameiginlega sýn, talað okkur niður á sameiginlegan útgangspunkt sem greiðir fyrir góðum samskiptum og sambýli í fjölbreytti samfélagi. Í þessu felst listin að lifa saman.

,

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Hugmyndir skapa samfélag

Í gær var ég á ferðinni með Juan vini mínum og samstarfsfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum að halda fyrirlestra í skólum og fyrir sjálfboðaliða Rauða krossins á Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði um dulda fordóma og listina að lifa saman. Einsog oft gerist þegar við Juan erum að ferðast notuðum við ferðatímann til þess að rökræða hugmyndir og samfélög og hugmyndir í samfélögum og hvernig það form eða kerfi sem hugsun okkar er sniðin ræður því hvernig veruleika við framleiðum með þessum hugsunum. Það er stórkostlegt að fá þetta tækifæri til þess að ferðast um landið og hitta og spjalla við fólk sem lifir og hrærist í alskonar samfélögum, stórum og smáum, um land allt. Hlusta á viðhorf og hugmyndir og skoða hvernig ólíkar hugmyndir sem blómstra og þróast í ólíkum samfélögum leiða af sér ólíka sýn á viðfangsefnið sem við erum að fjalla um á þessum ferðalögum; fjölmenningu og listina að lifa saman.

Hugmyndir framleiða veruleika

Samfélög grundvallast nefnilega fyrst og fremst á hugmyndum – og þær hugmyndir sem eru ríkjandi í samfélagi leggja grunn að þeim kerfum sem við sníðum sameiginlegri tilveru okkar og stýra þar með viðhorfum til svo ótal margra hluta í nær- og fjærsamfélaginu. Oftast gerist þetta án þess að við gerum okkur grein fyrir því – margir sem við höfum hitt gerðu sér ekki grein fyrir því að við höfum öll val um hvernig við hugsum og þar með hverskonar samfélag við framleiðum með hugsunum okkar, hugmyndum, samskiptum og afstöðu. Það sem við hugsum og framkvæmum  – sem einstaklingar og hópar –ræður því hvernig samfélagi við lifum og hrærumst í. Verkefni okkar Juan er að hvetja þá sem við hittum til þess að gera sér grein fyrir þessu vali – og velja það sem er líklegast til þess að leggja drög að samfélagi byggt á þeim gildum sem við erum flest sammála um að ættu að vera  í forgrunni og við metum án þess þó að leiða hugann að því hvernig við getum lífgað þessi gildi sem afli í veröldinni í stað þess að vera bara dauðar hugmyndir í kollinum á okkur.  Hér á ég við gildi og hugmyndir á borð við sanngirni, mannréttindi, lýðræði, kærleika, samstöðu og traust. Allir sem við höfum hitt eru sammála um mikilvægi þessara gilda – en margir höfðu ekki gerst sér grein fyrir þeirri persónulegu áskorun og samfélagslegu ábyrgð sem á okkur hvílir við að gera þau að lifandi veruleika. Hvort það tekst eða ekki veltur á því hvernig við hugsum – hvert og eitt okkar og við saman sem samfélag.

Er hugsun okkar opin og gagnrýnin – og gerir ráð fyrir þróun og lærdómi og þeim möguleika að það sem er framandi og ólíkt því sem við eigum að venjast geti kennt okkur eitthvað dýrmætt, bætt einhverju við tilveru okkar, gert líf okkar ríkara, betra, áhugaverðara?  Eða er hún lokuð og stöðnuð – í andstöðu við það sem er framandi og ólíkt því sem við eigum að venjast?

Tortímandi afl

Við Juan teljum að fyrri kosturinn sé líklegri til árangurs en bendum jafnframt á það í fyrirlsestrinum okkar að það er ekki alltaf auðvelt að temja sér slíka hugsun. Að tileinka sér viðhorf sem byggjast á trausti og samvinnu frekar en ótta og sundrungu er erfitt. Það krefst hugrekkis og heilinda. Og þetta er krefjandi verkefni – við þurfum að hugsa meira þegar við ástundum opna og gagnrýna hugsun. Við þurfum að hafa áræði til að standa berskjöldið frammi fyrir veruleikanum og efast um þann grundvöll sem tilvera okkar hvílir á og þiggjur merkingu sína frá.  Og mörgum vex það í augum – það er einfaldara og þægilegra til skamms tíma litið að halda sig innan þægindarammans, setja hugann á auto pilot og ýta frá sér öllu sem er framandi, sérkennilegt og óþægilegt. Samþykkja bara viðteknar hugmyndir – sem guð má svo vita hvaðan koma. Fyrir einstaklinga er þetta kannski auðvelda leiðin  (en um leið takmarkandi) – en fyrir samfélög sem er umgjörð um líf ólíkra hópa og einstaklinga skapar þessi afstaða ágreining, sundrungu og vesen þegar til lengri tíma er litið. Í raun er skortur á opinni og skapandi hugsun  eyðileggjandi – skortur á gagnrýni á hugmyndir og hefðir í samfélagi er tortímandi afl. Það sjáum við skýrt þegar við rýnum í sögu fjölmenningar í Evrópu.

Mikilvægust skilaboðin sem við Juan erum að ferðast með um landið eru því þessi: til þess að bæta samfélagið og byggja grunn sem geriri okkur kleift að ástunda með góðum árangri listina að lifa saman þurfum við opna hugann og hjartað og temja okkur virðingu fyrir fjölbreytileikanum og læra að vinna með hann þannig að tekist sé á við áskoranir á gagnrýninn hátt  (því þær eru vissulega til staðar) en kostirnir makrvisst nýttir til þess að byggja betra samfélag fyrir alla, veruleika sem hentar betur á 21. öldinni – öld tilfinninganna einsog franski stjórnmálaheimspekingurinn Dominique Moïsi kallar öldina sem við lifum nú og er réttnefni.  Við Juan höfum nefnilega uppgtövað á þessum ferðum okkar að afstaða Íslendinga til fjölmenningar og þess sem hún felur í sér grundvallast  fyrst og fremst á tilfinningum. – ekki rökum

Þetta er mjög skiljanlegt. Og við þurfum í sjálfu sér ekki annað en að framkvæma einfalda hugsanatilraun til að átta okkur á því að við erum undir gríðarlegri pressu um að tileinka okkur gagnrýnslaust viðhorf og hugmyndir sem við erum mötuð á í gegnum fjölmiðla og samfélag og sem  grundvallast á tilfinningum en ekki gagnrýnni skoðun eða hugsun – sem er tímafrek og meira vesen.  Hugsum bara um fjölmenningu og viðhorf okkar til hennar – og spyrjum svo hvers vegna höfum við þetta viðhorf?

