Upphaf og forsendur flóttamannamála – III: Hluti

Flóttamannastofnun og flóttmannasamningurinn

Vandi flóttamannanna hvarf auðvitað ekki þótt heimurinn reyndi að loka augunum fyrir honum um stund. Þegar kom fram á árið 1951 hafði vandinn þvert á móti vaxið; stríð, hungursneyðir, átök og ofbeldi hafði hrakið enn fleiri á flótta út fyrir eigin landamæri. Upprunaland flóttafólks var ekki lengur bundið við Evrópu. Átökin um stofnun Ísraelsríkis í Palestínu höfðu orðið þess valdandi að Palestínu Arabar hröktust þúsundum saman á flótta. Kóreustríðið[1] hófst sumarið 1950 og fólki á flótta undan óbærilegum lífsaðstæðum og átökum fjölgaði stöðugt. Ljóst var að flóttamannavandinn fór frekar vaxandi en minnkandi og bregðast þurfti við með einum eða öðrum hætti.

Við þessar aðstæður fór alþjóðasamfélagið að ræða möguleikann á því að byggja upp nýja stofnun undir hatti Sameinuðu þjóðanna – Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, til þess að bregðast við vanda flóttamanna. Einnig var rætt um  mikilvægi þess að semja sérstakan samning eða regluverk sem fjallaði um stöðu þeirra og skyldur ríkja gagnvart þeim á  grundvelli 14. greinar mannréttindayfirlýsingar Semeinuðu þjóðanna sem kveður á um rétt manna til að leita og njóta griðlands. Niðurstöður umræðunnar birtust í Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem var saminn á rétt rúmum sex vikum á fundum tuttugu og sex ríkja sem hittust til skiptis í Genf og Washington. Flóttamannasamningurinn endurspeglaði aðstæðurnar sem blöstu við í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari og tekur mið af pólitískum hagsmunum sigurvegaranna. Lönd austur Evrópu neituðu að senda fulltrúa á fundinn, enda þeirra sjónarmið að flóttamennirnir sem eftir urðu í flóttamannabúðum í Evrópu eftir stríðið væru svikarar og landráðamenn og því tæplega rétt nefndir flóttamenn. Bandaríkin, sem töldu sig hafa eytt nógu miklu fé í flóttamenn í Evrópu, lögðu áherslu á að flóttamannasamningurinn og stofnunin sem færi með málefni flóttamanna, myndi einvörðungu beita sér fyrir vernd, ekki lausnum, og ekki vera fjárfrek. Bretar, sem í þá daga höfðu tekið á móti fáum flóttamönnum, lögðu til að hvert og eitt ríki bæri fjárhagslega ábyrgð á þeim flóttamönnum sem dveldust innan landamæra þeirra. Frakkar, sem höfðu stóran hóp flóttamanna innan sinna landamæra andmæltu þessu og vildu að byrðinni yrði deilt milli þeirra ríkja sem tóku þátt í verkefninu. Þýskaland, Austurríki og Ítalía, sem hvert um sig hafði innan sinna landamæra mjög stóran hóp flóttamanna sem enn beið úrlausna sinna mála í flóttamannabúðum, höfðu ekki rödd við samningaborðið.[2]

Því má segja að strax í upphafi hafi sá farvegur verið markaður sem umræðan um málefni flóttamanna hefur alla tíð verið í; enginn vill taka ábyrgð og vandanum er ýtt að þeim sem eiga ekki annarra kosta völ en takast á við hann jafnvel þótt bjargirnar séu litlar eða engar.