Þrætulist eða rökræður?

Ég hef komist að því  að tvennskonar svör eru algengust – í  raun eru það tvær andstæðar tilfinningar sem togast á um hylli okkar: ótti og réttlætistilfinning. Óttinn við að það sem er framandi, undarlegt, óvenjulegt og óskiljanlegt (við fyrstu sýn)  eyðileggi eitthvað dýrmætt sem við eigum og viljum ekki glata.  Og óþol gagnvart því óréttlæti sem alstaðar virðist blasa við og mun ef ekkert er að gert eyðileggja eitthvað dýrmætt sem skiptir okkur máli – samkennd, mannvirðingu, sanngirni, rélttlæit, líf. Og mér finnst áberandi hvernig átök eða ágreiningur á milli þeirra sem aðhyllast hvort sjónarhorn um sig er að ágerast  – og málið verður að þrætulist en ekki rökræðu.

Í samtalinu undanfarna mánuði hef ég uppgötvað að ótti er ríkur í þeim sem hafa lokaða afstöðu, for – dóma –  gegn fjölmenningu. Óttinn við að glata einhverju dýrmætu – menningu, efnislegum gæðum, tungumáli.  Og af óttanum leiðir stundum fyrirlitning, vantraust, óbilgirni og andúð í garð þess eða þeirra sem eru ekki „einn af okkur“ og eru uppsrpetta óttans.. Þar með er þeim ýtt út á jaðarinn þar sem tilfinningar einsog sorg, reiði og örvænting fara að gerjast og við erum komin í vítarhing sem elur af sér meiri fordóma á báða bóga. Fordómar eru í þessum skilining forspá sem rætist af sjálfu sér. Við framköllum ástandið sem við óttumst með hugmyndum okkar. Þeir neikvæðu eiginleikar sem við tileinkum þeim sem koma nýir inn í samfélag raungerast í því samfélagi  og þeim kerfum sem hugmyndin leiða af sér.  Við höfum séð hryllilegar afleiðingar þessa – til dæmis í Brussel og París.

Þegar við óttumst fólk eða hugmyndir höfum við tilhneigingu til þess að sjá bara neikvæðu hliðina (og höfum þá um leið neikvæða afstöðu) og alhæfum og einföldum um of. Fólk er ekki eilfít og óumbreytanlegt frekar en samfélagið sem við búum í – þegar hugurinn og hjartað er opið lærum við nýja hluti, tileinkum okkur ný viðhorf og aðferðir við að lifa lífinu.  Vöxum og breytumst sem manneskjur í nýjum veruleika. Þannig verður eitthvað nýtt og dýrmætt til – þeir sem koma nýir inn í samfélagið læra og við lærum líka og saman hrærum við í nýjan veruleika, nýtt samfélag sem getur opnað nýja möguleika og sýn. En til þess að þetta geti gerst þarf grundvallarforsenda kerfanna sem sníða samfélaginu umgjörð að ráða við fjölbreytileikann – og gera ráð fyrir honum.  Fyrst og síðast þurfum að tala saman og treysta hvert öðru. Einlæg samræða, að tala saman og hlusta hvert á annað, er frosenda slíks kerfist. Ef okkur tekst að tryggja samræðuna og traustið kemur hitt af sjálfu sér. Það erum við Juan sannfærð um.

Við höfum líka áttað okkur á því á ferðum okkar að þeir sem eru hvað gagnrýnislausastir í garð fjölmenningar stjórnast ekki síður af tilfinningarökum, þessari knýjandi tilfinningu að við þurfum að gera eitthvað strax í óréttlæti heimsins – bregðast við en ekki eyða tíma í að hugsa. Þetta vihorf er skiljanlegt að nokkru leyti finnst mér, en sneiðir samt hjá því sem mestu rmáli skiptir. Að vera gagnrýnin á kerfin sem við lifum og hugsum í.  Hér hættir okkur nefnilega líka til þess að einfalda og alhæfa og horfa ekki á heildarmyndina – hugsa málið ekki frá upphafi til enda. Vandinn sem við viljum bregðast við er partur af kerfisgalla sem hugmyndir okkar í fortíð og nútíð hafa skapað  og hverfur ekki nema við ráðumst að rótum hans – gefum okkur tíma til gagnrýninnar hugsunar og rökræðu og þess að finna nýja, sameiginlega lausn. Kapp er best með forsjá.

Ýmislegt í íslensku samfélagi bendir til þess að við þurfum að endurskoða algjörlega þær hugmyndir og aðstæður sem við – hvert og eitt og sem samfélag – framleiðum með hugsunum okkar, viðhorfum og athöfnum.

Það er engin auðveld leið út úr þessu verkefni – það eina sem við getum gert er að opna huga og hjarta, ástunda gangrýna hugsun og hreinskipta samræðu sem byggir á rökum ekki síður en tilfinningu.Feta hinn gullna meðalveg.

Hér er allt undir – eða ekkert!

Posted in Uncategorized | Leave a comment

“Við” og “hinir” – um val, ábyrgð og listina að lifa saman

Sennilega er ekkert verkefni sem samfélög í Evrópu standa frammi fyrir eins knýjandi og málefni sem varða fjölbreytileikann – listina að lifa saman! Að greiða fyrir sem átakaminnstri sambúð fólks af ólíkum uppruna, með ólíkan menningarlegan, trúarlegan og hugmyndafræðilegan bakgrunn sem deilir samfélagi og þurfa annað hvort að finna leiðir til að lifa saman í friði og spekt – eða vera sundruð í ótta og átökum.

Að hörfa til baka til einsleitra samfélaga og þess tíma þegar hinir fáu og valdamiklu réðu gangi sögunnar er ekki valkostur – þó stundum mætti ætla af umræðinni að svo væri. Það er útilokað að hverfa aftur til einsleitninnar einfaldlega vegna þess að hnattvæðingin hefur þvingað okkur í sambúð, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Það eru alskonar flóknar og einfaldar ástæður fyrir því. Ein er sú að nútíma upplýsingatækni færir okkur óhjákvæmilega nær hvert öðr, útvíkkar samfélagshutakið  – við vitum miklu meira um heiminn en áður og með nýrri vitneskju skapast ný ábyrgð.

Önnur ástæða er sú að vald hefur færst mjög til – meðal annars frá valdaelítu til borgaralegra afla sem virða engin landamæri . Joseph S. Nye jr. fjallaði um þetta í bók sinni The Future of Power sem kom út árið 2011 og sagði að á 21. ödinni haf vald færst svo mjög til að ekki væru lengur mögulegt að nálgast heiminn út frá gamla módelinu sem skilgreinir veruleikann út frá hinni einföldu „við“ og „hinir“ heimssýn. Það kerfi hrundi í raun með Berlíanarmúrnum en það er önnur saga. Í inngagni bókarinnar segir hann: Á þessari öld er tvennskonar tilfærsla á valdi að eiga sér stað – valdfærsla milli ríkja og valdfærsla frá öllum ríkjum til borgaralegra afla. Þessi drefing valds til þess sem Nye kallar borgaraleg öfl – til dæmis fyrirtækja, félagasamtaka, mannúðarsamtaka og fjölþjóðlegar samsteypa – skapast í kjölfar breiðara aðgengis að almennum upplýsingum og möguleikum til samstars þvert á landamæri um allt milli himins og jarðar.

Um leið og þessi breyting á sér stað öðlumst við innsýn og þekkingu á  hugmyndafræðilegum veruleika annarra manna og kvenna um allan heim – öðlumst nýjan skilning á veröldinni.  Þetta hefur  breytingar og áskoranir í för með sér fyrir einstaklinga í heiminum – meðal annars þá að ábyrgð og skyldur gangvart tilverunni – veröldinni sjálfri – verða allt í senn víðari, sterkari og umfangsmeiri.

Því meira sem þú veist um það sem er óréttlátt, ósanngjarnt, óásættanlegt – því meiri ábyrgð hvílir á þér til að gera eitthvað til að koma í veg fyrir óréttlætið, láta það ekki viðgangast óáreitt. Þegar maður einu sinni hefur fengið upplýsingar um ranglæti getur maður ekki snúið sér undan og látið einsog það komi manni ekki við. Þannig virkar siðferði – vitneskju fylgir ábyrgð.

Þetta eru reynda ekki allir til í að samþykkja. Margir vilja meina að siðferðilegaer skyldur okkar nái ekki út fyrir endimörk þess samfélags sem við búum í – hvað sem við annars vitum um heiminn. Við berum ábyrgð á þeim sem næst okkur standa en getum ekki látið okkur allt heimsins óréttlæti varða. Vandi heimsins komi okkur í raun ekki beint við sem einstaklingum heldur eigi hann heima á borði alþjóðastjórnmála. En af því að alþjóðapólítk snýst ekki um einstaklinga heldur ríki sé marklaust að flækja málin með siðferðilegum pælingum – um ábyrgð og skyldur. Aðeins manneskjur bera ábyrgð og eru undirseldar siðferðinu- alþjóðapólitík fjalli ekki um manneskjur og því eigi krafan um siðferði ekki við.

Og þar liggur hundurinn grafinn. Heimurinn er breyttur – en við þrjóskumst enn við að hugsa um hann á gamaldags forsendum sem skipta veröldinni í tvennt og látum það eftir okkur að hugsa ekki út fyrir endimörk okkar eigin landamæra: annars vegar erum það við – og hjá okkur, sem berum ábyrgð hvert á öðru, er allt gott og réttátt. skynsamlegt og friðsælt ef við fáum bara að hafa okkar fram í friði.  Hins vegar eru það svo hinir – en þeir koma okkur ekki mjög mikið við og hjá þeim er flest undarelgt, óréttlátt, barabarískt og ógnvekjandi. Ef hinir búa ekki innan okkar samfélags koma þeir okkur strangt til tekið ekki við og mega svo sem dedúa það sem þeim sýnist. En ef þeir hafa troðið sér inn í samfélag okkar eiga þeir að aðlagast okkur- svo koma megi í veg fyrir allt óæskilegt sem annars gæti hlotist af.

Hinir eru ekki alltaf spenntir fyrir því – einsog dæmin sanna –  vilja bara fá að vera í friði einsog þeir eru og stundum jafnvel vera ýktasta  útgáfan af sjálfum sér. Af þessu skapast ástand sem hin svo kallaða sjálfsmyndpólítk (identiy policits) glímir við.  Og lýsir sér í endalauri glímu og átökum milli hópa sem deila veröld og samfélagi.

Mest knýandi spurningin sem við – sem samfélag – stöndum frammi fyrir er því þessi: Ætlum við að halda áfram á þessari braut? Eða finna nýja leið?

Í rauninni er fjölmenningarprójektið komið á þann stað að einu valkostirnir sem blasa við, hvort sem það er innan einstakra samfélaga eða milli þeirra, eru nútímaleg samvinna og málamiðlun eða gamaldags átök og óbilgirni.