Louis Henkin var ungur lögfræðingur í innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og tók þátt í vinnunni við að semja Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem er grunnur Flóttamannasamningsins einsog margra annarra mannréttindasamninga. Að hans sögn fór mestur tími í að rökræða hugtakið flóttamaður og skilgreina hver teldist flóttamaður og hvers vegna. Einnig var rætt hvort samningurinn ætti að kveða á um „rétt til  að njóta griðlands“ eða aðeins „rétt til að leita griðlands.“[3] Á endanum voru bæði orðin felld inn í samninginn og 14. grein yfirlýsingarinnar, sem áður hefur verið vitnað til, hljóðar svona: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“  Það voru Frakkar, minnugir þess hvernig Evrópa hafði gjörsamlega brugðist Gyðingum sem leituðu griða undan ofsóknum nasista, sem höfðu forgöngu um að 33. greinin yrði felld inn í flóttamannasamninginn, en hún bannar brottvísun flóttamanna til landa þar sem þeirra bíða osfóknir.[4] Sú grein reynist oft eina líflína þeirra sem leita hælis í Evrópu undan ofsóknum. Of oft reynist þó lítið hald í þessari líflínu vegna þess að þrátt fyrir að litið sé á mál hvers einstakling sem leitar hælis sem einstakt er almennum mælikvörðum of oft slegið á sögu hans og ekki tekið tillit til þess að þó ástand sé almennt þannig innan landamæra upprunalandsins að almenningur njóti ásættanlegs öryggis geta einstaklingar sætt ofsóknum og búið við lífshættulegar aðstæður.  Þetta getur reynst afdrifaríkt fyri reinstaklinga í hælisleit.  Ef þeir sem fjalla um mál hælisleitenda nálgast sögur þeirra sem óska eftir vernd á of einfölduðum, pólitíksum forsendum eða hafa ekki innsýn í aðstæður í upprunalandinu er hættan sú að „glæpnum“ verði snúið upp á fórnarlambið, ef svo má segja.

Nokkur ríki heims gefa út lista um svo kölluð örugg lönd sem notaður er til viðmiðunar þegar hælisumsóknir eru metnar. Þeir sem koma frá þessum svokölluðu öruggu löndum fá iðulega flýtimeðferð og yfirleitt er umsókn þeirra ekki tekin til efnislegrar meðferðar heldur þeim vísað úr landi innan 48 klukkustunda. Í útlendingalögum á Íslandi er heimild til að styðjast við slíkan lista og hefur hún verið nýtt, einsog sjá má í Ársskýrslu útlendingastofnunar 2013 þar sem veruleg fækkun mála sem tekin voru til efnismeðferðar er útskýrð með þessum hætti.[5]

Flóttamannasamngingur Sameinuðu þjóðanna hefur lítið sem ekkert breyst síðan hann var saminn og samþykktur árið 1951 að öðru leyti en því að gildissvið hans hefur verið rýmkað í tíma og rúmi. Árið 1967 var samþykktur viðauki við samninginn sem felldi úr gildi takmarkanir sem gerðu það að verkum að þeir einir töldustu flóttamenn, í skilningi samningsins, sem lent höfðu á flótta í Evrópu fyrir 1. Janúar árið 1951. Með viðaukanum falla allir flóttamenn á öllum tímum undir samninginn, svo framarlega sem þeir hafa farið yfir landamæri upprunalands síns.

[1] Kórestríðið er oft talið marka upphaf vopnaðara átaka í kalda stríðinu.

[2] Caroline Moorehead (2005): bls, 37.

[3] Sama rit, bls, 37.

[4] Sama rit, bls, 37.

[5] Sbr. 3. mgr. 50. gr. d útl. Orðrétt segir: Í málum þeim sem greinir í b-lið 1. mgr. er Útlendingastofnun heimilt að styðjast við lista yfir ríki sem almennt eru álitin örugg upprunaríki. Með öruggu upprunaríki er átt við ríki þar sem einstaklingar eiga almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða verða fyrir alvarlegum mannréttindabrotum. Útlendingastofnun er skylt að halda með skipulegum hætti utan um slíkan lista. Skal hann uppfærður reglulega og birtur á vef Útlendingastofnunar.

Hér má sjá skýrslu Útlendingastofnunar 2013: : http://utl.is/files/Ymislegt/rsskrsla_2013.pdf

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a comment