Einsog staðan blasir við núna virðist Evrópa hafa gertu upp hug sinn – og ætla að áfram að feta átakaleiðina.  Deilur og átök innan einstakra samfélaga eru daglegt brauð – þær opinberuðust til dæmis í hörmulegum hryðjuverkum í Brussel sem eru okkur enn í fersku minni og viðbrögðum öfgahægrisins á friðarsamkomu til minningar um fórnarlömin. Uppgangur stjórnmálaafla sem talar gegn innflytjendum og flóttamönnum – já fjölbreytileikanumsjálfum – er önnur birtingarmynd þess hvernig Evrópa er feta átakaleiðina. Og það sígur stöðugt á ógæfuhliðna. Við erum löngu komin að þeim tímapunkti sem þetta hættir að vera bara pólitík og verður verkefni sem við berum persóunlega ábyrgð á að vinna úr – með viðbrögðum okkar og afstöðu.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr er þetta fyrst og fremst siðferðilegt vandamál.

Við höfum val – þess vegna berum við ábyrgð.

“Við” og “hinir”

Það er alveg merkilegur andskoti hversu ríka tilhneigingu við höfum til þess að draga fólk svona í dilka vegna þess að allir sem hafa ferðast með opinn huga og hjarta um heiminn, unnið að miklvægum verkefnum þvert á landamæri, trú og menningu eða safnað sér vinum úr öllum áttum  vita að þegar ofan í kjölinn er kafað erum við öll við  – manneskjur. Það eru engir hinir í heiminum – flokkunin á sér stað þegar við túlkum og skilgreinum heiminn. Að draga er í dilka er ekki náttúruögmál heldur val.

Við höfum val – þess vegna berum við ríka áybrgð

Inn við beinum erum við öll eins – með sömu drauman um að rækta sambönd við þá standa okkur næst, lifa góðu lífi sem einkennist af kærleika og því að njóta verðleika og sannmælis. Blómstra sem manneskjur

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Skýrsla Europole um hryðjuverk – getur Ísland breytt einhverju?

Í morgun var ég að glugga í skýrslu Europol um hryðjuverk og þróun mála þegar kemur að hryðverkum og skipulögðu ofbeldi í Evrópu árið 2014. Ýmsilegt forvitnilegt kemur fram í skýrslunni (sem lesa má hér: file:///C:/Users/Notandi/Downloads/p_europol_tsat15_09jun15_low-rev.pdf   ) þó fæst komi á óvart. Því miður verður skýslan fyrir 2015 talsvert óhuggulegri – fleiri og mannskæðari hryðjuverk voru framin í Evrópu 2015 en 2014 auk þess sem flóttmannapólitíkin í Evrópu á árinu 2015 hrærði upp ólgu sem hefur ýtt undir uppgang öfgahægrisins – árásir á flóttamenn og dvalarstaði þeirra jukust til dæmis gríðarlega í Þýskalandi og Svíþjóð á árinu 2015.  Slíkt ofbeldi er einsog olía á eld öfgafullra íslamista – hvort sem þeir heita Daesh, Al Kaída eða eitthvað annað – sem nota veika stöðu innflytjenda sem búa margir hverjir við skert tækifæri í fjölmenningarsamfélögum Evrópu, bága stöðu og vaxandi andúð í garð flóttamanna sem leita öryggis og skjóls í Evrópu, hernaðarbrölt Vesturlanda í Miðu Austurlöndum í efnahagslegum og pólitískum tilgangi í bland við harmsögur nýlendutímans til þess að ýta undir söguskoðun sem notuð er til að réttlæta hryðjuverk og grímulaust ofbeldi gegn því sem skilgreint er sem yfirgangsöfl. Og laða æ fleiri til fylgilags við þann ömurlega málstað. Þessi vefur er spunninn af  talsverðu listfengi í gegnum internet og samfélagmsiðla og í gettóum Evrópu þar sem ungt fólk án tækifæra lætur glepjast. Einhverra hluta vegna hefur ekki tekist að búa til andsvar við þessu – valkost sem veðjar á frið og samstöðu og samvinnu. Sem er miður.

Ofbeldið á báða bóga er því eldnseyti fyrir frekari átök – öfgahægrið matar öfga íslam og öfga íslam matar öfgahægrið. Við erum föst í vítahring, nei þeytivindu ofbeldis sem getur sífellt af sér meira ofbeldi og grimmd. Ástandið er galið – það er eiginlega ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Og þróunin virist öll í eina átt – til frekari brjálæðis.

Þegar ég var á kafi í skoða dýnamíkina sem knýr íslam í Evrópu árið 2013, þegar ég var að skrifa meistararitgerð í heimspeki sem fjallar um einmitt um Íslam í Evrópu og sjálfsmyndavandann sem er svo einkennandi fyrir og hættulegur nútímanum ( sjá: http://skemman.is/stream/get/1946/16931/39285/4/Fer%C3%B0in+til+tunglsins-jan.2014.pdf;jsessionid=A5C73FB869F29BC22F0A3C61A1F96227 ) var orðið ljóst að hinir svokölluðu „foreign fighters“ og „home grown terrorists“ væru verulegt og mjög vaxandi áhyggjuefni sem myndi skapa mikla hættu í Evrópu í náinni framtíð. Þá var líka ljóst að það – hversu margir ungir menn og konur voru reiðubúin til þess að snúa baki við samfélaginu sem þau voru fædd og uppalin, snúast gegn því með ofbeldi og eyðilegginugu, skrifaðist að einhverju leyti á gjaldþrota innflytjendastefnur og vangetu fjölmenningarsamfélaga Evrópu til þess að tryggja sömu réttindi og tækifæri fyrir alla –ungum innflytjendum skorti tilfinningu um að vera hluti af samfélagi, tilheyra – oft fannst þeim fremur að þeim væri ýtt út á jaðarinn og mismunað. Því miður átti sú upplifin oft rétt á sér.  Einnig var ljóst að það sem margir upplifðu sem tvískinnung og hentistefnu Vesturlanda höfðu mikil áhrif á þessa þróun. Stríðið gegn hryðjuverkum var sagt háð til að vernda frelsi, mannréttindi og lýðræði – en þessi gildi voru þverbrotin trekk í trekk í framkvæmd hernaðarins  – ég læt duga að nefna pytningar í Guantanamo á Kúbu og Al Ghraib í Írak og drónaárásir Bandaríkjanna sem sætt hafa mikilli gagnrýni – þar sem óbreyttir borgarar hafa fallið í óásættanlegu mæli, til dæmis í Jeman og Pakistan.

Eftir því sem leið á 21. öldina varð sumsé æ ljósara að illa útfærðar innflytjendastefnur (mismunun) og hentistefnupólitík í stríðinu gegn hryðjuverkum væru faktor í uppgangi öfgaíslams og öfgahægrisins – sem eru samtvinnuð fyrirbæri sem nærast hvor á öðru. Þetta er auðvitað ekki afsökun eða réttlæting á þessari þróun – en einn liður sem er mikilvægur til útskýringar á því hvers vegna þetta er að gerast.

Það sem kemur mér því alltaf jafn mikið á óvart þegar ég er skoða gögn einsog skýrslu Europol er hversu lítil áhersla er lögð á að byggja upp samstarf – samstöðu – þvert á trú, uppruna og landafræði að því að vinna gegn þessu ofbeldi. Öfgahægrið og öfgaíslam er í grundvallaratriðum sjálfsmyndarvandi – identity proplem – í veröld sem er að breytast. Það hljómar einsog klisja en sannleikurinn er sá að hnattvæðing hefur haft í för með sér róttækar breytingar frá einsleitni til fjölbreytileika. Og okkur gengur ekkert rosalega vel að vinna úr þessum breytingum. Og okkur mun aldrei takast það með gömlu aðferðunum til að ástunda pólitík – gamaldags realpólítk magnar vandann.

Það er þó – fræðilega séð – hægt að snúar þessari þróun við. Og Ísland gæti átt ríkan þátt í að finna leiðir og verkfæri til þess.

Ég held að ein ástæðan til þess hversu erfiðlega okkur gengur að vinna með sjálfsmyndavandann og átkökin sem flygja er að sjónarhornið sem við höfum á verkefnið er allt of þröngt og takmarkað – gamaldags. Einsog fram kemur í skýrslu Europol stóðu leyniþjónustur og lögregluyfirvöld í Evrópusambandslöndunum sig ágætlega í að hindra hryðjuverk og ofbeldisverk sem voru í bígerð á árinu 2014. Þegar við búum til aðferðir til að vinna með þetta verkefni einblínum við á að auka öryggi – sem er skiljanlegt. Öryggi er miklvægt – mjög mikilvægt og forsenda þess að hægt sé að vinna úr vandanum sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna mokum við fjármunum í leyniþjónustur og lögrelgu, landamæravörslu og eftirlit. En þetta dugar ekki til að uppræta vandann. Eða – í tilviki Íslands – koma í veg fyrir að hann verði til. Vopnuð lögregla í Leifsstöðu mun ekki koma í veg fyrir áskoranir sem við þurfum að takast á við. Til að komast fyrir vandann þarf að grafa undir yfirborðið – uppræta aðstæðurnar sem hann blómstrar í, samhliða því að fókusera á öryggi.

Við verðum að leggja miklu, miklu, miklu meiri áherslu á að vinna úr þeim áskorunum sem sjálfsmyndavandinn – idienty próblemið – hefur í för með sér. Við þurfum að vinna með hugmyndir, gildi og tilfinningar. Við þurfum að skoða aðgengi, möguleika og tækifæri.  Við þurfum að leggja áherslu á samtal, samvinnu, aðgengi og gagnvæma virðingu. Vera tilbúin til að líta í eigin barm og skoða hvort við þurfum að breyta einhverju í okkar ranni – rétt einsog aðir. Í stuttu máli sagt: við þurfum að byggja upp TRAUST.

Þess vegna finnst mér alveg galið að samtal milli múslimasamfélagsins á Íslandi, sem telur örfáar hræður, og samfélagsins á víðari grunni er næstum ekkert.  Einstaka mál rata í upprhópunarstíl í fjölmiðla, en þess á milli hafa fæstir nokkurn áhuga á múslimum á Íslandi. Það er að sum leyti ágætt – gefur vísbendingar um að við höfum ekki ratað í vandræði í sambúðinni hingað til. En blikur eru á lofti og við þurfum að nýta okkur þetta tækifæri til þess að taka meðvitaða afstöðu með samvinnu og leiðum til að byggja upp gagnkvæmt traust. Finna sameiginlegan útgangspunkt.

Yfirvöld á Íslandi hafa eftir því sem rannsóknir mínar benda til mjög lítið aðgengi inn í samfélag múslima Íslandi og almennt litla hugmynd um eða áhuga á því hvernig múslimum á Íslandi líður eða hvaða hugmyndir þeir gera sér um lífið og tilveruna. Hvaða hugmyndir þeir hafa um hvernig við getum varðveitt friðinn og öryggið á Íslandi til frambúðar.

Múslimar á Íslandi hafa aftur á móti sýnt áhuga á því að eiga slíkt samtal en ekki hlotið miklar undirtektir. Þeir hafa áhyggjur af því að óæskileg öfl nái hingað og fari að hringla í fólki í viðkvæmum aðstæðum og telja miklvægt að vinna gegn því – með samstilltu átaki.

Með samhentu átaki gætum við sett fordæmi um farsæla sambúð og sameiginlega andspyrnu geng öfgum úr öllum áttum  – sem gæti nýst sem verkfæri annarra landa til að vinda ofan af þeim vanda sem víða blasir við.

Við getum gert þetta – auðveldlega – ef við ákveðum að gera það.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Innflytjendur eiga að læra íslensku

Í morgun þegar ég var að lesa fréttamiðlana og drekka skírdagsmorgunkaffið rakst ég á litla auglýsingu frá Retor – fræðslu sem sérhæfir sig í fræðslulausnum fyrir innflytjendur. Í auglýsingunni segir að innflytejendur eigi að læra íslensku og síðan er linkur inn á heimasíðu fyrirtækisins þar sem meðal annars er að finna útskýringu á því hvers vegna þetta slagorð er valið. Hjalti Ómarsson, framkvæmdastjóir útskýrir:

„Ástæðan fyrir því að við kjósum að fara þessa leið til þess að vekja athygli á okkur og málefninu er sú að framundan er fyrirsjáanleg mikil aukning á erlendu starfsafli á íslenskum vinnumarkaði. Okkar markmið er að reyna að vekja athygli á því hversu mikilvægt það er að við tökum strax stöðu með tungumálinu og beinum þannig þeim sem hér ætla að búa í þann farveg að læra íslensku.“

Þetta er skynsamleg afstaða  – að öllu leyti.. En mér finnst samt ástæða til að gera athugasemd við þá afdráttarlausu kröfu sem birtist í auglýsingunni sem  fékk mig til að hugsa um öll samtölin sem ég hef átt við innflytendur um pressuna sem þeir finna – þú átt að læra íslensku ef þú vilt verða hluti af samfélaginu – og námskeiðin og fyrirlestrana sem ég hef haldið út um allar trissur fyrir Rauða krossinn á Íslandi með Juan Camilo félaga mínum þar sem við tölum meðal annars um íslensku kunnáttu og mikilvægi hennar en bendum jafnframt á mikilvægi þess að nota íslenskuna ekki sem tól til mismununar. Því margir innflytjendur upplifa þessa afdráttarlausu kröfu – með réttu – sem mismunun.

Íslensku kunnátta er svo sannarlega mikilvæg – en það er ýmislegt  sem við þurfum að hafa í huga þegar við tölum um  að innflytjendur eigi að læra íslensku.

Að læra nýtt tungumál

Í fyrsta lagi: Að læra tungumál er hæfileiki – rétt einsog að spila á fiðlu eða syngja. Það er mjög misjafnt hversu auðvelt eða erfitt það reynist fólki að læra tungumál. Sumir ná því aldrei – sumir ná því mjög fljótt. Ef við höldum þessari afdráttarlausu kröfu til streitu – að innflytendru eigi að læra íslensku – hvað verður þá um þá sem af einhverjum ástæðum hafa ekki hæfileika til tungumálanáms eða ná íslenskunni bara ekki? Ef þeir geta ekki staðið undir þessari kröfu – hvað þá?  Er þá réttlætanlegt að mismuna þeim? Skerða aðgengi að þjónustu og gæðum samfélagsins? Þetta stuðar mig því það er einhverskonar dulin hótun í þessu – þú átt að læra íslensku annars ……….. Og ég veit að margir innflytjendur sem eru að leggja sig alla fram – mjög meðvitaðir um mikilvægi þess að leggja sig fram við íslenskunámið – upplifa þessa skýlausu kröfu stundum á neikvæðan hátt – sem er ekki líklegt til að byggja upp farsæl samskipti milli fólks með ólíkan bakgrunn.

Í öðru lagi: Í samskiptum innflytjandans sem kemur nýr og um margt fákunnandi inn í samfélagið og innfæddra sem eru einsog fiskar í vatni í þessu sama umhverfi er ákveðið valdaójafnvægi sem hin afdráttarlausa krafa um að innflytjendur eigi að læra íslensku ýtir undir. Þetta er partur af tilhneigingu móttökusamfélagsins til að hamra á því sem fólk kann ekki – í stað þess að finna leiðir til að byggja á styrkleikum innflytjenda til að auðvelda aðlögun, aðgengi og já, löngun til að tileinka sér færni í að tala íslensku og lifa hinn íslenska veruleika.  Til að læra íslensku og tileinka sér samfélagslega færni þarf að vera mótívasjón  – því meiri og betri samskipti milli innfltyjenda og móttökusamfélags strax frá upphafi – því líklegra er að þessi mótívasjón geri góða hluti. Sá sem upplifir sig afskiptan á jaðrinum er ekkert sérstaklega spenntur fyir því að vera þátttakendi í samfélaginu sem mismunar honum. Þannig er mannlegt eðli! Ég hef heyrt svo marga innflytjendru lýsa þessu viðhorfi síðan ég fór vinna með málefni þessa hóps. Með þessum hætti hlöðum við upp veggi í stað þess að byggja brýr.

Í þriðja lagi: Fræðin gera ráð fyrir því að það taki að meðaltali 7 ár að læra tungumál þannig að hægt sé segja að maður tali það reiprennandi. Þetta er mikilvægt  – að tala íslensku er ekki annað hvort eða – það er ferli sem tekur mislangan tíma. Sumir geta kannski farið út í búð, sinnt enföldum verkefnum og haldið uppi léttum samræðum en ekki rætt um flókin verkefni í vinnu eða einkalífi, eða sín innstu mál á íslensku fyrr en eftir margra ára íslenskunám og dvöl í landinu – ef þeir ná því þá nokkurntíma. Þess vegna skipir máli að um leið og innflytjendur eru hvattir og studdir til íslenskunáms með ráðum og dáð – að veita líka aðgengi að upplýsingum um mikilvæga hluti – s.s. þjónustu sveitarfélaga, réttindi og skyldur á vinnustað og í samfélaginu almennt, lög og reglugerðir, á máli sem fólk skilur, annað hvort í prentuðu máli eða með túlkaþjónustu. Það eykur skilning og aðgengi – ef fólk á að bíða eftir því að hafa lært nógu góða íslensku til að ölast þann skiling og aðgengi er mjög líklegt að það gerist allt of seint!  Og – aftur – þá hlaðast upp veggir í stað þess að við byggjum brýr!

Ef við tökum kröfunua um að innflytjendur eigi að læra íslensku alla leið – erum við þá um leið að krefjast þess að fólk nálgist allar upplýsingar um ísenskt samfélag á íslensku?  Gera kröfu um að innflytjendur tali íslensku – eða þegi ella? Hvað meinum við eiginlega með þessu? Að fólk eigi að geta farið í Bónus og keypt sér í matinn á íslensku? Að fólk eigi að geta sinnt starfi sínu á íslensku? Að fólk eigi að græja öll sín mál á íslensku? Það er villandi – og getur verið varasamt að setja þessa kröfu svon afdráttarlaust fram.

Í þriðja lagi. Það ER mikilvægt að innflytjendur leggi sig fram við að læra íslensku – og setja sig inn í lög og reglur, menningu og hefðir – og það er jafn mikilvægt að móttökusamfélagið leggi sig fram við að auðvelda aðgengi að vönduðum íslenskunámskeiðum, kennslu og upplýsingum.

EN – við þurfum að varast að nota skerta íslenskukfærni sem tól til mismununar. Því miður er það þannig í dag að tungumálið er mismununartól – til dæmis er mun ólíklegra að fólk sem ber erlend nöfn sé kallaði atvinnuviðtöl, mörgum finnst óþægilegt að hlusta á íslensku talaða með hreim þannig að jafnvel þó svo að fólk tali íslensku – þá er það ekki nóg. Innflytjendur eiga að tala óaðfinnanlega! Í þessu samhengi nægir að nefna veðurfréttamanninn sem talar góða íslensku – en með heyranlegum hreim. Sumum fannst óhæfa að hann læsi veðurfréttir á RUV – einn landsþekktur kverúlant gekk svo langt að halda því fram að það stefndi lífi sjófarenda í voða að láta þess óhæfu viðgangast!

Tungumál er tól til samskipta

Við megum ALDREI gleyma því að tungumál er  fyrst og fremst verkfæri til að eiga samskipti – til að byrja með er það eina krafan sem ætti að setja á innflytjendur sem eru að fóta sig í nýju samfélagi, að þeir leggi sig fram og hafi samskipti við sitt nýja samfélag. Og þeirra nýja samfélag ætti að sama skapi að skuldbinda sig til að hafa samskipti við þá. Í þessu felst gagnkvæm aðlögun. Hún býr til umhverfi þar sem það er hvetjandi fyrir innflytjendur að læra íslensku, þeir átta sig á nauðsyn þess, og fyrir íslendinga að styðja þá til þess. Ef innflytjendur eiga að læra íslensku og það er látin vera forsenda samskiptanna þá erum við að útiloka þá frá þátttöku og samskiptum fyrstu árin, á meðan þeir eru að læra, hlaða upp veggi í stað þess að byggja brýr.

Að lokum langar mig að segja ofurlitla sögu sem innflytjandi sem var á námskeiði hjá okkur Juan deildi með okkur. Um er að ræða konu sem sem hefur mjög gott vald á íslensku – svo gott að það heyrist ekki á mæli hennar þegar hún talar en útlit hennar ber með sér að hún er af erlendum uppruna. Þrátt fyrir þetta frábæra vald á íslensku – í framburði og orðaforða – upplifir hún trekk í trekk að það er ekki nóg til að vera að fullu samþykkt inn í (mála)samfélagið á Íslandi – þrátt fyrir gott vald á málinu, eða kannski einmitt vegna þess, hlustar fólk ekki á HVAÐ hún segir heldur HVERNIG hún segir það og viðbrögðin við því sem hún segir eru oftar en ekki hrós fyrir HVERNIG hún talar en ekki viðbragð eða dómur um HVAÐ hún segir.

Niðurstaða: Jú, það er mjög mikilvægt að innflytjendur læri íslensku og að aðgengi að vönduðu íslenskunámi sé sem auðveldast og útbreiddast. Innflytjendur ættu absalútt að læra íslensku – eins vel og þeir geta. En við þurfum að varast að nota íslenskukunnáttu sem tól til mismununar. Tungumál er fyrst og fremst tól til samskipta – og góð samskipti frá upphafi, á hvaða formi sem þau annars eru, eru forsenda þess að innflytjendum farnist vel á nýjum stað og auka til muna líkurnar á því að þeir læri góða íslensku þegar fram líða stundir.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Sögur frá Kuregem – Brussel

Í morgun vaknaði ég, einsog flesta morgna, frekar ánægð og glöð og var sí svona að velta verkefnum dagsins fyrir mér yfir kaffikönnunni þegar ég heyrði hljóð frá símanum mínum sem gaf til kynna að ég hefði fengið skilaboð á facebook. Ég fór mér að engu óðslega – naut stundarinnar áfram svolitla stund, kláraði að hella upp á morgunkaffið, greip svo símann og las skilaboðin.

Þau voru frá kærum vini mínum og samstarfsmanni sem er af arabískum uppruna en búsettur í Svíþjóð til margra ára. Skilaboðin voru stutt og einföld – en um leið rúmaðist í þeim svo mikil sorg og uggur: Hryðjuverk í Brussel – á flugvellinum og í neðanjarðarlestakerfinu!

Á einu augabragði þyrluðust upp minningar frá einu heimsókn minni til Brussel, þegar ég sótti vinnufund um listina að lifa saman með fólki alstaðar að úr Evrópu. Þetta var á vetrarmánuðum 2010. Fundurinn og aðstaðan sem við nýttum okkur var í jaðri Kuregem hverfisins – arabísks hverfis í Brussel sem hefur mjög illt orð á sér, er stundum jafnvel kallað vígvöllur þar sem átök og glæpir eru daglegt brauð. Oft er vísað til aðstæðna í Kuregem  sem dæmi um hversu gjörsamlega misheppnað fjölmenningarprójektið í Evrópu er.

Ég man enn hve undrandi leigubílsstjórinn sem keyrði mig frá lestarstöðinni (ég kom með Eurostar lestinni frá London) var þegar ég gaf honum upp heimilisfangið sem var áfangastaðurinn. Hann var sjálfur Írani sem hafði búið í Brussel í meira en áratug, hafði unnið sig upp úr fátæktinni sem er hlutskipti arabíska innflytjandans og komið sér þokkalega fyrir í betur þokkuðu hverfi. Hann fullyrti að þetta hverfi væri ekki staður fyrir konu einsog mig og vild fara með mig eitthvert annað. Ég þurfti að þrátta  um þetta við hann í svolitla stund en á endanum féllst hann á að keyra mig þangað, en neitaði að yfirgefa mig fyrr en ég var komin inn í lobbíið á farfuglaheimilinu sem átti eftir að vera aðsetur mitt næstu vikuna.

Mér þótti vænt um þessa hugulsemi, en hugsaði svo sem ekki meira um tortryggni hans í garð íbúa hverfisins. Næstu daga átti ég eftir að valsa um þetta hverfi að kaupa mér ávexti af götusölumönnum og konum, tylla mér á bekk og fylgjast með iðandi mannlífi, spjalla við Hussen gamla vin minn sem rak sjoppuna á horninu sem pússaði hand mér epli fyrsta daginn sem ég kom til hans, dró mig bakatil í búiðinni sinni til að selja mér bestu kryddin sín því hann var svo ánægður með að ég gat babblað nokkur orð á arabísku  á öðrum eða þriðja degi og gaf mér svo box af baklava í kveðjugjöf þegar ég kom að kveðja hann daginn áður en ég fór heim.

Sem ég sat sem lömuð yfir morgunkaffinu og fréttamiðlum í morgun, og reynda að ímynda mér hverjar afleiðingar þessa óhæfuverks verða varð mér líka hugsað til ungu mannanna frá Brussel sem tóku þátt í vinnufundinum og kenndu mér svo margt dýrmætt um listina að lifa saman – þar á meðal var Mohammed. Félagsráðgjafi sem vann með ungum, afvegaleiddum strákum í Kuregem. Ég var á þessum tíma sjálf að vinna með ungum mönnum af arabískum uppruna sem margir hverjir áttu erfitt og Mohammed var hafsjór af ráðleggingum um hvernig við gætum stutt þá til innihaldsríks lífs – mannvirðingar. Mohammed notaði svo oft orðið mannvirðing – human dignity.  Umhyggja hans gagnvart skjólstæðingum sínum – og mínum – snart mig djúpt.  Hann var sjálfur frá Alsír og hafði komið með innflytjendafjölskyldu sinni sem kornarbarn og sest að í Brussel. Vegurinn frá innflytjendahverfunum í Brussel til starfa fyrir félagsþjónustu borgarinnar að málefnum ungra  innflytjenda í vanda hafði verið langur og torfarinn. En honum tókst að feta hann með sóma  – og ekki nóg með það heldur lagði hann líka stund á meistaranám í alþjóðsamskiptum við Sorbonne háskóla. Einn af fáum úr sínum hópi sem komst svona langt – en hann sýndi fram á að það er hægt.

Ég hugsaði líka um Kimbareta, strákinn frá Kongó sem hafði aðeins dvalið í nokkur ár í Brussel en ratað í meiri vandræði á þeim stutta tíma en ég alla mína ævi. Með hjálp Mohammeds, sem var mentorinn hans, sagði hann mér frá því hversu erfitt lífið gat verið í hverfi einsog Kuregem, þar sem atvinnuleysi var í hæstu hæðum, tækifærin af skornum skammti og íbúar upplifðu að aðrir óttuðust þá og tortryggðu. Útskúfun,  exlusion,  var orðið sem Kimbareta notaði svo oft til að lýsa hvernig honum leið.

Kuregem er einsog eyja,“ sagði Kimbareta. „Ekki ævintýraeyja með fjársjóði og pálmatrjám þar sem maður hvílir sig í skugganum sæll og glaður á meðan sólin glitrar á sjónum. Nei, þetta er eyðieyja þar sem ekkert þrífst – bara svartur sandur og harðar klappir og kaldur vindur næðir stanslaust um mann þar.“

Já, hann var skáldmæltur hann Kimbareta og dreymid um að verða rithöfundur og skrifa bækur um reynslu sína. Honum var bjargað af þessari eyju á ögurstundu. Hann hafði snúist til pólitíska íslam í Kuregem og verið uppfullur af reiði og biturð áður en hann fann mentor sem tók að sér að vísa honum farsælli leið – ef hann hefði ekki verið svo lánsamur að kynnast Mohammed og hjartahlýju hans væri hann mögulega búinn að vefja um sig sprengjubelti og sprengja sig í loft upp.

Ég man líka eftir samtali sem ég átti við þessa ungu menn,  og fleiri af arabískum uppruna sem sóttu vinnufundinn með okkur, um fræga ræðu sem Barak Obama flutti í háskólanum í Kaíró í júní 2009 – um nýtt upphaf í samskiptum Vesturlanda við heim Íslam. Ég var full af bjartsýnni von um að okkur tækist að byggja brýr og hnýta vinabönd, binda enda á ruglið sem hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum og hörmulegir eftirmálar þess eru – þeir sögðust ekki trúa á breytingar fyrr en þeir sæju þær.

Þegar ég hugsa um þetta samtal núna finn ég að því miður höfðu þeir rétt fyrir sér – bjartsýni mín þá var á sandi byggð.

Ekkert breyttist – þvert á móti hefur ástandið versnað til muna síðan, einsog hörmulegir atburðir morgunsins vitna um.

Ég vona að okkur beri gæfa til að falla ekki í gryfju haturs og skemmandi ótta í kjölfar þessara hræðilegu árása í Brussel. Ég vona að allar heimsins Önnu Lárur og Mohammedar og Kimbaretar taki höndum saman – tali saman og byggi upp samkennd og samstöðu.

Við verðum að standa saman sem einn maður gegn þessu brjálæði!

Kærleikur og traust verður að trompa hatur og tortyrggni.

Með þessum orðum svaraði ég facebook skilaboðum vinar míns í Svíþjóð – við verðum að halda áfram að vinna saman, deila reynslu og opna sýn. Byggja brýr.

Jafnvel þó svo að fáir séu reiðubúnir að  ganga yfir þessar brýr. Við verðum að halda áfram að reyna. Ég og vinur minn í Svíþjóð – og við öll! Af því að það er eina leiðin fram á við.

Posted in Uncategorized | Leave a comment